10.10.2009 | 21:36
U2 rokkuðu feitt í gærkvöldi
Ég er eiginlega orðlaus eftir gærkvöldið. Við gömlu lögðum snemma af stað og ætluðum að skoða Tampa. Við gleymdum því reyndar, því við ákváðum að koma okkur frekar snemma á völlinn til að vera tilbúin í tónleikana. Auðvitað gekk okkur vel að finna völlinn enda Garminn með í ferðnni. Auðvitað voru bílastæðamálin hjá könunum eins og venjulega óaðfinnanleg, okkur vísað í stæði og allt gekk eins og í sögu. Kaninn var nú flínkari en við, sem höfðum ekki einu sinni rænu á að hafa með okkur vatnsflösku. Nei kaninn var með allt á hreinu, margir komu með grill og flestir með góða coolera og gerðu góðan dag úr öllu saman.
En við gleymdum því öllu. Trítluðum í búð, sem var dágóðan spotta í burtu og hitinn var svakalegur. Enn eitt hitametið slegið í gær og það fyrra var frá árinu 1951. Svo settumst við bara í bílinn, létum hann ganga og kæla okkur. þegar svo völlurinn var opnaður fórum við inn að NJÓTA.
Vá þvílíkur völlur. Hann tekur tæplega 66 þús manns í sæti og þegar U2 komu á sviðið var hvert sæti setið og gólfið var þakið fólki, ég held við höfum aldrei aldrei séð svona margt fólk samankomið.
Svo byrjaði veislan. Fyrst komu Muse. Ég hafði nú aldrei heyrt einu sinni um þá, en þeir eru GÓÐIR. Mér fannst nú sviðið og sjóið í kringum þá bara flott, en ég hafði ekki séð neitt. Þegar var búið að rútta öllum græjunum þeirra í burtu og koma með græjur stjarnanna byrjaði alvöru veislan. U2....... vá vá vá vá. Engu líkir. Ég hef aldrei aldrei séð annað eins. Sviðið var algjörlega ólýsanlegt. Það átti að tákna geimskip og það breyttist endalaust, þegar maður hélt að það gæti ekki komið neitt meira nýtt, þá kom bara meira nýtt. Og tónlistin. Vá vá vá vá. Þeir höfðu nú ekki lágt piltarnir en ég naut hverrar mínútu ásamt öllum hinum þúsundunum. Það var sungið með, það var hoppað og það var dansað og það var klappað.
Þið sjáið að við skemmtum okkur eins og við höfum aldrei skemmt okkur fyrr.
Og allt þetta í boði dætrana og tengdasonanna. Kærar þakkir, betri afmælisgjöf hefðuð þið ekki getað gefið okkur...
En nú sit ég aftur við sundlaugarbakkann. Reyni að snúa bakinu í sólina, því golfbrúnkan er orðin pínu hræðileg, kaffibrúnir handleggir og axlir og snakahvítt bak. Ætlum svo að skutla í okkur steik í kvöld.
Sí ja.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.