1.3.2013 | 10:44
Níundi föstudagurinn fokinn í hlað.
Við voffan fórum auðvitað í reglulegan túr í morgun. Og núna er eiginlega orðið alveg bjart, yndislegt. Hvað við spugleruðum ákváðum við að láta ekki uppi.
En mér þykir eitt dálítið skrítið. Við voffan förum á hverjum einasta degi í túr eins og þið allir mínir tryggu 5 lesendur vitið. Og við höfum vanið okkur á að fara í langan langan túr á föstudögum. Getur einhver af ykkur 5 getið uppá hvað ég er að fara? Munið kannski síðasta föstudag..... þá var suddi. Í morgun var eiginlega suddi á sterum. Báðar, ég og voffan erum hraustar og látum auðvitað ekki smá sudda hrekkja okkur. En alla vikuna er búin að vera þvílík blíða að við bara næstum munum ekki eftir öðru eins í lok febrúar. Svo kemur föstudagurinn, með langa túrnum og þá er ekki hundi út sigandi, sorry voffa, en ég sigaði bæði hundi og konu út. Og þá komum við að öðru hjartans máli hjá okkur voffu. Ég auðvitað þarf að þjálfa voffuna betur í að velja staði til að kúka á. Því oftar en ekki kúkar hún á kolvitlausum stöðum. Hún kúkar þar sem er lengst í næsta rusladall og ég eins og sauður í hressingargöngu með kúk í poka. Komm on, það er ekki hæfandi virðulegri konu á mínum aldri að spássera úti með hefðarhund og kúk í poka. Þetta sér auðvitað hver hálf heilvita maður. Eins og í morgun. Þá ákvað hún að kúka, bæ ðe vei í þriðja skiptið í túrnum, rétt við Sjálandsskólann. Þar rétt hjá er skilti þar sem auglýstir eru allir fuglar sem einhverntíman hafa hætt sér nálægt Arnarnesvoginum. Þar eru við hundaeigendur líka minntir á að lausaganga hunda er bönnuð, tékka á voffu, við erum pikkfastar saman og við erum líka minnt á að taka kúkinn með okkur í poka........ !!!!!! Þarna stóð ég akkurat, með hund í bandi og kúk í poka. Mér hefði þótt eitursnjallt að hafa þarna við skiltið staur með rusladalli. Neibb þarna var enginn staur með rusladalli, svo ég hélt áfram túrnum með hundinn og kúkinn í pokanum. Ég þrammaði í gegnum allt Sjálandshverfið og bað til guðs að ég mætti ekki neinum sem ég þekki, mér þykir þessi kúkaburður ekkert smart og viti menn það var rusladallur þegar ég var komin í gegnum hverfið. Ég er búin að venja mig á að, þegar ég geng í gegnum íbúðarhverfi, þá læðist ég að ruslatunnum við eitthvert hús og læði kúkapokanum í tunnuna, drullunervös að íbúi viðkomandi húss, komi akkurat út og nappi mig. En það eru engar tunnur sjáanlegar í Sjálandinu svo ég verð bara að gjöra svo vel að trítla eins og bjáni með kúk í poka. Djísús það er ekki lekkert. Verð nú samt að benda á að afurðirnar hennar voffu minnar eru algjörlega mini þar sem hún er eiginlega mini voffi, ekki vildi ég dröslast um með afurðir tja segum labradors alla þá leið sem ég dröslast með pokann minn. Ætti ég ekki bara að skrifa bænum snyrtilegt bréf og benda þeim á þetta smáræði?
Tjá
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.