Sjötti föstudagurinn kominn.

Og í morgun var svo sannarlega farið að birta þegar ég og voffan skokkuðum út í hálfmyrkrið.  Dálítið var kalt, en voffan var hugrökk og lét sig hafa það.

Ég hef lengi verið einlægur aðdáandi skrítinna fyrirsagna í blöðunum.  Í gær var ein, sem kom mér til að brosa.  Ekki út af innihaldinu heldur af hvað mér fannst fyrirsögnin klaufaleg.  Þetta var semsagt á visir.is og fyrirsögnin var svona:   "Blindir rekst á hindranir í háskóla" .  Í guðanna bænum ekki misskilja mig.  Innihald fréttarinnar fannst mér ekkert í samhengi við það sem ég las í fyrirsögninni.  Í ruglaða hausnum á mér, sá ég bara haug af blindu fólki uppí háskóla, ráfandi um og rekandi sig utan í húsgögn og allt annað sem hægt var að rekast á.  Ég er eiginlega alveg viss um að blaðamaðurinn hefði mátt orða fyrirsögnina heppilegar.

Fyrir mörgum árum var ein sem er í miklu uppáhaldi hjá mér:  "allir að skilja í Flóanum".  Vá, hvað er í gangi í hjónaböndum í Flóanum?  Hvað gerðist eiginega á þorrablótinu hjá þeim?  en þegar ég las lengra þá kom í ljós að eitthvað var þess valdandi að kúabændur voru farnir að skilja mjólkina heima á bæjunum,  semsagt þorrablótið alveg í húrrandi lagi og hjónaböndin í Flóanum jafn traust og fín og hvar annarsstaðar á landinu.  

Nú er ég komin á flug.  Vinkona mín var algjörlega undarleg á svipin þegar hún las eitt, já eitt orð í fyrirsögn,  hún skildi bara alls ekki orðið  "ístru-flanir"  hvað er eiginlega "flanir"?  hún stóð algjörlega á gati svo hún las áfram og komst þá að hvað var eiginlega í gangi, en það voru "ís-truflanir" sem voru að stríða virkjunum uppí óbyggðum.  

Jæja dagurinn bíður, brjálað að gera hjá frúnni, á löns deit með ljúfri vinkonu, svo ýmislegt að bardúsa áður en ég hef tíma til að hafa mig til fyrir þorrablótið í kvöld.  Jú frúin, sem borðar ekki þorramat, er að fara á þorrablót númer 2 á þessum þorra og svo eru Blues tónleikar annað kvöld.  Þá verður nú gaman.  

Tjá 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband