Númer 30 er hann þessi

Og við voffan hentumst út í þokuna í morgun.  Ég held að það rúmist ekkert margt í hausnum á voffunni og kannski ekkert mikið meira í hausnum á mér.

Eins og glöggir lesendur sjá, þá hafa tveir föstudagar liðið án þess að ég láti í mér heyra.  Ég er sko ekki búin að vera í fýlu heldur er ég búin að vera svo mikið upptekin.

Það var meistaramótið í golfklúbbnum.  Og frúin var með.  Reyndar var ég búin að ákveða og hætta við nokkrum sinnum, búin að meiða mig og fann þar ansi góða afsökun fyrir að vera ekki með.  Reyndar var ég búin að finna milljón afsakanir fyrir að vera ekki með en þegar á hólminn var komin, þá héldu þær ekki vatni og ég dröslaðist af stað.  Og talandi um vatn.....  þetta sem kemur niður úr loftinu.  Það var sko nóg af því, maður lifandi hvað gat rignt á ræfils golfarana sem þrömmuðu í marga marga klukkutíma og voru að reyna að spila sitt besta golf.  Þetta var dálítið skrautlegt.  En til að gera langa sögu stutta, þá endurtók ég ekki leikinn frá því er ég tók síðast þátt í meistaramótinu, neibb ég vann ekki, náði ekki einu sinni takmarkinu sem ég setti mér fyrir mótið, sem var kannski ekki einu sinni svo háleitt, það var nú ekki háleitara en að verða fyrir ofan miðju, klúðraði því.  En ég kláraði og hafði bara gaman af.

Svo kom síðasti föstudagur.  Þá lögðum við gömlu land undir fót.  Eða frekar land undir bíl.  Við brunuðum af stað, golfuðum í Borgarnesi í svoleiðis hellirigningu seinni hlutann að það var sko ekki fyndið.  Svo rennandi blaut héldum við ferðalaginu áfram.  Áfangastaðurinn var Drangsnes.  Við vorum að fara á Bryggjuhátíðina á Drangsnesi.  Ég verð nú að segja að fyrir ferðina, langaði mig eiginlega ekki baun.  En hvað ég er glöð að ég skyldi ekki láta eftir mér að fara ekki.  Þetta var frábær helgi.  Ég hef aldrei áður heimsótt Drangsnes, sem er ekkert smá huggulegur lítill bær.  Og Bryggjuhátíðin skemmtileg.  Við sáum skemmtilega listasýningu í grunnskólanum, sem er reyndar líka kapella.  Við smökkuðum alls konar sjávarfang, ég lét þó grilluðu signu grásleppuna alveg eiga sig, en grillaður lundi, Jón Bjarnason í smjöri, djúpsteiktar gellur og fleira og fleira.  Við kíktum við á grásleppusýningunni og smökkuðum alls konar grásleppuhrogn.  Það var fótboltaleikur á ótrúlegum fótboltavelli og áfram má telja.  Tónleikar í frystihúsinu og í samkomuhúsinu og fleira og fleira.

En á leiðinni heim komum við við á golfvellinum í Hólmavík.  Fæst orð bera minnsta ábyrgð börnin góð.  En ég fer aldrei aftur þangað og hana nú.

Ætla svo núna í sveitina

óver and át 


Hann er númer 27 þessi föstudagurinn

Við voffan  spruttum af stað í morgun, tja eins og maður sprettur af stað.  Voffan í heimspekilegum spegulasjónum og hvað hrærðist í hausnum á mér er varla fært á prent

Get eiginlega ekki sleppt and.....  $#$#$#/%$&$/$#  veðrinu.  Smá stríðni um síðustu helgi, bara svona til að við ræflarnir á suðvesturhorninu yrðum ekki alveg endanlega kolkreisí og það var sko blíða hérna á pallinum á sunnudaginn.  Frúin í sólbaði og alles.  En ekki í dag, ef frúin myndi voga sér út á bekk, tja held að yrði ekki að sökum að spyrja, hún yrði úti, auðvitað væri hún úti, hvaða vitleysingur getur séð að vera úti á bekk....  þá  hlýtur maður að vera úti, en hún sennilega myndi aldrei koma inn aftur.  Hún myndi sennilega bera beinin á bekknum.  Hafið þið heyrt aðra eins vitleysu?  Bera beinin.  Hvert ætti hún að bera beinin?  og eru það hennar eigin bein?  hvernig ætti hún eiginlega að bera þau?  ef þau væru ekki þrælfest á hana, þá held ég að frúin væri ekki í standi til að bera nokkurn skapaðan hlut, hvað þá sín eigin bein.   Hvað fékk þessi kona í morgunmat?  held að hún sé orðin kolkreisí, kannski útaf veðrinu.  Aníróds, það verður ekki hengdur þvottur á snúrur í dag.

Í vor datt okkur gömlu í hug að þetta væri sumarið sem við ætluðum að stunda tjaldútilegur.  Já tjaldútilegur, við sem eigum tjald, sem er svo smávaxið að þegar við tvö erum komin inn og ekki láta ykkur dreyma um að við getum staðið upprétt, hvað þá setið í stól, well, við tvö komin inn og svo bætum við gítarnum við, þá eru komin upp alvarleg húsnæðisvandræði.  Þegar við fórum í útileguna fyrir 2 árum síðan, þá vorum við eiginlega aðalskemmtiatriðið á svæðinu,  hópurinn sem við vorum með var frekar útileguvanari en við, þarna voru samankomnir hinir ýmsu ferðavagnar,  húsbílar, tjaldvagnar, fellihýsi heilu íbúðarhúsin úr tjalddúk.... og svo við.  Hópurinn er held ég ekki enn búinn að jafna sig á þessu fólki úr Garðabænum í litla tjaldinu og ekki gleyma aldrinum.  Ég held að það hafi enginn búist við að væið kæmumst út úr herlegheitunum.  Ég verð nú eiginlega að viðurkenna að ég var nú ekki mjög bjartsýn á að komast á lappir, en einhvernvegin reddaðist það.  Jæja, sökum smæðar heimilistjaldsins, þá ákváðum við að stækka við okkur.  Frúin skottaðist í Kost og keypti þar 4ja manna tjald hvorki meira né minna,  þá ættu bæði gítarinn og hundurinn að komast með. Og við horfðum fram á sumarið, um hverja helgi farið af stað í sól og blíðu, tjaldað á rómantískum stað, spilað golf á yndislegum golfvelli, borðaðar einhverjar grillsneiðar grillaðar á einnota grilli og almenn huggulegheit.  En hvað hefur orðið uppi á teningnum?   Tjaldið er hér í bílskúrnum ennþá í kassanum, við erum nú reyndar að hugsa um að tjalda því þar inni, bara svona til að sjá gripinn og enn hefur ekki viðrað til einnar einustu útilegu.  Það er nefnilega ekkert spennandi í mínum huga að sofa næstum undir berum himni í 7 stiga hita.  Neibb.  Og á meðan þá situr húsið okkar hérna, hlýtt og notalegt með þessu líka fína grilli á svölunum.  Það er reyndar fastsett ein útilega í júlí, með sama hópnum og hér í hitteðfyrra.  Ég hef verið að spuglera hvort sé hægt að hola sér einhversstaðar í bændagistingu eða eitthvað svoleiðis, en svo finnst mér eiginlega að ég verði að monta mig af nýju tjaldfjárfestingunni, þið vitið í þessum hóp sem fannst við vera þvílíkir lúserar og hlógu hátt og mikið að okkur og útilegubúnaði okkar.  Nú skulu þau ekki hlæja, nei o nei.

Ég er strax farin að hlakka til næsta sumars, það hlýtur að verða svo miklu betra en þetta, það getur amk ekki orðið leiðinlegra.

Þvottavélin að klára, en ég ekki að fara að hengja út.

óver and át, arríverdertsí.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband