20.9.2013 | 10:38
Númer 39 kominn og það er staðfest..... haustið er hér.
Núna er voffan að hefja sitt 10 æviár og er bara nokk hress miðað við aldur. Hún taldi þó ekki eftir sér að skottast úr í morgun, í hressandi haustmorguninn, smá rigning en bara nokk góður morgunn.
Verð að segja að ég er bara nokk sátt við að haustið er mætt. Núna get ég nefnilega hætt formlega að bíða eftir sumrinu, sumrinu sem aldrei kom. Ég er búin að bíða síðan í maíbyrjun eftir sumrinu.... þokkalega bjartsýn í byrjun en smátt og smátt dofnaði bjartsýnin og að lokum hvarf hún, kannski bara fauk hún í einhverju rokinu og aldeilis var nóg af rokinu í sumar. Þá er bara að gera klárt fyrir veturinn. Ég náði að slá blettinn í vikunni, þá fær sláttuvélin frí þangað til næsta sumar. Aumingja sumarblómin, sem börðust hetjulega fyrir lífi sínu í sumar, eru komin í tunnuna og huggulegar Ericur komnar í þeirra stað. Litlu blómapottarnir, sem hafa glatt okkur gömlu í sumar eru komnir í geymsluna sína, semsagt við búin að pakka sumrinu saman.
Þá er komið að golfinu. Frúin hafði háar hugmyndir um hæfni sína á golfvellinum í sumar en ekkert af háu hugmyndunum varð að veruleika, kannski verða þær að veruleika næsta sumar.
Og nú eru bara 774 tímar í brottför
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.