Númer 32 runninn upp kaldur er hann brrrrrrrrrrrrrrrr

Viið voffan stukkum út í morgun og vorum eiginlega eins stutt í túrnum og mögulegt var.  Lítð um spuglasjónir.

En í dag er merkilegur dagur.  Fyrir akkurat 26 árum varð ég mamma í annað skiptið.  Árið það var dálítið skrítið hjá okkur gömlu, sem vorum auðvitað ekki baun gömul þá.  Þegar stubban mín fæddist, vorum við algjörlega á milljón að byggja hús, hús sem í byrjun við ætluðum að byggja voða rólega og flytja fyrst í bílskúrinn og fikra okkur svo inní húsið eftir efnum og aðstæðum.  Eitthvað skolaðist þessi áætlun til og við vorum alveg á fullu að gera húsið, já allt húsið klárt til að flytja inní.  Í þá daga þótti algjör skandall á Landspítlanum að nýorðnar mæður fengu bara að vera 4 daga á spítalanum.  Núna dytti ekki nokkrum manni í hug að vera svona lengi á spítala eftir fæðingu, veit ekki hvort er betra.  Nema hvað, akkurat á meðan á þessum 4 dögum stóð, seldist íbúðin okkar, loksins.....  gamli kom með tilboðið í heimsóknartímanum og ég krotaði undir.  Og þar sem íbúðin var seld, þá gátum við keypt útidyrahurð og bílskúrshurð og nýja mamman var sett í málið.  Auðvitað var þetta langt á undan GSM öldinni, en það var þessi fíni tíkallasími á deildinni þaðan sem nýja mamman  hringdi í trésmiðjuna, sem hafði gert okkur tilboð í smíðina.  Gamli var að vinna og vinna eins og vanalega og auðvitað símalaus, svo þetta lá beinast við.  Ég man að hinum nýorðnu mömmunum þótti þetta dálítið skrítið en svona var þetta bara.  Ég get ekki séð að stubban hafi beðið neinn skaða af amk er hún flott 26 ára kona falleg og góð.  Mikið værum við heppin ef fleiri væru eins og hún.

 


Sá 31. er flottur

Hann er yndislegur og sólríkur í dag.  Nú er aldeilis stand á heimilinu.  Ég hef ekki hugmynd um hvað voffan er að spuglera, hún stakk af í útilegu, svo frúin brá sér í dágóðan hjólatúr og spugleraði ýmislegt á leiðinni. 

Ég hef oft velt fyrir mér hvað garðyrkja er skrítin.  Ég er búin að eiga garð í næstum 30 ár, segi og skrifa þrjátíu ár.  Ég hef nú ekki gefið mig út fyrir að vera með hina margrómuðu grænu fingur, hef frekar dröslast í garðvinnu/garðyrkju af skyldurækni.  Ég hef fjárfest í ýmsum plöntum, sem sumar lifa af vistina og vaxa og dafna en aðrar veslast upp og deyja drottni sínum í beðunum mínum.  Í þessi plöntukaup hafa farið töluverðir fjármunir, plöntur eru sko ekki gefnar, ekki aldeilis, nokkrar druslur geta kostað tugi þúsunda og svo leyfa þær sér að hrökkva uppaf.  En þá er komið að kjarna málsins.  Í garðinum mínum vilja nefnilega vaxa ágætis plöntur, sóleyjar, gleym-mér-eyjar og ýmsar aðrar sem ég kann ekki skil á.   Lungann af tímanum sem er varið við "garðyrkju" er eytt í að rífa þessar fínu plöntur upp með rótum og henda.  Þetta eru samt einu plönturnar sem lifa fínu lífi í garðinum ár eftir ár, bara nokkuð fallegar og lífseigar og þá rífum við þær upp og drepum.  Garðyrkjan gengur semsagt út á að drepa gróður ekki rækta þann gróður sem vill lifa, nei hann skal burt og hana nú.  Hvað gerir búðarplönturnar eitthvað betri en sóley?  er þetta ekki bara plöntusnobb?  En ég fylgi með.  Ég er ekki svo sterk á svellinu að ég sé bara hreykin af sóleyjunum mínum sem vaxa svo huggulega meðfram runnunum mínum.  Ekki misskilja mig að ég sé alla daga úti með bossann út í loftið að rífa sóleyjar upp með rótum.  En ég tek góða spretti og tæti og ríf og uppsker oftar en ekki logandi bakverk að launum.  Ætti ég ekki bara að vera hreykin af því að sóleyjarnar vilja eiga heima hjá mér?  Ég er heldur ekki mjög plöntufróð frú.  Þekki margumrædda sóley og fífla og nokkrar fleiri.  Ég varð mér næstum til skammar um daginn.  Í hrauninu við golfvöllinn sá ég þessa ofurfögru fljólubláu plöntu.  Mér fannst hún svo falleg að ég var að hugsa um að koma með smá skóflu og ræna, já ræna einni og setja í garðinn minn.  Þangað til konan sem ég var með fór að tala um akkurat þessa plöntu, hvað hún væri mikill skaðvaldur og hræðilegt væri ef þetta skrímsli kæmist í garðinn manns.  Hjúkket og ég sem var næstum búin að planta kvikyndinu á besta stað.  Stórslysi afstýrt.  

Ég hjólaði til Óla Gríms og Dorrittar í morgun,  var að spá í hvort þau væru með heitt á könnunni en hafði mig ekki í að banka uppá.  En hugsaði með mér hvað við erum heppin hérna á landinu bláa.  Þarna kom ég bara á mínu gamla fjallahjóli og hefði svo sannarlega getað bankað uppá hjá forsetanum.  Enginn girðing, enginn öryggisvörður.  Svona á þetta að vera og ég vona svo sannarlega að ég geti alltaf spuglerað hvort ég eigi að banka uppá.  Þau eru nú orðnir sveitungar mínir og nágrannar alveg eins og þau í næstu götu eða þannig.....

Í morgun var sko hengt út.  Er nokk sjúr á að það er orðið þurrt.

Óver and át 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband