4.1.2013 | 09:46
Fyrsti föstudagur ársins.
Er ekki við hæfi að blogga á þessum fína morgni. Fyrsti föstudagur ársins 2013 runninn upp. Ennþá er myrkur, enda er bara 4. janúar, svo ekki er von á sólinni alveg strax.
Ég og voffan fórum í daglegan göngutúr í morgun, sem er auðvitað ekki í frásögur færandi, dálítið langan göngutúr, svo það var góður tími til að hugsa ýmislegt. Og hvað gat ég látið mér detta í hug?
Jú fyrst af öllu, þá kúkaði (skjús mí) voffan og ég tók afurðina snyrtilega uppí bláa pokann. Þetta var á göngustígnum meðfram sjónum okkar hérna í Garðabænum. Fór svo að skima eftir rusladalli, til að losa mig við pokann. Við löbbuðum og við löbbuðum og alltaf var ég með bláa pokann í hendinni, því enginn rusladallur varð á vegi okkar. þegar við vorum búnar að ganga dágóðan spöl og þá er ég að tala um örugglega rúman kílómetra, hafði enginn rusladallur orðið á vegi okkar. Skamm skamm Garðabær. Mér er nú kannski ekki vorkunn að halda á þessu lítilræði sem frá minni voffu kemur, en þeir sem eru stærri, skila stærri stykkjum og vitið ég næstum skil að þeir nenni ekki að taka upp eftir sína voffa gegn því að halda á afurðinni, tja í langan langan tíma. Kannski skrifa ég bænum.
Annað sem kom upp í hugann. Ég man þegar ég var lítil stelpa. Hvursu langt er síðan það var, skiptir engu máli. Ég man þegar færðin var eins og hún er búin að vera undanfarna daga, svell og blautt ofan á því. Ég man þegar ég var að labba í skólann, því ekki var mér skutlað, nei o nei. Ég man hvað var erfitt að fóta sig. Auðvitað var ég í gúmmístígvélum og ullarsokkum. Gúmmístígvél eru nú ekki besta skótauið til að notast við í hálku, en klakinn var blautur og þá var ekki um annað að ræða. Mig minnir meira að segja að það hafi verið smá gat á öðru stígvélinu. Ég man þegar ég var kominn yfir hitaveitustokkinn og horfði yfir Víkingsvöllinn. Vá þetta yrði erfitt. Ekkert nema risastórt svell, ekkert til að styðja sig við. Jæja það var bara að ráðast í verkefnið. Ég man að ég datt ekki bara einu sinni, heldur oft. Ég man hvað ég var blaut þegar ég loksins komst í skólann. Ég man líka að þótt að skólalóðin væri í sama ástandi og Víkingsvöllurinn, þurftum við að fara út í frímínútum. Væntanlega vorum við öll sirka bát jafn blaut, en út þurftum við að fara, nema þau ljónheppnu, sem höfðu miða að heima, sem leyfði þeim að vera inni í frímínútunum. Okkur hefur örugglega verið skítkalt og lítið verið um leiki eða aðra hollustu í frímínútunum og örugglega var enginn kennari á lóðinni, þið munið það var ekki hundi út sigandi, rennandi blautt svell og kannski rigning. Ég vona að krakkar í dag þurfi ekki út á rennandi blautt svell. En öll komumst við heim að loknum skóla og ég held að enginn hafi skaðast af. En svona eru breyttir tímar.
Og í þá daga voru nú fáir heimilishundar til að taka upp kúkinn. Ég man eiginlega bara eftir einum, sem hún Júlla sturtukona átti og guð minn góður hvað ég var hrædd við hann. Já það eru breyttir tímar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.