15.9.2010 | 21:50
Meira af augnviðgerðum
Mér bara datt það svona í hug.
Þegar ég fór til augnlæknisins í vor til að forvitnast um hvort væri hægt að laga þessi ræfils augu mín, þá eiginlega datt af mér andlitið þegar hann sagði mér hvað herlegheitin kosta. Þið afsakið en þetta kostar eiginlega hvítuna úr augunum úr manni. En ég reiknaði þetta yfir í fjölda gleraugna og sá að ég væri nokkuð snögg að koma út á sléttu.
Hann skoðaði augun mín vel og vandlega og að þeirri spögulasjón lokinni sagði hann mér að það væri byrjað að myndast ský á augasteininum. Ég veit svo mikið að þegar er komið ský, ég veit ekki hvað mikið, þá fær fólk nýja augasteina á kostnað okkar allra, þ.e. tryggingarnar borga. Nei en ekki mína augasteina. Af því ég vildi láta laga þetta núna, en ekki eftir einhver ár svo ég tali nú ekki um frekjuna að vilja fjölfókusa linsuna fyrir framan, svo ég þurfi ekki einu sinni að kaupa mér lesgleraugu, þá þarf ég bara að finna aurinn fyrir þessu sjálf. Ég get því verið hreykin að segja frá því að ég hef sparað sjúkratryggingunum andvirði eins pars af augasteinum, því án nokkurs vafa hefði þurft að skipta um gömlu greyin innan einhverra ára, en gleraugnahatrið í mér hjálpaði til við sparnað í heilbrigðiskerfinu.
Ég held ég hafi aldrei verið eins hreykin af því að vera pjattrófa.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.