23.1.2011 | 11:57
SMS
Ég komst að því í morgun hvað SMS eru dásamleg. Þar sem ég kúrði mig í mestum makindum gluggandi í bók sem ég fékk mér fyrir jólin, þá komu skilaboð á símann minn. Þótt ég vilji halda mínum prívat skilaboðum fyrir mig þá ætla ég samt að segja frá þessum, en þau voru einföld og hljóðuðu svona: "Til hamingju með afmælið. Mamma og pabbi." Ég verð að viðurkenna ég þessi skilaboð voru þau stórkostlegustu sem ég hef nokkurn tíma fengið. Ekki textinn, hef fengið mörg með sama textanum, en kveðjan undir "Mamma og pabbi" hún fékk mig til að líta SMS skilaboð með allt öðrum augum en ég hef áður gert. Þau eru stórkostleg, hvernig má þetta vera. Þarna fékk ég semsagt skilaboð að handan hvorki meira né minna, nema pabbi sé í slagtogi með Elvis og Michael Jackson einhversstaðar í Skotlandi. Nei ég fékk skilaboð frá pabba, honum pabba mínum sem dó á því herrans ári 1989. Þeir fylgjast svona rosalega vel með þarna hinum megin. Mig minnir nefnilega að gemsar hafi ekki verið komnir til sögunnar þegar hann pabbi dó, nú eða fór til Skotlands að hitta Elvis, ég ætla ekkert að útiloka þann möguleika. Nú er ég algjörlega staðráðin í því að láta jarða mig með gemsa og hleðslutæki, þá get ég sent SMS hvert sem ég vil. Það kannski flækir aðeins málið að ég er ákveðin í því að láta brenna mig, en það er smáatriði, kannski fæ ég bara úthlutað gemsa við komuna hinum megin. Það gladdi mig ekki síður að hún mamma er líka farin að senda SMS. Hún mamma er á 92. ári og hefur nú ekki verið mikið tæknivædd. En hún sendi mér SMS, þetta hefur hún verið að bauka við á elliheimilinu, ekki skrítið að hún hafi oft verið pirruð þegar ég hef komið í heimsókn, kannski var hún í miðjum klíðum að æfa sig á gemsann eða senda einhver skilaboð, hvað veit ég. Og ég sem hélt að henni þætti bara leiðinlegt að fá mig í heimsókn. Nei þökk sé þessum yndislegu skilaboðum þá hefur lífsýn mín algjörlega breytst. Pabbi sendir mér SMS að handan (eða frá Skotlandi) og mömmu þykir ég ekki leiðinleg. Nú ætla ég að þramma inní framtíðina með þetta vegarnesti glöð og ánægð, ég get verið sannfærð um að geta verið í beinu sambandi við þá sem mér þykir vænt um eftir að jarðvist minni lýkur og mömmu þykir ég ekki leiðinlegt.
Það var aðeins eitt sem eyðilagði ánægjuna með skilaboðin.
ÉG Á EKKI AFMÆLI FYRR EN Í MARS ......
bömmer.
Athugasemdir
hehehe algjör snilld :)
Stebbi (IP-tala skráð) 23.1.2011 kl. 12:10
Brill!
Ester (IP-tala skráð) 23.1.2011 kl. 13:24
Ertu búin að tjekka á þeirri gömlu, er hún kannske komin til Skotlands og búin að hitta pabba og Elvis. Alveg í stíl pabba að fá sér gemsa, dáldið seinn á sér en væntanlega er tíminn afstæður hinum meginn eða í Skotlandi. Þú átt kannske bara 30 ára afmæli í dag.
Kveðja Milla systir
Milla systir (IP-tala skráð) 23.1.2011 kl. 14:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.