Fertugasti og níundi föstudagur ársins

Þau eru nú orðin nokkur árin síðan ég hætti að skrifa föstudagsblogg, en þar sem lífið hefur aftur tekið breytingum hef ég hugsað mér að taka þau skrif upp aftur.

Margt hefur breyst síðan síðasta föstudagsblogg var skrifað.  Í þá daga fórum við voffan alltaf út að viðra okkur fyrst á morgnana, tókum veðrið og spugleruðum ýmislegt.  Voffan mín fer ekki í þessar ferðir lengur og svo sem ekki ég heldur, en voffan kvaddi þessa jarðvist skyndilega einn vormorgun í maí.

Með nýju lífsmunstri hef ég nú tækifæri til að taka upp aftur morgungöngur, án voffunar.  Það rifjast ýmislegt upp og sumt hefur ekkert breyst.  Í gærmorgun, heyrði ég kunnuglegt "kling" fyrir aftan mig í myrkrinu.  Obbobb hjólakappi að gera sig kláran að hjóla mig niður.  Aftur heyrðist "kling"  hvað á ég að gera?  á ég að fara að hægri kanti stígsins og taka áhættuna á að hjólakappinn hafi akkurat ákveðið það sama?  eða til vinstri og vera í sömu áhættu?  Þetta er mikin ákvörðun, sem þarf að takast á örskotstundu í myrkri á göngustíg í Garðabænum.  Ég ákvað því að vera á miðjunni, hjólakappinn kæmist nær örugglega framhjá mér án þess að ég ætti á hættu að vera hjóluð niður.  Þetta rifjaði upp minningar um marga hraðskreyðari hjólakappa en þennan, sem geystust eftir stígnum okkar voffunar og kannski görguðu "hægri" hátt og snjallt.  Átti ég að fara til hægri eða ætlaði hjólakappinn til hægri?  ég uppskar oft garg og pínu skammir fyrir að vita ekki hvað hjólakappinn var að hugsa.  En í gær var hjólakappnn ákaflega prúð kona, sem ákvað að spjalla aðeins við mig um þá ákvörðun mína að halda mér á miðjum stígnum.  Við spjölluðum aðeins og kvöddumst svo með góðar óskir til hvor annarrar.

Veðrið var yndislegt í gær, dálítið kalt en yndislegt desember veður, svo ég komi veðuratugun inní föstudagsbloggið.  Og ekki er veðrið síðra í dag, ég sé út um gluggann að það eru að hrannast upp ský yfir Esjuna.  Er þá ekki von á norðurátt?  Það er algjör stilla og sjórinn nánast spegilsléttur.  Svona dagar gera mig glaða.

 


Bloggfærslur 6. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband