7.4.2011 | 10:32
Vorið er komið......
og hundarnir skíta.
Er þetta ekki ljóðrænt hjá mér?
Mér datt þetta si svona í hug, þegar snjóa leysti um daginn. Ég og voffan mín förum á hverjum morgni út að labba. Ekki það að ég þurfi að neyða hana út, ekki það að ég hafi þessa ótrúlegu þörf á að þramma úti, í hvaða veðri sem er, vetur, sumar, vor eða haust. Nei þetta er meiri líkamleg þörf voffunar. Hún þarf nefnilega að skíta, sorry, kúka og pissa á hverjum morgni og hún var snögg að venja mig á það að fara með henni á hverjum degi til að hún geti valið sér af mikilli kostgæfni stað til að sinna þessum frumþörfum sínum.
Nema hvað, þegar snjóa leysti um daginn kom í ljós á undarlegustu stöðum hundaskítur, já hundaskítur út um allt. Við þ.e. ég og voffan mín vorum yfir okkur bit. Hafa þessir hundar ekki þjálfað samgöngufólk sitt til að tína kúkinn upp í poka? Augsýnilega ekki. Það er algjör skömm að sjá hvað hundar eru slappir í að þjálfa eigendur sína. Það eina að tína kúkinn upp eftir besta vininn er nú algjört frumskilyrði, það finnst okkur voffu að minnsta kosti. Ég meina, ekki er hægt að ætlast til að voffinn sjái um þetta, hann er auðvitað önnum kafinn að finna yndislegan ilminn af pissi allra annarra voffa sem hafa verið á sömu leið áður, göngufélaginn hefur ekkert annað að gera en að tína upp eftir önnum kafinn voffann, trítla svo með pokann til loka göngutúrsins, svona eins og um Gucci tösku sé að ræða. Minna má það ekki vera.
Ég skelli skuldinni algjörlega á hunda landsins. Hundar takið ykkur á og þjálfið eigendur ykkar, nú eða þann sem þið hafið valið til að fara með í göngu. Það er óþolandi að bæta því á voffa sem á eftir koma, að þurfa líka að þefa af kúkum þeirra voffa sem hafa á undan komið, þið munið að þeir eru önnum kafnir við að þefa að ilmandi pissi.
En vorið er komið og hvað gerist þá? Jú þá koma gæsir, já gæsir fljúgandi og vitið, þær skíta á flugi, ég meina það á flugi og brátt verða allir göngustígar þaktir af gæsaskít. Mér finnst þetta óþolandi af þessum gæsum að gæta ekki að sér. Þær hafa engan til að tína upp eftir sig og það minnsta sem þær geta gert í stöðunni er að miða amk út í móa þegar þær fljúgja yfir og er mál.
Tja þetta þykir mér að minnsta kosti.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.