11.9.2008 | 09:25
Strætóvilji ha??
Það lá við að skyrið mitt hrykki illa ofan í mig, þegar ég fletti blaðínu í morgun og sá í vinstra horninu á einni blaðsíðunni: "VANTAR VILJANN TIL AÐ NOTA STRÆTÓ". Þessi fyrirsögn vakti athygli mína svo ég las áfram. Þarna er Ármann Kr Ólafsson að útlista að fólk almennt vilji alls ekki nota strætó, kerfið sé bara hið ágætasta en fólkið vilji einhverrra hluta vegna ekki nota vagnana. BÚLL SHITT afsakið orðbragðið.
Þegar ég flutti í hverfið mitt fyrir 6 árum var dóttir mín í menntaskóla og ekki komin með bílpróf. Því lá beinast við að hún ferðaðist með strætó í skólann. Það var bara eitt vandamál, það gekk enginn strætó í hverfið. Ég hafði samband við hann Pétur hjá Strætó og átti við hann nokkuð skemmtileg tölvupóstsamskipti. Mér fannst þá og finnst enn að ég og mínir eigi rétt á þokkalegri strætóþjónustu ekki síst þar sem ég borga gommu í skatt og sá skattur fer að hluta til í strætó, en ég svo mikill auli að flytja í hverfi þar sem strætó sá sér ekki fært að þjóna. Til að gera langa sögu stutta þá tók stubban mín bílpróf, við öngluðum saman í gamlan bíl með henni og ég sendi Pétri hjá strætó síðasta tölvubréfið og þakkaði honum fyrir enga þjónustu. Síðan hafa nokkur strætókerfi komið og farið og Ármann Kr og félagar misstu amk einn viðskiptavin.
Núna gengur strætó í hverfið mitt. Einn góðviðrisföstudag var ég svo ljónheppin að eiga frí í eftirmiðdaginn, mælti mér mót við uppáhaldsfrænkuna og við skutluðumst í bæinn, fengum okkur löns og hvítvínstár. Þegar að heimför kom, datt mér eiginlega ekkert annað í hug en að taka leigubíl. Frænkan benti mér á strætó og gaf mér meira að segja strætómiða. Þarna vantaði mig ekki viljann, ég skokkaði á Lækjartorg, beið í smástund eftir vagninum. Frænkan var búin að segja mér að biðja um skiptimiða, sem ég gerði samviskusamlega og hreiðraði svo um mig í ágætis sæti. Ferðin í Garðabæinn var hin skemmtilegasta og ég orðin svo opin fyrir strætó að hið hálfa hefði verið miklu meira en nóg. Ég fór út við "Bitabæ" skveraði mér undir Hafnarfjarðarveginn til að ná í vagninn heim til mín. Kíkti á tímatöfluna og jú viti menn það átti vagn að fara kl. 48 semsagt 12 mínútur í.. Ég hinkra og á réttum tíma stekkur bílstjórinn út úr einhverri hurð. Jú hú strætó er flottur hugsa ég. Maðurinn segir við okkur tvær sem vorum að bíða eftir vagninum: VÍFFFFFILSSSTAÐIR, ha nei ég var ekki að fara að Vífilsstöðum, ég var að fara í Ásahverfið og segi manninum það. VÍFFFFFILSSSSTAÐIR segir þá maðurinn aftur, ég orðin eins og fífl í framan, nei ég er ekki að fara að Vífilsstöðum. Þá kom í ljós að vagninn fór að Vífilsstöðum, stoppaði svo aftur á stöðinni og dröslaðist svo heim til mín, hugsanlega með viðkomu á Álftanesinu. Bílstjórinn talaði ekki aðra íslensku en þessa, skildi mig augsnýnilega ekki baun. Nei ég nennti þessu ekki svo ég skundaði af stað á háhæluðu skónum mínum. Ég var 20 mínútur að ganga heim og enginn strætó var kominn. Ég semsagt var fljótari að trítla á háhæluðu skónum en að taka strætó.
Ármann minn. Mig skortir ekki viljann. Mig skortir strætó. Ég hef alltaf verið fylgjandi strætó, en það verður þá að vera hægt að nota kerfið. Og annað, ég eða aðrir eigum rétt á því að geta talað málið okkar við strætóbílstjórann, ég á ekki og vil ekki þurfa að kunna pólsku, litháísku, rússnesku, kínversku eða nokkuð annað mál en íslensku til að geta fengið upplýsingar hjá strætóbílstjóra.
Þetta finnst mér að minnsta kosti
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.