Febrúar að verða búinn

Búin að birgja mig upp með kaffibolla, stinga tölvunni í samband og gá til veðurs.  Það er nú ekki svo gott að ég sé búin að fara út í morgun, ég læt duga að kíkja út um stóru gluggana mína og taka stöðuna.  Í nótt var hríð þegar ég vaknaði einhverntíman eftir miðnætti.  Núna er yndislegt veður, en það hefur snjóað heil ósköp sýnist mér. Þá er nú kaffibollinn ljúfur ekki síst þegar frúin þarf ekki að æða út, þótt hún ætli nú að skottast í nokkur erindi á eftir.

Ég vakna á hverjum morgni við fréttirnar kl. 7.  Í alvörunni, er hægt að byrja daginn á ömurlegri nótum?  Ég bara man ekki eftir þeim morgni sem þær segja mér að dómsdagur sé í nánd og jafnvel bara eftir hádegi, jú reyndar þegar Hildur Guðna vann Óskarinn, þá tróðu þeir þeirri frétt á milli ömurlegheitanna.  Mikið vildi ég óska að hann Magnús Hlynur yrði fenginn til að sjá um 7 fréttirnar, þó ekki væri nema í eina viku.  Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki alltaf verið æstasti aðdáandi hans, en núna er hann minn uppáhalds.  

Á morgun er hlaupársdagur og enginn venjulegur hlaupársdagur, því fyrir 100 árum fæddist hann pabbi minn.  Mér verður oft hugsað til hennar ömmu minnar á þessum tíma, hugsið ykkur þremur vikum eftir að hann pabbi fæddist dó litla stúlkan hennar.  Hún amma fékk enga áfallahjálp, hún fékk ekki neina meðferð af neinu tagi.  Hún amma trúði á guð sinn og trúin á hann hjálpaði henni að komast í gegnum öll áföllin sem dundu á henni ömmu.

Hann pabbi minn var merkilegur maður.  Hann var svo sannarlega ekki allra.  En hann pabbi var duglegur maður og kom okkur öllum 5 systkinunum vel til manns.  Ég man alltaf þegar ég var lítil stelpa á Bústaðaveginum.  Þá voru einhverjir krakkarnir að tala um að það væri ekki til peningur heima hjá þeim.  Ég var svoleiðis alveg steinhissa, því ég hafði aldrei heyrt talað um skort á peningum nú eða bara peninga yfir höfuð.  Ég bara trúði því og hélt að við værum flugrík.  Reyndar var það svoleiðis að þegar ég fór til tannlæknis, þá fékk ég pening hjá pabba, ég fékk oftast ekki nóg fyrir reikningi doksans og þótti það frekar fúlt, en núna skil ég að það voru ekki til meiri peningar.  Hvenig líka átti að vera til gomma af peningum?  Slökkviliðið hefur nú aldrei verið hálaunastaður.  En pabbi vann ekki bara hjá slökkviliðinu.  Hann vann alltaf aukavinnu.  Hann skóf og málaði útihurðir, á tímabili seldi hann rækjur og fleiri aukavinnur hafði hann.  Lengst af vann hann við innrömmun.  Hann var vandvirkur og ýmsir listamenn fengu hann til að ramma inn listaverk sín og oft fékk hann að hluta til greitt með listaverkum.  Það héngu því á vegg í húsi á Bústaðaveginum málverk eftir Gunnlaug Blöndal, eftir Pétur Friðrik voru 2, Eyjólfur Eyfells átti sinn stað, Finnur Jónsson var þarna líka, Jón Jónsson og Sigfús Halldórsson.  Þetta eru þeir sem ég man eftir í fljótheitum.  

Pabbi minn kvaddi okkur allt of fljótt.  Hann var aðeins 69 ára þegar krabbinn lagði hann að velli.  Í veikindum sínum skrifaði hann endurminningar sínar á gulan pappír.  Enginn hafði hugmynd um þetta og fundum við systkinin gulu síðurnar þegar við vorum að ganga frá hlutunum hans.  Þessar endurminningar eru gullkista, sem segja okkur svo margt um pabba alveg frá hans uppvexti og þangað til hann er að glíma við veikindin.  Hann segir okkur frá þegar hann komst í nám í skipasmíðum, en það losnaði pláss í Daníelsslipp þegar lærlingur þar drukknaði.  Lærlingurinn sem drukknaði var bróðir pabba.  

Pabbi var hrjúfur maður með gullhjarta.  Það var ekki betra að biðja neinn um greiða.  Hann hafði mjög ákveðnar skoðanir og gat haft hátt þegar hann varði þær.  Lengi vel þótti mér ekki smart ef einhver sagði að ég væri eins og hann pabbi, en núna væri ég mjög hreykin að vera líkt við hann.  Hann var góður maður.  Ég minnist hans með virðingu, væntumþykju og hlýju.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband