18.1.2013 | 10:59
Jebb þriðji föstudagurinn.....
Hann er kominn, þriðji föstudagur ársins.
Við voffan hentumst út í morgun, úff fukum eiginlega, en við erum hraustar ég og voffan og við skiluðum okkar labbitúr með sóma.
Við spugleruðum eiginlega ekki baun, eða kannski bara fauk spuglerið út í rokið.
En í gær var ég að spuglera....
Öll tæknin í dag, öll tæknin og tólin heima hjá okkur mæ god.
Ég man nú, o boj nú tala ég eins og fornmaðurinn. Nei ég er ekki alin upp í torfbæ, ég er alin upp í Bústaðahverfinu á seinni hluta síðustu aldar.
Well aníród, ég var að spuglera, ég man þegar ég var stelpa, hann Bergsteinn átti reiknivél, já maðurinn átti reiknivél. Ekki bara uppá punt, nei hann vann á skrissu niðri í bæ og þurfti stundum að vinna heima og hafði sumsagt reiknivél heima við. Og ég fékk oft oft oft að reikna, vá hvað það var gaman. Ég man líka að ég fékk stundum að heimsækja hann á skrissuna niðrí bæ og þar var önnur reiknivél og svo kom rafmagnsritvél. Það kom IBM kúluritvél, get svo svarið það. Og ég fékk að prufa. Og ég prufaði svo mikið að ég ruddi út úr mér heilum sögubálki um hann Grilla grís. Ég man líka þegar ég fór í gaggó, var á stundaskránni "vélritun". Vá, þá var keypt þessi fína ritvél, sem ég fór með í skólann þá daga sem var vélritun. Ég pikkaði og pikkaði, lærði eiginlega kennslubók í vélritun eftir Þórunni Felixdóttur utan af, átti spjald, sem sýndi fingrasetningu og allt.
Ég var sumsagt að spuglera í þessu, þegar maðurinn var að koma nýja sjónvarpinu mínu í samband við alheiminn, því ekki réðum við gömlu við það verkefni. Þið vitið, hvar á að tengja hvað. Allar þessar snúrur eru nóg til að koma manni algjörlega yfir strikið. Já sjónvarpið kemst á netið, get svo svarið það. Ekki komst gamla SABA lampa sjónvarpið sem var heima í samband við netið, úff reyndar var netið ekki til þá, en samt komst SABA sjónvarpið varla í samband við loftnetið, en það var sko hægt að horfa á það. Og það var í svart hvítu.
Núna getur varla nokkur maður dregið andann, nema eiga sína prívat fartölvu og helst líka spjald tölvu. Það er varla nokkur maður svo púkó núna að stíga um borð í flugvél með sína prívat fartölvu, hún er nefnilega svo þung þá er nú betra að vera með spjaldtölvuna. Rosa var Brother ritvélin mín flott á sínum tíma, en að rogast með hana uppí Réttó, vá hún var þung.
Núna er ég að komast í flokk með alvöru fólki, því ég á "smart" sjónvarp, komst reyndar að því að sjónvarpið er smartara en ég en það verður einhver að vera "smart" á heimilinu. Og ég á mína prívat fartölvu, þá vantar mig bara spjaldtölvu til að leika mér við og bæ ðe vei ég held ég verði að fara að eignast "smart" síma. Minn er að verða afspyrnu púkó.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.