4.11.2013 | 19:16
Sólarlaus dagur.
Jú það gerist líka hérna i Floridanu. það væri samt frekja að kvarta þvi úti eru 25 gráður. Ekkert til að væla yfir en sólin er bak við ský og við gömlu innandyra.
Í gær var aðeins kíkt í búð, það er nú ekkert sérstaklega leiðinlegt. Frúin kom heim með nokkra bráðnauðsynlega kjóla. Ekki vanþörf á þar sem þeir í skápnum eru næstum komnir á eftirlaunaaldur . Gott retail therapy er engu líkt. Og svo þegar allt stöffið smellpassar þá er frúin kát.
Gamli vann mig í golfinu í morgun. Hann samt bara rétt marði sigurinn. Það voru púttin á 18 sem mér tókst að klúðra. En það verður nýr hringur á morgun. Og þá má gamli aldeilis vara sig.
En þar sem sólin er í fríi þá ætla eg að fá mér smá lúr.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2013 | 18:45
Mundum eftir klukkunum.
Mér þykir þetta dálitið skrítið að þurfa að stilla klukkur uppá nýtt tvisvar á ári. Enda er ég ekki vön þessum æfingum. Ég er ekki viss um að við nennum að stilla allar klukkurnar í húsinu. Þær eru fjöl margar. Í fljótu bragði man ég eftir 6 stykkjum á efri hæðinni. Svo eru öll tækin sem öll eru með klukku. Það tæki örugglega lungann úr deginum að fara yfir þær allar. Hraðinn á okkur er ekki til að hrópa húrra fyrir, svo þessi klukkustilling gæti tekið lungann úr heilum degi.
Í gær var rigning og ekkert skemmtilegt veður hérna í sveitinni. Ekki skrýtið að við gömlu vöknuðum í morgun með hor í nös og hraglanda í hálsi. Í dag er sólin aftur farin að skína eins og vera ber. En við notuðum daginn vel og sóttum nýju sessurnar í úti húsgögnin. Í morgun bættum við aðeins við og keyptum ýmislegt til heimilisins hérna megin hafsins.
Svo fer nú að styttast í að fjölgi í kotinu. Háhæðarhjónin ætla að heiðra okkur með nærveru sinni svona síðustu dagana okkar.
Restin af deginum verður auðveld. Það er smá göngutúr og svo er það slúðurvinnan. Get varla beðið eftir að lesa um hvað hexið hún Camilla er að spæla aumingja Betu. Og sagan segir að hún hafi eyðilagt skírnardaginn hans Georgs. Hún er nú meira hrossið. Mér þykir eiginlega alveg nóg um að hún líti út eins og hestur. Hún þarf ekki að haga sér eins og hross.
Óver and át frá landinu mikla í Westri.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2013 | 22:16
Ég náði fugli!
Það er alveg hreina satt. Ræfilstuskan var í mestu makindum svamlandi í sefi við bakkann á örlitlu vatni sem var á milli mín og golfkúlunnar minnar og holunnar. Ekki veit ég hvað fíflið var að þvælast þarna. En ég veit að hann var ekki kátur þegar kúlan skall í honum. Ég meina það. Fugl á golfvelli við hverju býst hann eiginlega? En hann flaug drullufúll í burtu svo ekki var mikið sært nema fuglastoltið hans.
Gamli hafði ekki mikið fyrir því að vinna mig í dag. Eigum við ekki bara að segja að ég hafi verið í andlegu áfalli eftir áreksturinn við fuglfjandann.
Í kvöld þurfum við svo að muna eftir að stilla allar klukkur í húsinu eða svona sirka bát. Þeir nefnilega færa klukkuna aftur um einn tima kl 2 í nótt. Ekki nenni ég að vera vakandi þá, svo við svindlum þara pínu og færum klukkur fyrir svefninn.
Sagði ykkur frá fréttum af skilnöðum. hennar Barböru og Josh og svo Kelly og John. Hún Barbara er víst algjör frekjudolla og er Josh alveg að gefast upp á henni. Kelly flutti frá John og börnunum í vor til að fara að leika í einhverjum þáttum , sem eru svo víst ekkert að gera sig. Og John bara heima með börnin. Leyfi ykkur að fylgjast með. Í blaðinu í dag sá ég svo að hún Camilla er alveg trompuð í höllinni og aumingja Beta sem er nú orðin öldruð og hjartveik skv blaðinu. Og varla lýgur blaðið.
Eftir rigningu í morgun er svo von á bongo blíðu á morgun. Ég út á bekk takk fyrir kærlega, enda nýjar sessur á öllum bekkjum og stólum.
Og ég ætla að vinna á morgun.
Halelúja.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2013 | 20:01
Ljúft í sveitinni.
það er svo ljúft og afslappað lífið hjá okkur í Floridasveitinni að ég nenni engu , hef ekkert nennt að blogga hvað þá meira. Ætla að bæta úr þessari bloggleti snarlega.
Oft hefur verið ljúft hjá okkur en ég held svei mér þá aldrei eins og núna. Veit ekki hvað það er en við bara rétt nennum að draga andann. Hvernig ætti líka annað að vera. Úti er 30 stiga hiti sól og blíða. Reyndar var hávaða rok í golfinu. það háði Okkur þó ekki baun við spiluðum bæði fineríis golf. Keppnin mikla er æsispennandi og getur farið í báðar áttir... ennþá. Ég er skíthrædd um að gamli finni enn betur sveifluna sína og þá ég ekki í góðum málum. Nei O nei.
Annars gengur lífið hér í Bonville svona eins og venjulega. Við gerum okkar besta að fylgjast með hvað stjörnurnar eru að bralla. Núna á eftir er ég akkurat að fara lesa um tvo æsispennandi skilnaði. Jamm Barbara gamla Streisant ku vera að skilja við sinn ektamann og auðvitað er fín forsíðugrein um það. Svo það mest spennandi John Travolta og Kelly. Allt í háalofti þar. Get varla beðið eftir að komast í slúðrið.
Svona rétt til að leyfa ykkur að fylgjast með, þá fékk ég túnfisk og rækjur í gærkvöldi og fæ lax í kvöld. Skolað niður með yndislegu hvítvíni. Nei nei Andrés það er ekki kaupfélags beljan með matnum en kannski pínu á eftir Hvur veit.
Þarf að snúa mér við á bekknum. Ekki vill frúin brenna.
Tjá
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.10.2013 | 19:41
Í stjörnufans
það hefur verið svo margt að gerast hjá stjörnunum síðan seinast. Vissuð þið að hann Bruce Jenner er að spuglera að hann vilji frekar vera kona en kalI ? Og vissuð þið að hann var að bísa naríum frá henni Kim? Frá henni Kim. Halelúja hvað er eiginlega að manninum? Engin furða að hún Kris vilji ekkert með hann hafa lengur. Þau eru víst flutt í sundur, engin furða. Hann á víst fleiri kjóla en hún. Ég held að ég yrði ekki par kát, ef gamli ætti fleiri kjóla en ég.
Annars virðist allt vera við það sama. Soffía Vergara er víst alveg að horfalla anga stýrið. Kærastinn er svo erfiður, alltaf að kíkja á aðrar stelpur og aumingja Soffía algjörlega bit. Aðrar eru alveg að springa Úr spiki. Ég ætla þó ekki að nefna nein nöfn, þið vitið hvað þetta spik er viðkvæmt umræðuefni.
En að mikilvægara málefni. Nefnilega golfinu. Keppnin mikla í fullum gangi. Og viti menn, frúin er í forystu. Ákaflega ánægjuleg tilbreyting og er ég að hugsa um að halda þessu svona.
Svo er krúttið hún Suri búin að missa fyrstu tönnina.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.10.2013 | 22:27
Komin "heim"
Hélt í alvörunni að flugferðin tæki engan enda. Held að þetta hafi verið sú lengsta í mínu minni. En hingað erum við komin og byrjuð að njóta. Fyrsta ferðin í WalMart í gær, eftir mjög eftirminnilegan golfhring. Ekki var glæsileikanum fyrir að fara ekki aldeilis, ég ætla ekki að tala fyrir gamla hann má tjá sig sjalfur ef hann sér sig knúinn til. En ég var eins og flón svo ekki sé meira sagt og tapaði bigtæm í keppninni miklu. En í morgun var annar stíll á frúnni og tókst mér með miklu harðfylgi að vinna gamla
Matar séð er ég ákaflega vel haldin svona bara eins og venjulega. Í gærkvöldi var það steik, frekar frábær. Í kvöld verða það svo sjávarréttir og ekki er það ég sem elda, ég legg á borð og kveiki á kertinu. Ekki gleyma að ég sé um dinner tónlistina. Ég sé á öllu þessu að ég verð algjörlega uppgefin eftir allan þennan þrældóm.
Eigið yndislegt kvöld:)
þangað til á morgun TJÁ
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.10.2013 | 11:25
Flogið Ä« frÄ«
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.10.2013 | 13:14
Suddalegur er sá fertugasti og annar.
En eins og vanalega þá vorum við voffan galvaskar í túrnum okkar. Verð að viðurkenna að veðrið í dag er ekki í miklu uppáhaldi hjá mér. Rok og suddi. Nei ég vel frekar sól og blíðu.
Hvað á að vera í kvöldmatinn? Þekkja ekki allir örvæntinguna sem grípur þegar engin hugmynd kemur upp í kollinn á manni? Ég hef oft og mörgum sinnum væflast um Fjarðarkaup í hreinni angist. Þarna er ég í fullri búð matar, en finn ekkert til að hafa í matinn. Ég hef látið það eftir mér að gægjast ofan í körfur hjá fólkinu sem ég mæti í búðinni. Bara til að reyna að fá fína hugmynd. Ég hef staðið fyrir framan girnilegt kjötborðið og fengið nett kvíðakast. Hvað á að velja? Hvað skyldi slá í gegn? fiskur? kjöt? úff, allt og mikið um að hugsa. Einu sinni sem oftar var ég í þessum sporum og opinberaði vandræði mín við afgreiðslukonuna. Sú var með eina bestu hugmynd sem ég hef heyrt í mörg ár. Hvernig væri að vera með körfur með miðum í. Ein með miðum með sparimat. Önnur með miðum með fiski og sú þriðja með miða með kjöthvundagsmat. Ef maður er í basli, dregur maður hreinlega miða og jes jibbí málið er leyst. Ég kaupi það sem á miðanum stendur og allir kátir. Ég skil ekki afhverju þessi hugmynd er ekki fyrir löngu orðin að veruleika.
En bráðum þarf ég ekki að hafa áhyggjur af matseld..... Ég er að fara westur og þá ræð ég ekki ríkjum í eldhúsinu. Þar ríkir gamlinn minn. Ég er strax farin að hlakka til. Ætli það verði steik? ég bara bíð róleg, fæ kannski pínu fordrykk og lakka neglurnar.
Er ég ekki heppin?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.10.2013 | 14:16
Hugleiðing fimm árum seinna.
Það reyndist skrítið ferðalagið sem ég fór í seinustu dagana í september 2008. Ekki datt mér í hug hvað átti eftir að eiga sér stað á meðan ég skrapp aðeins yfir hafið. Með mér í fluginu var Jóhannes sjálfur í Bonus ásamt vini sínum Tryggva Jónssyni, þeir voru þarna með konum sínum á leið í frí, alveg eins og ég. Daginn eftir sá ég þá félaga aftur, í mollinu. Þeir sitjandi við gosbrunn og konurnar komu glaðbeittar hlaðnar pökkum og pinklum úr búðum, sem ég hef bara rétt þorað að kíkja í gluggann hjá. Ekki datt mér í hug hvað næstu dagar áttu eftir að bera i skauti sér, en ætli þá hafi grunað? Veit það auðvitað ekki en þegar ég lít til baka, þykir mér þetta dálítið merkilegt að hafa séð þá kumpána þarna á þessum tíma.
Eins og vanalega í útlöndum, fylgist ég svona nett með fréttum, þykir þær oftast svo neikvæðar og leiðinlegar að ég vil helst fá frí frá þeim, þegar ég er í fríi. Það var þó símtal frá fólki, sem var í fríi á sama stað og ég, sem fékk mig til að leita frétta. Þau spurðu hvort ég hefði verið í vandræðum með að nota kreditkortið mitt. Ég kom auðvitað alveg af fjöllum, kortið svínvirkaði og ég bara í góðum kortamálum.
Eftir á að hyggja, er ég mjög glöð að hafa verið fjarri atburðarásinni. Ég missti algjörlega af fræga ávarpinu hans Geirs Haarde, sem betur fer. Ég missti af falli Landsbankans og ég missti líka af falli Glitnis, en var þá farin að lesa allar fréttir mjög gaumgæfilega.
Ég var eiginlega komin á það að fara ekkert heim aftur, senda eftir börnum og hundi og leggjast í útlegð. Ísland sokkið í djúpið, samkvæmt fréttum, matvæli voru að klárast í búðum og ekkert blasti við nema eymd og volæði, svartidauði og móðuharðindi.
Einn félagi okkar hughreysti okkur þó með því að segja okkur að væntanlega tækist að redda olíu á flugvélar, svo samgöngur við landið legðust ekki niður. Mikill léttir
Haldið var heim. Morguninn sem við lentum á Keflavíkurflugvelli var fyrsta fréttin sem við heyrðum að Kaupþing hefði fallið.
Dagarnir og vikurnar þar á eftir voru ekki þeir skemmtilegustu sem ég man eftir. Ég ákvað að reyna mitt besta að sjá hlutina í jákvæðu ljósi, en það var ekki auðvelt verk.
Vinnustaðurinn minn fór á hausinn svo ekki var afkoma mín prívat og persónulega eins trygg og áður. Fyrirtæki mannsins lifði af, svo við þurftum kannski ekki að hafa svo miklar áhyggjur af að hafa ekki í okkur og á.
En dóttir okkar og kærasti voru nýbúin að kaupa sér íbúð á erlendum lánum. Hvernig færi fyrir þeim?
Allt virtist einhvernvegin svo vonlaust, við kæmumst aldrei uppúr þessu ástandi. Ég var ekki sátt við byltinguna sem var gerð á Austuvelli. Ég var ekki sátt við svo margt. En það var bara eitt sem ég varð að gera. Ég varð að halda áfram, hvað annað?
Ég er hér ennþá og hvergi annars staðar vil ég vera. Við hljótum að fara að sjá bráðum til lands. Ég vona það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2013 | 10:44
Númer 41 fokinn í hlað.
Auðvitað skottuðumst við voffan út í morgun. Það er sannarlega hægt að segja að það gustaði um okkur. Laufin hreinlega fjúka af trjánum þessa dagana og haustið er svo sannarlega komið.
Haustið er komið og það markar tímamót. Við gömlu erum búin að pakka golfgræjunum inn í geymslu, það verður ekki meira golfað á Íslandinu þetta árið. Sláttuvélin er komin í frí. Ég þarf ekki að pirra mig yfir að nenna ekki út í garð að drepa plöntur, sem dirfast að vaxa og dafna þar sem þær eru ekki svo velkomnar. Nú er stefnan tekin Westur. Jú góðir hálsar það eru 439 klst þangað til við fljúgum af stað. Við erum enn og aftur á leiðinni westur um haf og það eru bara litlar 439 klukkustundir þangað til einhver flugvél með einhverju eldstöðvarheiti, hefur sig á loft, með okkur innanborðs. Úff, get varla beðið. Svo er það golf morguninn eftir. Er hægt að hugsa sér það betra? En núna erum við öðruvísi. Við erum kannski ekki öðruvísi að sjá, kannski pundinu þyngri eða léttari. Nokkrum mánuðum eldri en síðast. En við erum sko öðruvísi. Við erum amma og afi. Þvílíkar virðingarstöður. Við eigum Krílann okkar og það verður skrítið að sjá hann ekki í langan tíma. En auðvitað getum við fylgst með honum. Það er sem betur fer ekki eins og þegar ég var lítil stelpa og ég hitti ekki ömmur mínar fyrr en margra ára gömul. Þær höfðu ekki Skype fyrir vestan eða norðan ömmurnar mínar og þær voru ekkert að flengjast í bæinn reglulega. Svona er þetta breytt, sem betur fer.
En ég er að fara bráðum. Þegar ég kem tilbaka verður örugglega ekki eitt lauf á neinu tré og það verður kominn vetur. Úff og gamli að vinna úti. Ekki öfunda ég hann. Ég eins og prinsessa á bauninni, kvarta og kveina yfir veðrinu, þegar við voffan skottumst út en hann ræfillinn úti allan liðlangan daginn. Ætla sko ekki að skipta við hann. Aldeilis ekki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)