28.6.2013 | 10:12
26. og fúll er hann.
Við vorum nokkuð brattar ég og voffan í morgun, þegar við skunduðum af stað. En þegar á túrinn leið var ég bara að spuglera í hvort ég myndi drukkna í rigningunni og voffan vildi bara heim.
Og upphefst nú mikið tuð. Hvað er gæinn á efstu hæðinni eiginlega að hugsa? Er hann alveg orðinn snargalinn? Ég meina það ef ætlunarverkið var að kippa okkur aftur í veruleikann, eftir undanfarin dásamleg sumur, well þá er það löngu áorkað. Ég var næstum búin að gleyma sumrinu 84, þegar við ungu hjónin lögðum af stað í hringferðina með litla krílið okkar. Þá rigndi svoleiðis að við, með tjaldið hennar Millu miðsystur í skottinu, ætluðum að dóla okkur, tjalda hér og þar og ef skyldi rigna, þá vorum við með plan um að gista á Eddu hótelum, en bara í neyð. Welllllll, við gistum fyrstu nóttina, hvar haldiði? jú á Eddu hótelinu á Skógum. Sem betur fer vorum við með vegahandbókina í farteskinu, því án hennar hefðum við ekkert vitað um náttúrufegurð landsins. Jæja höldum áfram, höfðum hugsað okkur að gista í tjaldinu okkar á Höfn. Við misstum algjörlega af Jökulsárlóninu, þá sá bara ekki út úr augum, jú og þetta var í miðjum júlí krakkar mínir. Þegar nær dró Höfn, vorum við búin að sjá að ekki var í boði að gista í tjaldinu með ungann. Ekkert Eddu hótel á Höfn og alveg eins og þegar nafna mín þurfti á gistingu að halda fyrir nær 2000 árum síðan, þá var ekkert rúm á hótelinu svo það var ekkert annað að gera en að bruna á næsta Eddu hótel, sem var á Breiðdalsvík já börnin góð Breiðdalsvík og barnið 6 mánaða afturí. Næst var stefnan tekin á Hallormsstað, þann unaðsstað. Það var kannski ekki rigning þar en það var svo kalt að ekki var hægt að gista með barnið í tjaldi, júbb Eddan var það heillin. En þar sem var þurrt þá ákváðum við að gista í 2 nætur. Akureyri var næst á dagskrá, ekki þurfti þar að reyna á snillii okkar við tjöldun svo aftur varð Eddan fyrir valinu. Þegar þarna var komið sögu voru ungu hjónin orðin svo leið á þessu ferðalagi að ákveðið var að bruna bara heim og hana nú. En þegar í Borgarfjörðinn var komið var hætt að rigna viti menn og ungu hjónin ákveða að tjalda í Munaðarnesi. Svona var nú sumarið 84.
Ekki voru öryggismálin í bílferðinni stórkostleg. Við vorum mjög ábyrgir foreldrar og keyptum okkur ólar til að festa burðarrúmið í bílinn...... ekki dettur nokkrum lifandi manni í hug að hafa barn óbundið í burðarrúmi í bíl. Burðarrúmið, hefði kannski ekki farið neitt, en barnið hefði bara skoppað úr því, en í hringferðinni góðu höfðum við ábyrgu foreldrarnir farið til Gunnars Ásgeirssonar og keypt þennan líka fína bílstól og þá var ekki hægt að hafa bæði ólarnar fyrir burðarrúmið og bílstólinn og barnið þurfti að geta lagt sig..... það var leyst snarlega. Það var bara festur rafmagnsvír utan um burðarrúmið, get svo svarið það og enn vorum við sérstaklega ábyrgir ungir foreldrar. Nú til dags, má alls ekki nota bílstóla á Íslandi, sem eru keyptir í Ameríku, neibb þeir eru ekkert öruggir enda ekki með Evrópustimpil og það er svona "notist fyrir" dagsetning á þeim og eftir það hvað gerist þá? Detta þeir í sundur? æi má ekki vera einhver gullinn meðalvegur.
Þótt við gömlu séum ekki lengur ungir foreldrar þá erum við að spuglera í því að fara í tjaldútilegu um helgina. Gamli sér samt ekki alveg fyrir sér hvernig frúin ætlar að meika að koma sér af stað af tjalddýnunni, en það verður bara að koma í ljós, hún er amk heppin að gamli getur tosað hana af stað. En ég held að helsti áhrifavaldurinn verði gæinn á efstu hæðinni og hvort hann fer nú ekki að hætta þessari regn vitleysu.
Eftir bjartsýniskast síðasta föstudags, þá held ég bara krakkar að sumarið verði svona sorry.
Hengi ekki út í dag, en dröslast bara í staðinn við að þrífa
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.