28.6.2013 | 10:12
26. og fúll er hann.
Við vorum nokkuð brattar ég og voffan í morgun, þegar við skunduðum af stað. En þegar á túrinn leið var ég bara að spuglera í hvort ég myndi drukkna í rigningunni og voffan vildi bara heim.
Og upphefst nú mikið tuð. Hvað er gæinn á efstu hæðinni eiginlega að hugsa? Er hann alveg orðinn snargalinn? Ég meina það ef ætlunarverkið var að kippa okkur aftur í veruleikann, eftir undanfarin dásamleg sumur, well þá er það löngu áorkað. Ég var næstum búin að gleyma sumrinu 84, þegar við ungu hjónin lögðum af stað í hringferðina með litla krílið okkar. Þá rigndi svoleiðis að við, með tjaldið hennar Millu miðsystur í skottinu, ætluðum að dóla okkur, tjalda hér og þar og ef skyldi rigna, þá vorum við með plan um að gista á Eddu hótelum, en bara í neyð. Welllllll, við gistum fyrstu nóttina, hvar haldiði? jú á Eddu hótelinu á Skógum. Sem betur fer vorum við með vegahandbókina í farteskinu, því án hennar hefðum við ekkert vitað um náttúrufegurð landsins. Jæja höldum áfram, höfðum hugsað okkur að gista í tjaldinu okkar á Höfn. Við misstum algjörlega af Jökulsárlóninu, þá sá bara ekki út úr augum, jú og þetta var í miðjum júlí krakkar mínir. Þegar nær dró Höfn, vorum við búin að sjá að ekki var í boði að gista í tjaldinu með ungann. Ekkert Eddu hótel á Höfn og alveg eins og þegar nafna mín þurfti á gistingu að halda fyrir nær 2000 árum síðan, þá var ekkert rúm á hótelinu svo það var ekkert annað að gera en að bruna á næsta Eddu hótel, sem var á Breiðdalsvík já börnin góð Breiðdalsvík og barnið 6 mánaða afturí. Næst var stefnan tekin á Hallormsstað, þann unaðsstað. Það var kannski ekki rigning þar en það var svo kalt að ekki var hægt að gista með barnið í tjaldi, júbb Eddan var það heillin. En þar sem var þurrt þá ákváðum við að gista í 2 nætur. Akureyri var næst á dagskrá, ekki þurfti þar að reyna á snillii okkar við tjöldun svo aftur varð Eddan fyrir valinu. Þegar þarna var komið sögu voru ungu hjónin orðin svo leið á þessu ferðalagi að ákveðið var að bruna bara heim og hana nú. En þegar í Borgarfjörðinn var komið var hætt að rigna viti menn og ungu hjónin ákveða að tjalda í Munaðarnesi. Svona var nú sumarið 84.
Ekki voru öryggismálin í bílferðinni stórkostleg. Við vorum mjög ábyrgir foreldrar og keyptum okkur ólar til að festa burðarrúmið í bílinn...... ekki dettur nokkrum lifandi manni í hug að hafa barn óbundið í burðarrúmi í bíl. Burðarrúmið, hefði kannski ekki farið neitt, en barnið hefði bara skoppað úr því, en í hringferðinni góðu höfðum við ábyrgu foreldrarnir farið til Gunnars Ásgeirssonar og keypt þennan líka fína bílstól og þá var ekki hægt að hafa bæði ólarnar fyrir burðarrúmið og bílstólinn og barnið þurfti að geta lagt sig..... það var leyst snarlega. Það var bara festur rafmagnsvír utan um burðarrúmið, get svo svarið það og enn vorum við sérstaklega ábyrgir ungir foreldrar. Nú til dags, má alls ekki nota bílstóla á Íslandi, sem eru keyptir í Ameríku, neibb þeir eru ekkert öruggir enda ekki með Evrópustimpil og það er svona "notist fyrir" dagsetning á þeim og eftir það hvað gerist þá? Detta þeir í sundur? æi má ekki vera einhver gullinn meðalvegur.
Þótt við gömlu séum ekki lengur ungir foreldrar þá erum við að spuglera í því að fara í tjaldútilegu um helgina. Gamli sér samt ekki alveg fyrir sér hvernig frúin ætlar að meika að koma sér af stað af tjalddýnunni, en það verður bara að koma í ljós, hún er amk heppin að gamli getur tosað hana af stað. En ég held að helsti áhrifavaldurinn verði gæinn á efstu hæðinni og hvort hann fer nú ekki að hætta þessari regn vitleysu.
Eftir bjartsýniskast síðasta föstudags, þá held ég bara krakkar að sumarið verði svona sorry.
Hengi ekki út í dag, en dröslast bara í staðinn við að þrífa
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2013 | 10:32
Sólríkur er hann sá tuttugasti og fimmti í röðinni
Ekkert annað að gera en að skottast út í langan túr. Við voffan alveg himinlifandi yfir blíðunni og nú getur konan hengt út, svei mér þá.
Þegar við trítluðum meðfram Arnarnesvoginum, kom upp í hugann, hvað var skemmtilegt á góðu sumarkvöldi í fyrra að fá sér góðan göngutúr í litla kaffihúsið sem var við voginn. Bara í litlum skúr og bara opið fimmtudags til laugardagskvöld. Þetta gerðum við oft, við gömlu, föttuðum reyndar ekki að voffan hefði meira að segja verið velkomin, en okkur þótti þetta skemmtilegt. En kaffihúsakonan fékk ekki að byggja, "sumarhús" á lóðinni. Þið vitið svona tilbúið hús, sem eru út um allar trissur. Nei það passaði ekki inn í hugmyndir um svæðið. Og þess vegna er ekkert kaffihús í bænum núna, við trítlum aldrei á sumarkvöldi til að hlusta á tónlist, já hún var oft með tónlistarmenn að troða upp, fá okkur rauðvínstár eða kaffibolla. Ég sakna þess.
En ég fór á annað kaffihús um daginn, bara rétt um hádegi að hitta frænku mína. Gvöð hvað við vorum púkó. Þarna sátum við eins og einhverjar hallærishænur og spjölluðum. Við vorum algjörlega púkalegastar á svæðinu, þarna sat fólk í bunkum, annaðhvort önnum kafið við mikilvæg störf í tölvunni eða í símanum. Og við sátum þarna eins og sauðir og spjölluðum. Ég bara get ekki á mér heilli tekið hvað þetta var neyðarlegt og er satt best að segja pínu hissa að við skyldum ekki vera beðnar að yfirgefa staðinn svo stungum við í stúf. Ég held að við verðum að endurskoða kaffihúsahefðir okkar og næst vera ekki svona sauðslegar og hafa með okkur tölvu og vera bara á tjattinu á feisbúkk. Þá lúkkum við svo miklu betur. Nei svona í alvöru, hvað er eiginlega í gangi? Eru allir svona obboð önnum kafnir og mikilvægir að þeir hafi ekki stund til að fá sér hádegismat? Mér finnst ég stundum eins og risaeðla að vera svona forn í hugsun, en mér finnst þetta bara svaka asnalegt. Og hana nú.
Í blíðunni í morgun mættum við voffan alveg milljón kellingum á labbi, við höfum sannast aldrei mætt eins mörgum kellingum á túrum okkar. Hvaðan komu allar þessar kellingar? spruttu þær uppúr öllum holum og skurðum? tja er von að maður spyrji, held að það sé sólinni að kenna.
En svona í lokin. Ég hef kenningu..... ég hef þá kenningu að núna sé sumarið komið og það verði bongoblíða fram á haust og ekkert minna.
Farin að huga að þvottinum á snúrunni úti.
Tjá
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.6.2013 | 09:57
Númer 24 er hann þessi föstudagur
Og auðvitað erum ég og voffan búnar að skondrast út í morgun. Veðrið, tja, veit ekki hvað skal segja, þungbúið, hvorki heitt eða kalt, dálítið afskiptalaust. Voffan í miklum ham og ég takk fyrir bara góð og spugleraði ýmislegt.
Varð dálítið hugsi þegar ég las fyrirsögn áðan á DV.is, þar sem sagt er frá miðli í USAinu sem sagði til um fjöldagröf á landareign pars eins og þar lægu 25 til 30 sálir helst til börn. Auðvitað komst þetta í fréttirnar og á netið og allt logaði, aumingjans fólkið, sem annars var bara sekt um að borða kannski óhollt á föstudögum, var útskúfað úr samfélaginu, hótað öllu illu og hvaðeina. Þið fattið hvert ég er að fara? Athugasemdakerfi netsins er alveg svakalegt. Ég held svei mér þá að þar safnist saman allir þeir sem alla jafna ættu að hugsa 75 sinnum ráð sitt áður en þeir slá staf á lyklaborðið. Þið munið nú líka eftir hundinum Lúkas, sem átti að hafa mætt skapara sínum eftir hræðilegar pyntingar. Þar var nú aldeilis einn náungi nánast tekinn af lífi fyrir glæpinn, engu máli skipti þótt engar sakir finndust, jú hann drap Lúkas. Kertafleyting á tjörninni og alles, allt til að minnast Lúkasar og hans hræðilegu píslargöngu. En hvar var Lúkas á meðan? jú hann var uppi í fjalli einhversstaðar. Og fólki þótti bara ekkert svo skrítið að saka piltinn um gjörninginn. Er ekki eitthvað verulega að? Kommenta svo plís..... er ég orðin kolkreisí. Nú á ég á hættu að allir 13 lesendurnir mínir, já þið eruð orðnir 13, froðufelli, sendi haturs ahtugasemdir, ekki segja kommenta, yfir hvað ég ætti nú að halda kjafti og hætta þessu bulli og kannski lesa mér til í íslensku.
Fyrsta golfmót sumarsins er í kvöld. Af því tækifæri settist ég niður í gærkvöldi og horfði á US Open, gæti kannski pikkað upp eitt eða tvö trix. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir hvað margir koma að horfa á golfmót. Ég hef nú farið á 2 stykki á PGA túrnum og veit að það er gomma af liði, en núna er US Open haldið á "litlum" velli þannig að það koma ekki nema kannski 30-40 þús manns á dag, já góðir hálsar á dag. Þetta er fjögurra daga mót þannig að það er einhvers staðar á milli 120 og 160 þúsund manns sem leggja leið sína að líta kappana augum. Ég á nú ekki von á svo mörgum áhorfendum á leik minn í kvöld, en svona til vonar og vara ætla ég að vera hugguleg til fara, pússa kylfurnar mínar, setja upp nýjan hanska og spila með nýrri kúlu. Þið takið eftir að ég segi "nýrri kúlu" ég ætla nefnilega að spila allan hringinn með sömu kúlunni, ætla ekki að vera eins og flón út um allar koppagrundir og týna kúlum hægri vinstri. Ekki í kvöld. En aftur að þeim köppum, sem ég ætla að reyna að herma eftir. Þeir eru svo flinkir að hið hálfa væri svoleiðis miklu meira en nóg. Það hefði nú verið enn meira gaman að horfa á ef hann Sam okkar í Highlands Reserve hefði náð í gegn. Hann er bara 16 ára og var sorglega nálægt því að ná í gegn. Hann Sam er bara nágranni okkar, systir hans, mamma, pabbi og hundspott eiga bara heima nánast í næsta húsi við okkur. Hann er breti og Ian Poulter segir að hann sé sá allra besti sem hefur komið fram og ætti að vera helsta vonarstjarna þeirra Tjallana. Hann spilar alltaf völlinn okkar í eftirmiðdaginn og ég var að lesa í gærkvöldi að völlurinn okkar var lengdur, bara fyrir hann, því hann er orðinn eiginlega of högglangur fyrir völlinn. Það voru pabbi hans og tveir vinir pabbans, sem gerðu nýja teiga. Æi mér finnst það svo krúttlegt, pínu eins og bara hérna á klakanum. Pabbinn vill að stráksi spili heima og þá skokkar hann bara og spjallar við hann Matt og hviss bang, þeir sjóða saman hvernig á að gera og græja og pabbinn og vinirnir ganga í málið. Frábært.
