Jólatröll????

Hann er runninn upp 50. föstudagur á því herrans ári 2019.  Yndislegur morgun, en brunagaddur eða þannig,  bíllinn minn sagði mér að það væru 7 gráður í mínus góðir hálsar.  En það er blankalogn og dagurinn er fagur.

Mér hefur blessunarlega tekist í gegnum árin að láta jóla jóla jóla æðið framhjá mér fara.  Ég veit ekki hvað hefur gerst en þetta árið er ég alveg að verða tjúlluð á öllum auglýsingunum sem dynja á mér í öllum miðlum hugsanlegum.   Ertu búin að kaupa???  ertu búin að fara á tónleika???  ertu búin að njóta???  ertu búin að ÖLLU???  eða ertu lúði???  Þessi söngur er búinn að hamast í eyrunum á mér alveg síðan í nóvember  og ég er búin að fá nóg.  Mikið er ég farin að skilja hann Trölla, sem bara greip til þess örþrifaráðs að stela jólunum.  Ég er ekki hissa að vesalings börnin séu útúrtauguð á allri gleðinni sem á að grípa þau.  Þau hljóta að vera að kafna úr stressi þessa dagana, þegar jólasveinarnir taka uppá því að setja gjafir í skóinn.  Þegar litlu augun eru í þann mund að lokast og þau hlakka svo mikið til að sjá hvað sveinki hefur gaukað að þeim  ó nei þá muna þau eftir að þau voru óþekk, æi það var grenjað í Bónus eða litli bróðir kýldur aðeins of fast.  Augun glennast upp og þau fá kvíðakast yfir kartöflunni sem þau eiga nú von á frá sveinka.  Er þetta virkilega jólaandinn?  jamm þetta er hann svo sannarlega.  Og ég er smituð, ég er farin að örvænta yfir að það eru ekki svo mörg ljós í gluggunum mínum.  Eru jólagjafirnar, sem ég er búin að kaupa, ekki nógu  góðar?  Erum við gömlu púkó að ætla ekki að gefa hvort öðru pakka?  Skyldi sósan heppnast þetta árið?

Það eru 36 jól síðan ég gerði ekki neitt fyrir jólin, engar sortir bakaðar, enginn skápur þrifinn, ekki einu sinni keypt jólatré, en vitiði hvað?  Jólin þau voru yndisleg, við litla fjölskyldan með litlu splunkunýju stelpuna okkar áttum yndisleg, róleg og dásamleg jól.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég tek alveg undir að allar þessar auglýsingar eru að stressa mig verulega.  Af hverju þurfa allir að NJÓTA aðaventunnar svona svakalega, þú gleymdir alveg öllum jólahlaðborðunum sem þarf að fara á.  Mér finnst best að vera heima og dunda mér við að setja jólasveina og jólaljós hér og þar eftir því sem mig langar til.  Er hægt að slökkva á öllum auglýsingunum og öllum tilboðunum sem ekki er hægt að sleppa?

Þórdíers Richter (IP-tala skráð) 13.12.2019 kl. 11:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband