22.12.2010 | 13:48
Léleg tímastjórnun.
Ég hef alltaf haldið að ég væri þokkaleg í að skipuleggja tíma minn, svo ég tali nú ekki um annarra tíma. En svo komst ég að því mér til skelfingar að ég "sökka" algjörlega í þessu.
Það sem vakti mig til vitundar um þetta var pestin sem ég fékk um daginn. Já ég fékk pest. Ég verð ekki veik, ég fæ ekki pest og nenni ekki að standa í svoleiðis veseni. En ég fékk nokkuð fína pest. Og hvaða tíma vel ég? Jú ég valdi byrjun desember. Það ættu eiginlega að vera lög sem banna manni að fá pest í byrjun desember. Það riðlast öll skipulagning. Gvöð missi ég að jólahlaðborðinu með matarklúbbnum? Missi ég af öllu þessu árlega sem hellist yfir mann í desember?
En góðar pestir eru ekkert að spyrja mann að því hvað var búið að plana. Þessi gerði það að minnsta kosti ekki. Einn morguninn vaknaði ég dálítið skrítnari í hausnum en ég á að mér að vera. Drattaðist á lappir, en skrokkurinn var ekki í stuði, þannig að ég lufsaðist aftur uppí og tók þá stóru ákvörðun að leita að hitamælinum. Eftir nokkra leit, fann ég gripinn, dustaði af honum rykið og mældi mig. Þetta er svona hátækni gripur sem maður stingur undir tunguna og svo þegar hann þykist vera orðinn klár á hitastiginu, þá pípir hann. Eftir dágóða stund pípir í græjunni og ég kíki á. Það er nú orðið dálítið síðan ég kom heim úr hitabeltinu, og var skrokkurinn semsagt farinn að sakna svo hitans að á mælinum stóð tæplega 39 gráður og lái mér hver sem vill að ég hafi verið skrítin í hausnum. Mín fer ekki í vinnuna í dag. En það góða við að fá svona fína pest er að kúra í huggulegheitum og kannski horfa á eina bíómynd sem einhver góðhjartaður hefur fært mér. Þetta ákvað ég að gera. Náði í tölvuna og byrjaði á myndinni og klukkan er rúmlega 9. Þetta var ekkert extra löng mynd, en það tók mig alveg til 14:30 að horfa á hana. Þarna nefnilega komst ég að því að þegar skrokkurinn er með hitabeltishita, þá er gamli gripurinn ekkert að virka neitt sérstaklega vel. Í staðinn fyrir að kúra í huggulegheitum og horfa á mynd þá steinsvaf ég mest allan daginn. Ég reyndar svaf mest allt kvöldið líka og um nóttina steinsvaf ég. Ætli ég hafi ekki sofið svona sirka 20 tíma þennan sólarhringinn. En dagurinn leið snarlega og ég bara í góðum gír.
Dagur 2 punktur. Hitamælirinn aftur dreginn fram. Jú hú skrokkurinn að kólna og nú þegar græjar pípir standa á henni 38 gráður, hausinn í betra lagi og NÚNA ætla ég að kúra og njóta dagsins. Ég næ mér aftur í tölvuna og set mynd af stað. Ég horfi á hana snarlega og aðra til. Ég les blöðin og svei mér þá ef ég glugga ekki í bók. Og það er bara rúmlega hádegi..... arg Ég er ekki að nenna þessu bévítans hangsi. Hvað varð um kúrið. Geðið er komið að suðumarki þótt skrokkurinn sé að kólna. Þetta er SVO leiðinlegt.
Dagur 3 punktur. Hitamælirinn aftur notaður. Nú segir helv.... tæplega 38 gráður svo ekki fer ég af stað í dag. Er búin að ákveða að týna hitamælinum, mig langar ekki baun að horfa á neinar bíómyndir í dag, ég nenni sko ekki neinu kúri og svei mér þá ef mig langar ekki frekar að skúra en kúra. Minnist dags 1 og núna var hann bara nokkuð góður. Ég hafði ekki rænu til að gera neitt annað en að liggja kylliflöt í bælinu og njóta þess að horfa á sömu bíómyndina í marga klukkutíma. Hefði ekki verið betra ef skrokkurinn hefði getað druslast við að vera bara svona hundveikur í þessa 3 daga og þá væri ég búin með kvótann amk fyrir næsta ár líka, því ég nenni ekki að standa í svona leiðindum. Vera ekki veik en vera samt veik, ekki það skemmtilegasta í heimi, svo ég tali nú ekki um þegar ég ætlaði að vera að gera eitthvað annað miklu miklu skemmtilegra.
Ég verð að læra að skipuleggja tímann minn betur. Raða niður hvort og hvenær ég ætla að fá pest, svo ég geti undirbúið mig betur. Ætli ég geti ekki keypt mér forrit til skipulagningar á pestum?
En mér bara datt þetta svona í hug
Athugasemdir
Góð hugleiðing hjá þér. Þetta hefur verið meiri bömmerinn, vakna allt í einu og eiga ekki von á neinu og vera svo bara hundveik.
Þórdís Richter (IP-tala skráð) 22.12.2010 kl. 15:06
Þarna lágu danir í því og þú lást í pestinni, því þú varst með PEST muhahahaha.
Milla systir (IP-tala skráð) 22.12.2010 kl. 16:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.