Númer 30 er hann þessi

Og við voffan hentumst út í þokuna í morgun.  Ég held að það rúmist ekkert margt í hausnum á voffunni og kannski ekkert mikið meira í hausnum á mér.

Eins og glöggir lesendur sjá, þá hafa tveir föstudagar liðið án þess að ég láti í mér heyra.  Ég er sko ekki búin að vera í fýlu heldur er ég búin að vera svo mikið upptekin.

Það var meistaramótið í golfklúbbnum.  Og frúin var með.  Reyndar var ég búin að ákveða og hætta við nokkrum sinnum, búin að meiða mig og fann þar ansi góða afsökun fyrir að vera ekki með.  Reyndar var ég búin að finna milljón afsakanir fyrir að vera ekki með en þegar á hólminn var komin, þá héldu þær ekki vatni og ég dröslaðist af stað.  Og talandi um vatn.....  þetta sem kemur niður úr loftinu.  Það var sko nóg af því, maður lifandi hvað gat rignt á ræfils golfarana sem þrömmuðu í marga marga klukkutíma og voru að reyna að spila sitt besta golf.  Þetta var dálítið skrautlegt.  En til að gera langa sögu stutta, þá endurtók ég ekki leikinn frá því er ég tók síðast þátt í meistaramótinu, neibb ég vann ekki, náði ekki einu sinni takmarkinu sem ég setti mér fyrir mótið, sem var kannski ekki einu sinni svo háleitt, það var nú ekki háleitara en að verða fyrir ofan miðju, klúðraði því.  En ég kláraði og hafði bara gaman af.

Svo kom síðasti föstudagur.  Þá lögðum við gömlu land undir fót.  Eða frekar land undir bíl.  Við brunuðum af stað, golfuðum í Borgarnesi í svoleiðis hellirigningu seinni hlutann að það var sko ekki fyndið.  Svo rennandi blaut héldum við ferðalaginu áfram.  Áfangastaðurinn var Drangsnes.  Við vorum að fara á Bryggjuhátíðina á Drangsnesi.  Ég verð nú að segja að fyrir ferðina, langaði mig eiginlega ekki baun.  En hvað ég er glöð að ég skyldi ekki láta eftir mér að fara ekki.  Þetta var frábær helgi.  Ég hef aldrei áður heimsótt Drangsnes, sem er ekkert smá huggulegur lítill bær.  Og Bryggjuhátíðin skemmtileg.  Við sáum skemmtilega listasýningu í grunnskólanum, sem er reyndar líka kapella.  Við smökkuðum alls konar sjávarfang, ég lét þó grilluðu signu grásleppuna alveg eiga sig, en grillaður lundi, Jón Bjarnason í smjöri, djúpsteiktar gellur og fleira og fleira.  Við kíktum við á grásleppusýningunni og smökkuðum alls konar grásleppuhrogn.  Það var fótboltaleikur á ótrúlegum fótboltavelli og áfram má telja.  Tónleikar í frystihúsinu og í samkomuhúsinu og fleira og fleira.

En á leiðinni heim komum við við á golfvellinum í Hólmavík.  Fæst orð bera minnsta ábyrgð börnin góð.  En ég fer aldrei aftur þangað og hana nú.

Ætla svo núna í sveitina

óver and át 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú hlýtur hann að fara að glaðna, hætta að rigna, sólin fer að skína og allir verða glaðir. Sei nó mor

Milla

Milla miðsystir (IP-tala skráð) 31.7.2013 kl. 11:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband