9.10.2013 | 14:16
Hugleiðing fimm árum seinna.
Það reyndist skrítið ferðalagið sem ég fór í seinustu dagana í september 2008. Ekki datt mér í hug hvað átti eftir að eiga sér stað á meðan ég skrapp aðeins yfir hafið. Með mér í fluginu var Jóhannes sjálfur í Bonus ásamt vini sínum Tryggva Jónssyni, þeir voru þarna með konum sínum á leið í frí, alveg eins og ég. Daginn eftir sá ég þá félaga aftur, í mollinu. Þeir sitjandi við gosbrunn og konurnar komu glaðbeittar hlaðnar pökkum og pinklum úr búðum, sem ég hef bara rétt þorað að kíkja í gluggann hjá. Ekki datt mér í hug hvað næstu dagar áttu eftir að bera i skauti sér, en ætli þá hafi grunað? Veit það auðvitað ekki en þegar ég lít til baka, þykir mér þetta dálítið merkilegt að hafa séð þá kumpána þarna á þessum tíma.
Eins og vanalega í útlöndum, fylgist ég svona nett með fréttum, þykir þær oftast svo neikvæðar og leiðinlegar að ég vil helst fá frí frá þeim, þegar ég er í fríi. Það var þó símtal frá fólki, sem var í fríi á sama stað og ég, sem fékk mig til að leita frétta. Þau spurðu hvort ég hefði verið í vandræðum með að nota kreditkortið mitt. Ég kom auðvitað alveg af fjöllum, kortið svínvirkaði og ég bara í góðum kortamálum.
Eftir á að hyggja, er ég mjög glöð að hafa verið fjarri atburðarásinni. Ég missti algjörlega af fræga ávarpinu hans Geirs Haarde, sem betur fer. Ég missti af falli Landsbankans og ég missti líka af falli Glitnis, en var þá farin að lesa allar fréttir mjög gaumgæfilega.
Ég var eiginlega komin á það að fara ekkert heim aftur, senda eftir börnum og hundi og leggjast í útlegð. Ísland sokkið í djúpið, samkvæmt fréttum, matvæli voru að klárast í búðum og ekkert blasti við nema eymd og volæði, svartidauði og móðuharðindi.
Einn félagi okkar hughreysti okkur þó með því að segja okkur að væntanlega tækist að redda olíu á flugvélar, svo samgöngur við landið legðust ekki niður. Mikill léttir
Haldið var heim. Morguninn sem við lentum á Keflavíkurflugvelli var fyrsta fréttin sem við heyrðum að Kaupþing hefði fallið.
Dagarnir og vikurnar þar á eftir voru ekki þeir skemmtilegustu sem ég man eftir. Ég ákvað að reyna mitt besta að sjá hlutina í jákvæðu ljósi, en það var ekki auðvelt verk.
Vinnustaðurinn minn fór á hausinn svo ekki var afkoma mín prívat og persónulega eins trygg og áður. Fyrirtæki mannsins lifði af, svo við þurftum kannski ekki að hafa svo miklar áhyggjur af að hafa ekki í okkur og á.
En dóttir okkar og kærasti voru nýbúin að kaupa sér íbúð á erlendum lánum. Hvernig færi fyrir þeim?
Allt virtist einhvernvegin svo vonlaust, við kæmumst aldrei uppúr þessu ástandi. Ég var ekki sátt við byltinguna sem var gerð á Austuvelli. Ég var ekki sátt við svo margt. En það var bara eitt sem ég varð að gera. Ég varð að halda áfram, hvað annað?
Ég er hér ennþá og hvergi annars staðar vil ég vera. Við hljótum að fara að sjá bráðum til lands. Ég vona það.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.