En ég þarf ekki svona langa teiga. Mér duga bara þessir allra fremstu. Flott í tauinu með nýja kúlu og nýjan hanska skunda ég út á völl og skal standa mig vel.
Þori varla að biðja um komment, en læt vaða..... og kommenta svo
Óver and át
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2013 | 09:02
Sá tuttugasti og þriðji stimplaði sig inn í morgun.
Leit nú bara ágætlega út í morgun þegar við voffan skutluðum okkur út. Ég var að spuglera eins og oft áður, hvort ég gæti ekki bara hengt út..... voffan í fínum gír hélt sínum spuglurasjónum alveg út af fyrir sig.
Tókuð þið eftir að ég var að spá í hvort ég gæti hengt út? Er þessi kona, þ.e. ég alveg með þvott á heilanum? kannski, en ég vildi að ég gæti haft hann úti á snúrum núna. Mér varð ekki að ósk minni því það byrjaði að rigna í spássitúrnum. Vonandi bara skúr í þetta skiptið
Nú er átakinu "hjólað á ógnarhraða á göngustígnum" augnýsinlega lokið, það var bara einn, já aleinn hjólari á stígnum í morgun, allir þeir sem , voru svo góðglaðir og brunuðu í vinnuna á hjólunum sínum, alveg handvissir um að NÚNA væri þetta komið, héðan í frá hjóla ég ALLTAF í vinnuna. Well þeir eru farnir af stígnum, trúi ekki að þeir séu allir hættir að vinna eða komnir í sumarfrí, nei ég held að þeir séu búnir að parkera hjólunum sínum snyrtilega í geymsluna, skutla hjálminum aftast í skápinn og farnir að keyra aftur í vinnuna. En framtakið var gott, það voru þó þessir nokkru dagar sem hjólið var tekið fram og þótt ég og voffan höfum oft verið pínu pirraðar yfir öllu þessu hjólaliði, þá var þetta skemmtilegt. Ég hef oft látið mér detta í hug að við voffan færum í hjólatúr, en hún er svo obboð vitlaus í samskiptum sínum við reiðhjól, sælla minninga, þegar gamli fór með hana í túr á hjólinu sínu. Þið munið, hún á stíginn og ekki bara okkar stíg, heldur alla stíga sem hún stígur sínum virðulegu þófum á. Jæja, hann á hjólinu og hún á þófunum. Kemur ekki einhver hundur, sem augsýnilega hafði ekki hugmynd um eignarhald stígsins. Mín þurfti auðvitað að athuga málið og skýra út fyrir þessum heimska hundi hver ætti stíginn. Það var bara eitt smáatriði sem hún klikkaði á, hjólið, þið munið gamli var á hjóli. Obbosí og hann hjólaði á hana!!!!! Hún slasaðist ekki mikið, var pínu aum í nokkra daga en svo var það búið. Þetta minnir mig á að ég reyndi svo að losna viið hana í vor... æi æi æi, hún átti að hoppa uppí bílinn, afturí þið vitið en ég var akkurat í sömu mund að loka framhurðinni, einhver misskilningur á ferðinni því þegar ég skellti hurðinni var lítil hundstík á milli. Og núna meiddi frúin sig. Mikið mar, svo svöðusár á síðu og brotið hjarta hurðarskellarans. Oj Oj OJ fæ hroll við tilhugsunina.
En krakkar er ekki sumarið komið núna ? Ég held það
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)