Áramótablogg

Er ekki tilvalið að líta um öxl svona um áramótin???

Kannski, en mig langar meira að segja frá rétt síðustu dögum.  Við erum sumsagt öll hér í Floridanu okkar, pabbi mamma, börn, barnabörn og María.  Eftir magakveisuna kröftugu eru flestir búnir að ná heilsu, gamli reyndar er að kafna úr hori og hósta en eftir góða ferð í Publix, stendur það allt til bóta.

Gormarnir Aríela og Benjamín eru búin að vera algjörlega frábær og mér sýnist Yrjan hlakka til að komast í hópinn og hamast með þeim.  Þau eru engu lík.  Eina stundina eru þau svoleiðis bestu vinir og þá næstu eru þau svo svarnir óvinir að þau ætla aldrei að tala við hvort annað aftur.  Við gömlu horfum á þetta á hliðarlínunni og þykir gaman að og orðin sem falla eru stórkostleg, það er ekki sparað við sig stóru orðin... " ég ætla aldrei að bjóða þér í afmælið mitt"  hefur heyrst, ásamt miklu fleiri gullkornum.  En þau eru svo skemmtileg að hið hálfa væri miklu meira en nóg.

Við gömlu erum auðvitað vön því að vera að dröslast hér bara sér og sjálf svo það er mikið fjör á heimilinu og auðvitað er svo ótalangt síðan kríli hafa verið á heimilinu.  Uppþvottavélin fer í gang að minnsta kosti tvisvar á dag, mikið keypt inn og allt á fullu.  En almáttugur hvað er gaman að fylgjast með þeim og vera með þeim.  

Við erum búin að golfa bara temmilega og fyrsti golfhringur ársins 2019 brestur á í fyrramálið.  Það hefur nú gengð dálítið brösuglega en ég hef fulla trú á að 2019 verði fullt af frábærum tilþrifum á golfvellinum. Ég er amk full tilhlökkunar.

2018 er búið að vera ljómandi ár og er engin ástæða til að ætla annað en að 2019 verði ennþá betra.  Ég stefni amk á það.

Já góðir hálsar ef það var ekki búið að koma fram þá er kalkúnn í matinn í kvöld.


Jólin jólin jólin

Þð er ekki laust við að jólin og dagarnir þar á undan hafi verið frekar skrítin.  Flestir hinna fullorðnu eru búnir að fá þessa líka skemmtilegu magakveisu.  Stubban byrjaði daginn eftir að við komum og svo hver af öðrum, þangað til við gömlu gáfumst upp á Þorláksmessu.  Og þvílíkt og annað eins, maður lifandi.  En nú eru flestir orðnir hraustir utan frumburðurinn, sem er að kafna úr hori, en það stendur vonandi til bóta.

Aðfangadagskvöldið var ákaflega skemmtilegt.  Maturinn var æðislegur bæði fugl og svín og eins og vanalega var ekki skortur á mat.  Pakkar voru teknir upp og þau minni yfir sig lukkuleg og við eldri líka.  Við höfðum leynivinaleik, svo allir fullorðnir fengu bara einn pakka frá sínum leynivin.  

Veðrið í Florida er búið að vera dálítið skrítið.  Við fengum storm, sem er algjörlega skrítið á þessum árstíma og meira að segja hér bara stutt frá kom hvirfilvindur sem stórskemmdi hús, en aðeins eitt hús og sama daginn var þvílík rigning hér að hið hálfa hefði verið miklu meira en nóg.  Það er búið að vera kalt á mognana en hlýnar svo um hádegi og krakkarnir hafa getað verið að svamla í lauginni.

Jóladagurinn verður væntanlega obboð rólegur, þar sem allt er lokað hér.  Flott aaað jaafna sig i maganum og safna kröftum fyrir golfhring á morgun, en á þeim vettvangi er virkileg þörf á bætingu.

 


Jóla - flugvélablogg

Það var flugvélin sem ber heitið Magni, ekki er það eldstöð, sem skottaði stórfjölskyldunni yfir hafið í þetta skiptið og var bara nokk snögg að fleyta sólþyrstum fjölskyldumeðlimum ásamt nokkrum fleirum yfir hafið.  Langþráð jólafrí er loksins komið og við ætlum að vera í sólskinsríkinu yfir jól og áramót.

Það er reyndar fátt sem minnir á sólskinsríkið hér fyrir utan núna því það hellirignir, það hellirignir maður lifandi, en rigningin kemur beint niður úr himninum og það er hlýtt svo það ere jákvætt.

Fjöllan skottaðist í Disney í gær og maður lifandi var mikið fjör.  Við ásamt næstum öllum í heiminum aðrir nutum ævintýraheims Disney.  En það var dálítið blautt seinni partinn svo það voru tja dálítið blautir ferðalangar sem komu heim í gærkvöldi en almáttugur hvað krakkakrílin voru kát.  Við gömlu vorum kannski lafandi þreytt eftir daginn en barnið innra var obboð kátt.

Í dag er á dagskránni að skransant í mollið, já við ætlum að skransast í mollið, þangað sem ég hef ekki komið í mörg ár.  Tilefnið er jakkafatakaup á gamla, ekki til að nota hér á jólunum, því hann er búinn að kaupa þennan líka drellfína jólajakka til að dressa sig upp á jólunum.

Ég er ekki búin að eiga lausa stund til að tjekka á stjörnunum en sú stund kemur, er reyndar búin að sjá að Megan er dálítið buguð af lífinu í höllinni stúlkukrílið hver láir henni, ólétt og alveg ný í þessu prinsessulífi.  En ég lofa bót og betrun.

Hér eru allir eins og svín í sagi, börn með einum pabba og einum afa í leikherberginu að sprella með þá og restin af fullorðnum að chilla.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband