Framvinda námskeiðs

Einn einn föstudagurinn runninn upp og frú í Hafnarfirði sest með kaffibollan við tölvuna.  Fyrir utan gluggann lítur út fyrir að vera yndislegt veður, logn og blíða en tölvan mín segir að það séu 4 gráður í mínus.

Og Veiran er komin og það með bravör.  Sem betur fer er enginn alvarlega veikur, en mikið hlýtur vesalings fólkið að vera óttaslegið.  Fréttaflutningurinn er þvílíkur að það virðist vera að Veiran slái fullfrískt fólk í duftið á mettíma og fáir rísi aftur upp.  Útfararstjórar hamstra kistur og búa sig undir yfirvinnu.......  Ég, sem er í mjög vernduðu umhverfi, hef ekki skottast til Ítalíu síðan 2017 og aldrei til Austurríkis komið, er pínu á nálum.  Ég hef tekið uppá þeim sið að skrúbba hendur eins og ég sé heilaskurðlæknir á leið í aðgerð, oft og mörgum sinnum á dag,  eftir handþvottinn er sprittað af miklum móð, þangað til ekki er sá blettur á höndunum sem hefur sloppið.  Allt kannski ágætis siðir, en kannski má eitthvað á milli vera og ég sem er ákaflega lítið innan um fólk.  En Veiran skal ekki ná mér.  Eymingja hendurnar á mér eru hins vegar algjörlega steinhissa á þessum hamagangi og þorna og springa.  Nú ætla ég að bæta handáburði í ritualið.

Þið munið eftir jákvæðni og gleði námskeiðinu sem ég sagði ykkur frá um daginn.  Það er búið að ganga ljómandi vel, en ég verð að viðurkenna að í allri Veiru umræðunni er ákaflega erfitt að vera á þessu námskeiði.  Það koma dagar, sem ég bara get ómögulega mætt.  Þá daga sé ég bara ekkert jákvætt eða gleðilegt í tilverunni og langar lang mest að skríða í bedda og breiða upp fyrir haus.  En þá er akkurat nauðsynlegast að mæta á námskeiðið og vera eins og Pollýanna, það hlýtur að vera eitthvað jákvætt þarna úti.  Og viti menn í gær var eitt skemmtilegt atvik.  Við gömlu ákváðum að gefa hvort öðru umboð til að sækja lyf fyrir hvort annað í apótekið ef við þurfum á lyfjum að halda.  Eyðublað var prentað út, eyðublað var fyllt út, vottar voru fundnir og látnir krota undir.  Hvað á svo að gera við eyðublöðin?  Ég sá alveg fyrir mér að ég myndi senda eyðublöðin til Lyfjastofnunar og um hæl fengi ég snyrtileg plastkort til að framvísa í apótekinu.  Fann engar upplýsingar svo ég hringdi.  Konan á hinum endanum sagði mér að við þyrftum að vera með eyðublaðið í vasanum í hvert skipti....  ég átti ekki til eitt einasta orð og sagði henni hvað mér finndist þetta púkó og gat eiginlega ekki setið á mér að skellihlæja.  Konan skellihló líka og benti mér á að ég væri að hringja í Lyfjastofnun  og við hlógum eins og fífl.  Gott símtal sem gladdi mig og vonandi var konan á hinum endanum líka pínu glöð.

Aðeins aftur að Veirunni.  Mér finnst heilbrigðisyfirvöld standa sig frábærlega.  Ég þoli illa að sjá einhverja statusa um að Íslendingar séu steinsofandi yfir þessari dómsdagspest, þar sem allir sem einhver einkenni sýna, virðast vera drifnir í próf.  Þótt mér þyki upplýsingagjöfin á stundum dálítið of mikil er það miklu betra að hlusta á þar til bært fólk skýra frá, heldur en að lesa á netmiðlunum einhverja tóma vitleysu.  Ég er líka lukkuleg með samlanda mína, sem þurfa að vera í sóttkví, það virðast allir vera í sama liði við það að takmarka útbreiðslu, takk fyrir það.

Það er mikið á döfinni um helgina, frú bara úti á lífinu eins og engin Veira sé á ferðinni.  

Tjá


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband