Fertugasti föstudagurinn, yndislegur

Þegar við voffan snöruðum okkur út í morgun var haustmorguninn eins yndislegur og þeir gerast.  Svo hreint loftið og lykt af hausti, hvurnig svo sem hún er, en það var lykt af hausti. 

Ég hef mikið verð að hugsa um væntingar, undanfarið.  Mér hefur verið mikið og oft hugsað til hennar ömmu minnar, hvaða væntingar hafði hún á haustmánuðum 1919, þegar hún átti von á henni mömmu minni.   Það var ekki rafmagn í bænum hennar, það var ekkert í bænum hennar.  Að minnsta kosti ekkert af því sem mér þykir ekki bara nauðsynlegt, heldur sjálfsagt að hafa.  Haustið þýðir að það dimmir og það dimmir í sveitinni.  Það verður svarta myrkur.  Og það verður kalt í bænum og hún á von á litlu barni í nóvember.  Hún hefur örugglega ekki verið að hugsa um að litla barnið fetaði menntaveginn,  hún hefur örugglega ekki verið að hugsa um að barnið hennar ætti barnastól, eða nokkuð annað af þeim þægindum sem eru algjörlega sjálfsögð í dag.  Nei hún amma hefur væntanlega verið að vonast til að barnið, hún mamma mín, lifði af veturinn.  Veturinn sem gæti orðið harður, frostaveturinn mikli var jú síðati vetur.  Hún hefur væntanlega verið að vonast til að geta séð mömmu fyrir nægri mjólk svo hún þrifist og dafnaði.  Og henni hefur örugglega verið hugsað til barnanna sinna, sem hún þurfti að senda í fóstur, þegar hún varð ekkja.  Hún mamma lifði af veturinn og hún mamma lifði marga vetur kom okkur 5 systkinunum til manns og kenndi ömmubörnunum sínum ýmsa speki sem þau gleyma aldrei.

Af hverju ætli ég sé búin að vera að hugsa svona mikið um þetta að undanförnu?  Kannski vegna þess að ég varð amma um daginn.  Það er dálítið öðruvísi aðstæður.  Krílið vex og dafnar og á þeim bænum eru engar áhyggjur af hvort verði kalt eða hlýtt.  Þar eru aðstæður allar eins og best verður á kosið.  Væntingar til litla krílisins snúa ekki að því hvort hann hafi af veturinn, sem betur fer, þær snúa frekar að því  hvernig amman ætlar að njóta hans.  Amman ætlar líka að reyna að kenna honum eitthvað af spekinni sem mamma mín kenndi ömmustelpunni sinni, sem nú er orðin mamma.   


Númer 39 kominn og það er staðfest..... haustið er hér.

Núna er voffan að hefja sitt 10 æviár og er bara nokk hress miðað við aldur.  Hún taldi þó ekki eftir sér að skottast úr í morgun, í hressandi haustmorguninn, smá rigning en bara nokk góður morgunn.

Verð að segja að ég er bara nokk sátt við að haustið er mætt.  Núna get ég nefnilega hætt formlega að bíða eftir sumrinu, sumrinu sem aldrei kom.  Ég er búin að bíða síðan í maíbyrjun eftir sumrinu....  þokkalega bjartsýn í byrjun en smátt og smátt dofnaði bjartsýnin og að lokum hvarf hún,  kannski bara fauk hún í einhverju rokinu og aldeilis var nóg af rokinu í sumar.  Þá er bara að gera klárt fyrir veturinn.  Ég náði að slá blettinn í vikunni, þá fær sláttuvélin frí þangað til næsta sumar.  Aumingja sumarblómin, sem börðust hetjulega fyrir lífi sínu í sumar, eru komin í tunnuna og huggulegar Ericur komnar í þeirra stað.  Litlu blómapottarnir, sem hafa glatt okkur gömlu í sumar eru komnir í geymsluna sína, semsagt við búin að pakka sumrinu saman.

Þá er komið að golfinu.  Frúin hafði háar hugmyndir um hæfni sína á golfvellinum í sumar en ekkert af háu hugmyndunum varð að veruleika, kannski verða þær að veruleika næsta sumar.

Og nú eru bara 774 tímar í brottför  Grin


Sá 37 dottinn í hús og ég held að haustið sé komið.

Voffan og ég búnar að fá okkur morguntúrinn í svalanum og nutum vel.

Ég er búin að vera mikið að spuglera í skoðanafrelsi / kúgun undanfarið.  Það hefur verið mikið hafarí vegna hátíðar sem á eða kannski átti að vera í Laugardalshöllinni og þar átti einhver maður sem hafði ekki umburðarlyndar skoðanir á samkynhneigðum að tala.  Allt var vitlaust.  Fólk aldeilis froðufelldi á netinu formaður Samtaka 78 lýsti yfir að hún myndi ekki vilja vera í sama herbergi og þessi maður.  Þetta fékk mig verulega til að hugsa.  Ég gæti aldeilis trúað að  téður formaður Samtaka 78 hefði nú aldeilis fengið flog ef einhver hefði vogað sér að lýsa því yfir opinberlega að sá hinn sami hefði ekki viljað vera í sama herbergi og hún vegna skoðanna hennar, lífsskoðunum eða lífsstíl.  En þarna þótti henni bara fínt að vera aldeilis ekki umburðarlynd vegna skoðanna annarra.  Mér er bara spurn,  hvernig getur konan ætlast til að fólk sé umburðarlynt í hennar garð, þegar hún er svona í garð annarra.  

Annað nýlegt dæmi er um listamannalaunin, enn og aftur.  Hann Grímur frá Vestmannaeyjum leyfði sér að hafa skoðun á þeim, sem aldeilis samræmdist ekki listamönnum.  Listamaðurinn Sjón sá ástæðu til að urða yfir Vestmannaeyinga sko bara eins og þeir leggja sig.  Þegar ég las pistilinn hans, þar sem hann lýsti Vestmannaeyingum menningarsnauðum ruddum og eiginlega bara niðursetninga sem "bara" eru nýtanlegir til að syngja brekkusöng og moka fisk uppúr sjónum.  Sko  ef þetta er menningin hans Sjón þá þykir mér hún ekki merkileg.  Ef Vestmannaeyingar myndu ekki moka fisknum uppúr sjónum, reyndar ásamt fleirum, þá held ég að það væri nú ekki mikið eftir til að borga Sjón listamannalaun.  

Mikið vildi ég að  fólk myndi bera meiri virðingu fyrir skoðunum annarra, sérstaklega þeir, sem svo sannarlega hrópa eftir umburðarlyndi annarra.  Ég vona að formaður Samtakanna sjái að sér og sjái hvað yfirlýsingar hennar eru einstrengislegar og eigi bara heima einhvern tíma fyrir löng löngu síðan, þegar hinsegin fólk var litið hornauga.  Ef hún má hafa sínar skoðanir í friði, þá má þessi maður líka hafa sínar í friði .  Og hana nú.

Er farin í morgunkaffi til þeirrar elstu, en hún er að fara í sólina á eftir

Tjá 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband