Fertugasti föstudagurinn, yndislegur

Þegar við voffan snöruðum okkur út í morgun var haustmorguninn eins yndislegur og þeir gerast.  Svo hreint loftið og lykt af hausti, hvurnig svo sem hún er, en það var lykt af hausti. 

Ég hef mikið verð að hugsa um væntingar, undanfarið.  Mér hefur verið mikið og oft hugsað til hennar ömmu minnar, hvaða væntingar hafði hún á haustmánuðum 1919, þegar hún átti von á henni mömmu minni.   Það var ekki rafmagn í bænum hennar, það var ekkert í bænum hennar.  Að minnsta kosti ekkert af því sem mér þykir ekki bara nauðsynlegt, heldur sjálfsagt að hafa.  Haustið þýðir að það dimmir og það dimmir í sveitinni.  Það verður svarta myrkur.  Og það verður kalt í bænum og hún á von á litlu barni í nóvember.  Hún hefur örugglega ekki verið að hugsa um að litla barnið fetaði menntaveginn,  hún hefur örugglega ekki verið að hugsa um að barnið hennar ætti barnastól, eða nokkuð annað af þeim þægindum sem eru algjörlega sjálfsögð í dag.  Nei hún amma hefur væntanlega verið að vonast til að barnið, hún mamma mín, lifði af veturinn.  Veturinn sem gæti orðið harður, frostaveturinn mikli var jú síðati vetur.  Hún hefur væntanlega verið að vonast til að geta séð mömmu fyrir nægri mjólk svo hún þrifist og dafnaði.  Og henni hefur örugglega verið hugsað til barnanna sinna, sem hún þurfti að senda í fóstur, þegar hún varð ekkja.  Hún mamma lifði af veturinn og hún mamma lifði marga vetur kom okkur 5 systkinunum til manns og kenndi ömmubörnunum sínum ýmsa speki sem þau gleyma aldrei.

Af hverju ætli ég sé búin að vera að hugsa svona mikið um þetta að undanförnu?  Kannski vegna þess að ég varð amma um daginn.  Það er dálítið öðruvísi aðstæður.  Krílið vex og dafnar og á þeim bænum eru engar áhyggjur af hvort verði kalt eða hlýtt.  Þar eru aðstæður allar eins og best verður á kosið.  Væntingar til litla krílisins snúa ekki að því hvort hann hafi af veturinn, sem betur fer, þær snúa frekar að því  hvernig amman ætlar að njóta hans.  Amman ætlar líka að reyna að kenna honum eitthvað af spekinni sem mamma mín kenndi ömmustelpunni sinni, sem nú er orðin mamma.   


Númer 39 kominn og það er staðfest..... haustið er hér.

Núna er voffan að hefja sitt 10 æviár og er bara nokk hress miðað við aldur.  Hún taldi þó ekki eftir sér að skottast úr í morgun, í hressandi haustmorguninn, smá rigning en bara nokk góður morgunn.

Verð að segja að ég er bara nokk sátt við að haustið er mætt.  Núna get ég nefnilega hætt formlega að bíða eftir sumrinu, sumrinu sem aldrei kom.  Ég er búin að bíða síðan í maíbyrjun eftir sumrinu....  þokkalega bjartsýn í byrjun en smátt og smátt dofnaði bjartsýnin og að lokum hvarf hún,  kannski bara fauk hún í einhverju rokinu og aldeilis var nóg af rokinu í sumar.  Þá er bara að gera klárt fyrir veturinn.  Ég náði að slá blettinn í vikunni, þá fær sláttuvélin frí þangað til næsta sumar.  Aumingja sumarblómin, sem börðust hetjulega fyrir lífi sínu í sumar, eru komin í tunnuna og huggulegar Ericur komnar í þeirra stað.  Litlu blómapottarnir, sem hafa glatt okkur gömlu í sumar eru komnir í geymsluna sína, semsagt við búin að pakka sumrinu saman.

Þá er komið að golfinu.  Frúin hafði háar hugmyndir um hæfni sína á golfvellinum í sumar en ekkert af háu hugmyndunum varð að veruleika, kannski verða þær að veruleika næsta sumar.

Og nú eru bara 774 tímar í brottför  Grin


Sá 37 dottinn í hús og ég held að haustið sé komið.

Voffan og ég búnar að fá okkur morguntúrinn í svalanum og nutum vel.

Ég er búin að vera mikið að spuglera í skoðanafrelsi / kúgun undanfarið.  Það hefur verið mikið hafarí vegna hátíðar sem á eða kannski átti að vera í Laugardalshöllinni og þar átti einhver maður sem hafði ekki umburðarlyndar skoðanir á samkynhneigðum að tala.  Allt var vitlaust.  Fólk aldeilis froðufelldi á netinu formaður Samtaka 78 lýsti yfir að hún myndi ekki vilja vera í sama herbergi og þessi maður.  Þetta fékk mig verulega til að hugsa.  Ég gæti aldeilis trúað að  téður formaður Samtaka 78 hefði nú aldeilis fengið flog ef einhver hefði vogað sér að lýsa því yfir opinberlega að sá hinn sami hefði ekki viljað vera í sama herbergi og hún vegna skoðanna hennar, lífsskoðunum eða lífsstíl.  En þarna þótti henni bara fínt að vera aldeilis ekki umburðarlynd vegna skoðanna annarra.  Mér er bara spurn,  hvernig getur konan ætlast til að fólk sé umburðarlynt í hennar garð, þegar hún er svona í garð annarra.  

Annað nýlegt dæmi er um listamannalaunin, enn og aftur.  Hann Grímur frá Vestmannaeyjum leyfði sér að hafa skoðun á þeim, sem aldeilis samræmdist ekki listamönnum.  Listamaðurinn Sjón sá ástæðu til að urða yfir Vestmannaeyinga sko bara eins og þeir leggja sig.  Þegar ég las pistilinn hans, þar sem hann lýsti Vestmannaeyingum menningarsnauðum ruddum og eiginlega bara niðursetninga sem "bara" eru nýtanlegir til að syngja brekkusöng og moka fisk uppúr sjónum.  Sko  ef þetta er menningin hans Sjón þá þykir mér hún ekki merkileg.  Ef Vestmannaeyingar myndu ekki moka fisknum uppúr sjónum, reyndar ásamt fleirum, þá held ég að það væri nú ekki mikið eftir til að borga Sjón listamannalaun.  

Mikið vildi ég að  fólk myndi bera meiri virðingu fyrir skoðunum annarra, sérstaklega þeir, sem svo sannarlega hrópa eftir umburðarlyndi annarra.  Ég vona að formaður Samtakanna sjái að sér og sjái hvað yfirlýsingar hennar eru einstrengislegar og eigi bara heima einhvern tíma fyrir löng löngu síðan, þegar hinsegin fólk var litið hornauga.  Ef hún má hafa sínar skoðanir í friði, þá má þessi maður líka hafa sínar í friði .  Og hana nú.

Er farin í morgunkaffi til þeirrar elstu, en hún er að fara í sólina á eftir

Tjá 


Númer 32 runninn upp kaldur er hann brrrrrrrrrrrrrrrr

Viið voffan stukkum út í morgun og vorum eiginlega eins stutt í túrnum og mögulegt var.  Lítð um spuglasjónir.

En í dag er merkilegur dagur.  Fyrir akkurat 26 árum varð ég mamma í annað skiptið.  Árið það var dálítið skrítið hjá okkur gömlu, sem vorum auðvitað ekki baun gömul þá.  Þegar stubban mín fæddist, vorum við algjörlega á milljón að byggja hús, hús sem í byrjun við ætluðum að byggja voða rólega og flytja fyrst í bílskúrinn og fikra okkur svo inní húsið eftir efnum og aðstæðum.  Eitthvað skolaðist þessi áætlun til og við vorum alveg á fullu að gera húsið, já allt húsið klárt til að flytja inní.  Í þá daga þótti algjör skandall á Landspítlanum að nýorðnar mæður fengu bara að vera 4 daga á spítalanum.  Núna dytti ekki nokkrum manni í hug að vera svona lengi á spítala eftir fæðingu, veit ekki hvort er betra.  Nema hvað, akkurat á meðan á þessum 4 dögum stóð, seldist íbúðin okkar, loksins.....  gamli kom með tilboðið í heimsóknartímanum og ég krotaði undir.  Og þar sem íbúðin var seld, þá gátum við keypt útidyrahurð og bílskúrshurð og nýja mamman var sett í málið.  Auðvitað var þetta langt á undan GSM öldinni, en það var þessi fíni tíkallasími á deildinni þaðan sem nýja mamman  hringdi í trésmiðjuna, sem hafði gert okkur tilboð í smíðina.  Gamli var að vinna og vinna eins og vanalega og auðvitað símalaus, svo þetta lá beinast við.  Ég man að hinum nýorðnu mömmunum þótti þetta dálítið skrítið en svona var þetta bara.  Ég get ekki séð að stubban hafi beðið neinn skaða af amk er hún flott 26 ára kona falleg og góð.  Mikið værum við heppin ef fleiri væru eins og hún.

 


Sá 31. er flottur

Hann er yndislegur og sólríkur í dag.  Nú er aldeilis stand á heimilinu.  Ég hef ekki hugmynd um hvað voffan er að spuglera, hún stakk af í útilegu, svo frúin brá sér í dágóðan hjólatúr og spugleraði ýmislegt á leiðinni. 

Ég hef oft velt fyrir mér hvað garðyrkja er skrítin.  Ég er búin að eiga garð í næstum 30 ár, segi og skrifa þrjátíu ár.  Ég hef nú ekki gefið mig út fyrir að vera með hina margrómuðu grænu fingur, hef frekar dröslast í garðvinnu/garðyrkju af skyldurækni.  Ég hef fjárfest í ýmsum plöntum, sem sumar lifa af vistina og vaxa og dafna en aðrar veslast upp og deyja drottni sínum í beðunum mínum.  Í þessi plöntukaup hafa farið töluverðir fjármunir, plöntur eru sko ekki gefnar, ekki aldeilis, nokkrar druslur geta kostað tugi þúsunda og svo leyfa þær sér að hrökkva uppaf.  En þá er komið að kjarna málsins.  Í garðinum mínum vilja nefnilega vaxa ágætis plöntur, sóleyjar, gleym-mér-eyjar og ýmsar aðrar sem ég kann ekki skil á.   Lungann af tímanum sem er varið við "garðyrkju" er eytt í að rífa þessar fínu plöntur upp með rótum og henda.  Þetta eru samt einu plönturnar sem lifa fínu lífi í garðinum ár eftir ár, bara nokkuð fallegar og lífseigar og þá rífum við þær upp og drepum.  Garðyrkjan gengur semsagt út á að drepa gróður ekki rækta þann gróður sem vill lifa, nei hann skal burt og hana nú.  Hvað gerir búðarplönturnar eitthvað betri en sóley?  er þetta ekki bara plöntusnobb?  En ég fylgi með.  Ég er ekki svo sterk á svellinu að ég sé bara hreykin af sóleyjunum mínum sem vaxa svo huggulega meðfram runnunum mínum.  Ekki misskilja mig að ég sé alla daga úti með bossann út í loftið að rífa sóleyjar upp með rótum.  En ég tek góða spretti og tæti og ríf og uppsker oftar en ekki logandi bakverk að launum.  Ætti ég ekki bara að vera hreykin af því að sóleyjarnar vilja eiga heima hjá mér?  Ég er heldur ekki mjög plöntufróð frú.  Þekki margumrædda sóley og fífla og nokkrar fleiri.  Ég varð mér næstum til skammar um daginn.  Í hrauninu við golfvöllinn sá ég þessa ofurfögru fljólubláu plöntu.  Mér fannst hún svo falleg að ég var að hugsa um að koma með smá skóflu og ræna, já ræna einni og setja í garðinn minn.  Þangað til konan sem ég var með fór að tala um akkurat þessa plöntu, hvað hún væri mikill skaðvaldur og hræðilegt væri ef þetta skrímsli kæmist í garðinn manns.  Hjúkket og ég sem var næstum búin að planta kvikyndinu á besta stað.  Stórslysi afstýrt.  

Ég hjólaði til Óla Gríms og Dorrittar í morgun,  var að spá í hvort þau væru með heitt á könnunni en hafði mig ekki í að banka uppá.  En hugsaði með mér hvað við erum heppin hérna á landinu bláa.  Þarna kom ég bara á mínu gamla fjallahjóli og hefði svo sannarlega getað bankað uppá hjá forsetanum.  Enginn girðing, enginn öryggisvörður.  Svona á þetta að vera og ég vona svo sannarlega að ég geti alltaf spuglerað hvort ég eigi að banka uppá.  Þau eru nú orðnir sveitungar mínir og nágrannar alveg eins og þau í næstu götu eða þannig.....

Í morgun var sko hengt út.  Er nokk sjúr á að það er orðið þurrt.

Óver and át 


Númer 30 er hann þessi

Og við voffan hentumst út í þokuna í morgun.  Ég held að það rúmist ekkert margt í hausnum á voffunni og kannski ekkert mikið meira í hausnum á mér.

Eins og glöggir lesendur sjá, þá hafa tveir föstudagar liðið án þess að ég láti í mér heyra.  Ég er sko ekki búin að vera í fýlu heldur er ég búin að vera svo mikið upptekin.

Það var meistaramótið í golfklúbbnum.  Og frúin var með.  Reyndar var ég búin að ákveða og hætta við nokkrum sinnum, búin að meiða mig og fann þar ansi góða afsökun fyrir að vera ekki með.  Reyndar var ég búin að finna milljón afsakanir fyrir að vera ekki með en þegar á hólminn var komin, þá héldu þær ekki vatni og ég dröslaðist af stað.  Og talandi um vatn.....  þetta sem kemur niður úr loftinu.  Það var sko nóg af því, maður lifandi hvað gat rignt á ræfils golfarana sem þrömmuðu í marga marga klukkutíma og voru að reyna að spila sitt besta golf.  Þetta var dálítið skrautlegt.  En til að gera langa sögu stutta, þá endurtók ég ekki leikinn frá því er ég tók síðast þátt í meistaramótinu, neibb ég vann ekki, náði ekki einu sinni takmarkinu sem ég setti mér fyrir mótið, sem var kannski ekki einu sinni svo háleitt, það var nú ekki háleitara en að verða fyrir ofan miðju, klúðraði því.  En ég kláraði og hafði bara gaman af.

Svo kom síðasti föstudagur.  Þá lögðum við gömlu land undir fót.  Eða frekar land undir bíl.  Við brunuðum af stað, golfuðum í Borgarnesi í svoleiðis hellirigningu seinni hlutann að það var sko ekki fyndið.  Svo rennandi blaut héldum við ferðalaginu áfram.  Áfangastaðurinn var Drangsnes.  Við vorum að fara á Bryggjuhátíðina á Drangsnesi.  Ég verð nú að segja að fyrir ferðina, langaði mig eiginlega ekki baun.  En hvað ég er glöð að ég skyldi ekki láta eftir mér að fara ekki.  Þetta var frábær helgi.  Ég hef aldrei áður heimsótt Drangsnes, sem er ekkert smá huggulegur lítill bær.  Og Bryggjuhátíðin skemmtileg.  Við sáum skemmtilega listasýningu í grunnskólanum, sem er reyndar líka kapella.  Við smökkuðum alls konar sjávarfang, ég lét þó grilluðu signu grásleppuna alveg eiga sig, en grillaður lundi, Jón Bjarnason í smjöri, djúpsteiktar gellur og fleira og fleira.  Við kíktum við á grásleppusýningunni og smökkuðum alls konar grásleppuhrogn.  Það var fótboltaleikur á ótrúlegum fótboltavelli og áfram má telja.  Tónleikar í frystihúsinu og í samkomuhúsinu og fleira og fleira.

En á leiðinni heim komum við við á golfvellinum í Hólmavík.  Fæst orð bera minnsta ábyrgð börnin góð.  En ég fer aldrei aftur þangað og hana nú.

Ætla svo núna í sveitina

óver and át 


Hann er númer 27 þessi föstudagurinn

Við voffan  spruttum af stað í morgun, tja eins og maður sprettur af stað.  Voffan í heimspekilegum spegulasjónum og hvað hrærðist í hausnum á mér er varla fært á prent

Get eiginlega ekki sleppt and.....  $#$#$#/%$&$/$#  veðrinu.  Smá stríðni um síðustu helgi, bara svona til að við ræflarnir á suðvesturhorninu yrðum ekki alveg endanlega kolkreisí og það var sko blíða hérna á pallinum á sunnudaginn.  Frúin í sólbaði og alles.  En ekki í dag, ef frúin myndi voga sér út á bekk, tja held að yrði ekki að sökum að spyrja, hún yrði úti, auðvitað væri hún úti, hvaða vitleysingur getur séð að vera úti á bekk....  þá  hlýtur maður að vera úti, en hún sennilega myndi aldrei koma inn aftur.  Hún myndi sennilega bera beinin á bekknum.  Hafið þið heyrt aðra eins vitleysu?  Bera beinin.  Hvert ætti hún að bera beinin?  og eru það hennar eigin bein?  hvernig ætti hún eiginlega að bera þau?  ef þau væru ekki þrælfest á hana, þá held ég að frúin væri ekki í standi til að bera nokkurn skapaðan hlut, hvað þá sín eigin bein.   Hvað fékk þessi kona í morgunmat?  held að hún sé orðin kolkreisí, kannski útaf veðrinu.  Aníróds, það verður ekki hengdur þvottur á snúrur í dag.

Í vor datt okkur gömlu í hug að þetta væri sumarið sem við ætluðum að stunda tjaldútilegur.  Já tjaldútilegur, við sem eigum tjald, sem er svo smávaxið að þegar við tvö erum komin inn og ekki láta ykkur dreyma um að við getum staðið upprétt, hvað þá setið í stól, well, við tvö komin inn og svo bætum við gítarnum við, þá eru komin upp alvarleg húsnæðisvandræði.  Þegar við fórum í útileguna fyrir 2 árum síðan, þá vorum við eiginlega aðalskemmtiatriðið á svæðinu,  hópurinn sem við vorum með var frekar útileguvanari en við, þarna voru samankomnir hinir ýmsu ferðavagnar,  húsbílar, tjaldvagnar, fellihýsi heilu íbúðarhúsin úr tjalddúk.... og svo við.  Hópurinn er held ég ekki enn búinn að jafna sig á þessu fólki úr Garðabænum í litla tjaldinu og ekki gleyma aldrinum.  Ég held að það hafi enginn búist við að væið kæmumst út úr herlegheitunum.  Ég verð nú eiginlega að viðurkenna að ég var nú ekki mjög bjartsýn á að komast á lappir, en einhvernvegin reddaðist það.  Jæja, sökum smæðar heimilistjaldsins, þá ákváðum við að stækka við okkur.  Frúin skottaðist í Kost og keypti þar 4ja manna tjald hvorki meira né minna,  þá ættu bæði gítarinn og hundurinn að komast með. Og við horfðum fram á sumarið, um hverja helgi farið af stað í sól og blíðu, tjaldað á rómantískum stað, spilað golf á yndislegum golfvelli, borðaðar einhverjar grillsneiðar grillaðar á einnota grilli og almenn huggulegheit.  En hvað hefur orðið uppi á teningnum?   Tjaldið er hér í bílskúrnum ennþá í kassanum, við erum nú reyndar að hugsa um að tjalda því þar inni, bara svona til að sjá gripinn og enn hefur ekki viðrað til einnar einustu útilegu.  Það er nefnilega ekkert spennandi í mínum huga að sofa næstum undir berum himni í 7 stiga hita.  Neibb.  Og á meðan þá situr húsið okkar hérna, hlýtt og notalegt með þessu líka fína grilli á svölunum.  Það er reyndar fastsett ein útilega í júlí, með sama hópnum og hér í hitteðfyrra.  Ég hef verið að spuglera hvort sé hægt að hola sér einhversstaðar í bændagistingu eða eitthvað svoleiðis, en svo finnst mér eiginlega að ég verði að monta mig af nýju tjaldfjárfestingunni, þið vitið í þessum hóp sem fannst við vera þvílíkir lúserar og hlógu hátt og mikið að okkur og útilegubúnaði okkar.  Nú skulu þau ekki hlæja, nei o nei.

Ég er strax farin að hlakka til næsta sumars, það hlýtur að verða svo miklu betra en þetta, það getur amk ekki orðið leiðinlegra.

Þvottavélin að klára, en ég ekki að fara að hengja út.

óver and át, arríverdertsí.


26. og fúll er hann.

Við vorum nokkuð brattar ég og voffan í morgun, þegar við skunduðum af stað.  En þegar á túrinn leið var ég bara að spuglera í hvort ég myndi drukkna í rigningunni og voffan vildi bara heim.

Og upphefst nú mikið tuð.Devil   Hvað er gæinn á efstu hæðinni eiginlega að hugsa?  Er hann alveg orðinn snargalinn?  Ég meina það ef ætlunarverkið var að kippa okkur aftur í veruleikann, eftir undanfarin dásamleg sumur, well þá er það löngu áorkað.  Ég var næstum búin að gleyma sumrinu 84, þegar við ungu hjónin lögðum af stað í hringferðina með litla krílið okkar.  Þá rigndi svoleiðis að við, með tjaldið hennar Millu miðsystur í skottinu, ætluðum að dóla okkur, tjalda hér og þar og ef skyldi rigna, þá vorum við með plan um að gista á Eddu hótelum, en bara í neyð.  Welllllll,  við gistum fyrstu nóttina, hvar haldiði?  jú á Eddu hótelinu á Skógum.  Sem betur fer vorum við með vegahandbókina í farteskinu, því án hennar hefðum við ekkert vitað um náttúrufegurð landsins.  Jæja höldum áfram, höfðum hugsað okkur að gista í tjaldinu okkar á Höfn.  Við misstum algjörlega af Jökulsárlóninu,  þá sá bara ekki út úr augum, jú og þetta var í miðjum júlí krakkar mínir.  Þegar nær dró Höfn, vorum við búin að sjá að ekki var í boði að gista í tjaldinu með ungann.  Ekkert Eddu hótel á Höfn og alveg eins og þegar nafna mín þurfti á gistingu að halda fyrir nær 2000 árum síðan, þá var ekkert rúm á hótelinu svo það var ekkert annað að gera en að bruna á næsta Eddu hótel, sem var á Breiðdalsvík já börnin góð Breiðdalsvík og barnið 6 mánaða afturí.  Næst var stefnan tekin á Hallormsstað, þann unaðsstað.  Það var kannski ekki rigning þar en það var svo kalt að ekki var hægt að gista með barnið í tjaldi, júbb Eddan var það heillin.  En þar sem var þurrt þá ákváðum við að gista í 2 nætur.  Akureyri var næst á dagskrá,  ekki þurfti þar að reyna á snillii okkar við tjöldun svo aftur varð Eddan fyrir valinu.  Þegar þarna var komið sögu voru ungu hjónin orðin svo leið á þessu ferðalagi að ákveðið var að bruna bara heim og hana nú.  En þegar í Borgarfjörðinn var komið var hætt að rigna viti menn og ungu hjónin ákveða að tjalda í Munaðarnesi.  Svona var nú sumarið 84.

Ekki voru öryggismálin í bílferðinni stórkostleg.  Við vorum mjög ábyrgir foreldrar og keyptum okkur ólar til að festa burðarrúmið í bílinn......  ekki dettur nokkrum lifandi manni í hug að hafa barn óbundið í burðarrúmi í bíl.  Burðarrúmið, hefði kannski ekki farið neitt, en barnið hefði bara skoppað úr því, en í hringferðinni góðu höfðum við ábyrgu foreldrarnir farið til Gunnars Ásgeirssonar og keypt þennan líka fína bílstól og þá var ekki hægt að hafa bæði ólarnar fyrir burðarrúmið og bílstólinn og barnið þurfti að geta lagt sig.....  það var leyst snarlega.   Það var bara festur rafmagnsvír utan um burðarrúmið, get svo svarið það og enn vorum við sérstaklega ábyrgir ungir foreldrar.  Nú til dags, má alls ekki nota bílstóla á Íslandi, sem eru keyptir í Ameríku,  neibb þeir eru ekkert öruggir enda ekki með Evrópustimpil og það er svona "notist fyrir" dagsetning á þeim og eftir það hvað gerist þá?  Detta þeir í sundur?  æi má ekki vera einhver gullinn meðalvegur.

Þótt við gömlu séum ekki lengur ungir foreldrar þá erum við að spuglera í því að fara í tjaldútilegu um helgina.  Gamli sér samt ekki alveg fyrir sér hvernig frúin ætlar að meika að koma sér af stað af tjalddýnunni, en það verður bara að koma í ljós, hún er amk heppin að gamli getur tosað hana af stað.  En ég held að helsti áhrifavaldurinn verði gæinn á efstu hæðinni og hvort hann fer nú ekki að hætta þessari regn vitleysu. 

Eftir bjartsýniskast síðasta föstudags, þá held ég bara krakkar að sumarið verði svona sorry.  Halo

Hengi ekki út í dag, en dröslast bara í staðinn við að þrífa 


Sólríkur er hann sá tuttugasti og fimmti í röðinni

Ekkert annað að gera en að skottast út í langan túr.  Við voffan alveg himinlifandi yfir blíðunni og nú getur konan hengt út, svei mér þá.

Þegar við trítluðum meðfram Arnarnesvoginum, kom upp í hugann, hvað var skemmtilegt á góðu sumarkvöldi í fyrra að fá sér góðan göngutúr í litla kaffihúsið sem var við voginn.  Bara í litlum skúr og bara opið fimmtudags til laugardagskvöld.  Þetta gerðum við oft, við gömlu, föttuðum reyndar ekki að voffan hefði meira að segja verið velkomin, en okkur þótti þetta skemmtilegt.  En kaffihúsakonan fékk ekki að byggja,  "sumarhús" á lóðinni.  Þið vitið svona tilbúið hús, sem eru út um allar trissur.  Nei það passaði ekki inn í hugmyndir um svæðið.  Og þess vegna er ekkert kaffihús í bænum núna, við trítlum aldrei  á sumarkvöldi til að hlusta á tónlist, já hún var oft með tónlistarmenn að troða upp, fá okkur rauðvínstár eða kaffibolla.  Ég sakna þess.

En ég fór á annað kaffihús um daginn, bara rétt um hádegi að hitta frænku mína.  Gvöð hvað við vorum púkó.  Þarna sátum við eins og einhverjar hallærishænur og spjölluðum.  Við vorum algjörlega púkalegastar á svæðinu, þarna sat fólk í bunkum, annaðhvort önnum kafið við mikilvæg störf í tölvunni eða í símanum.  Og við sátum þarna eins og sauðir og spjölluðum.  Ég bara get ekki á mér heilli tekið hvað þetta var neyðarlegt og er satt best að segja pínu hissa að við skyldum ekki vera beðnar að yfirgefa staðinn svo stungum við í stúf.  Ég held að við verðum að endurskoða kaffihúsahefðir okkar og næst vera ekki svona sauðslegar og hafa með okkur tölvu og vera bara á tjattinu á feisbúkk.  Þá lúkkum við svo miklu betur.  Nei svona í alvöru, hvað er eiginlega í gangi?  Eru allir svona obboð önnum kafnir og mikilvægir að þeir hafi ekki stund til að fá sér hádegismat?  Mér finnst ég stundum eins og risaeðla að vera svona forn í hugsun, en mér finnst þetta bara svaka asnalegt.  Og hana nú.

Í blíðunni í morgun mættum við voffan alveg milljón kellingum á labbi,  við höfum sannast aldrei mætt eins mörgum kellingum á túrum okkar.  Hvaðan komu allar þessar kellingar?  spruttu þær uppúr öllum holum og skurðum?  tja er von að maður spyrji,  held að það sé sólinni að kenna.  

En svona í lokin.  Ég hef kenningu.....  ég hef þá kenningu að núna sé sumarið komið og það verði bongoblíða fram á haust og ekkert minna.

Farin að huga að þvottinum á snúrunni úti.

Tjá 


Númer 24 er hann þessi föstudagur

Og auðvitað erum ég og voffan búnar að skondrast út í morgun.  Veðrið, tja, veit ekki hvað skal segja, þungbúið, hvorki heitt eða kalt, dálítið afskiptalaust.  Voffan í miklum ham og ég takk fyrir bara góð og spugleraði ýmislegt.

Varð dálítið hugsi þegar ég las fyrirsögn áðan á DV.is, þar sem sagt er frá miðli í USAinu sem sagði til um fjöldagröf á landareign pars eins og þar lægu 25 til 30 sálir helst til börn.  Auðvitað komst þetta í fréttirnar og á netið og allt logaði, aumingjans fólkið, sem annars var bara sekt um að borða kannski óhollt á föstudögum, var útskúfað úr samfélaginu, hótað öllu illu og hvaðeina.  Þið fattið hvert ég er að fara?  Athugasemdakerfi netsins er alveg svakalegt.  Ég held svei mér þá að þar safnist saman allir þeir sem alla jafna ættu að hugsa 75 sinnum ráð sitt áður en þeir slá staf á lyklaborðið.  Þið munið nú líka eftir hundinum Lúkas, sem átti að hafa mætt skapara sínum eftir hræðilegar pyntingar.  Þar var nú aldeilis einn náungi nánast tekinn af lífi fyrir glæpinn, engu máli skipti þótt engar sakir finndust, jú hann drap Lúkas.  Kertafleyting á tjörninni og alles, allt til að minnast Lúkasar og hans hræðilegu píslargöngu.  En hvar var Lúkas á meðan?  jú hann var uppi í fjalli einhversstaðar.  Og fólki þótti bara ekkert svo skrítið að saka piltinn um gjörninginn.  Er ekki eitthvað verulega að?  Kommenta svo plís.....  er ég orðin kolkreisí.  Nú á ég á hættu að allir 13 lesendurnir mínir, já þið eruð orðnir 13, froðufelli, sendi haturs ahtugasemdir, ekki segja kommenta, yfir hvað ég ætti nú að halda kjafti og hætta þessu bulli og kannski lesa mér til í íslensku.  Woundering

Fyrsta golfmót sumarsins er í kvöld.  Af því tækifæri settist ég niður í gærkvöldi og horfði á US Open, gæti kannski pikkað upp eitt eða tvö trix.  Ég hafði ekki gert mér grein fyrir hvað margir koma að horfa á golfmót.  Ég hef nú farið á 2 stykki á PGA túrnum og veit að það er gomma af liði, en núna er US Open haldið á "litlum" velli þannig að það koma ekki nema kannski 30-40 þús manns á dag, já góðir hálsar á dag.  Þetta er fjögurra daga mót þannig að það er einhvers staðar á milli 120 og 160 þúsund manns sem leggja leið sína að líta kappana augum.   Ég á nú ekki von á svo mörgum áhorfendum á leik minn í kvöld, en svona til vonar og vara ætla ég að vera hugguleg til fara, pússa kylfurnar mínar, setja upp nýjan hanska og spila með nýrri kúlu.  Þið takið eftir að ég segi "nýrri kúlu"  ég ætla nefnilega að spila allan hringinn með sömu kúlunni, ætla ekki að vera eins og flón út um allar koppagrundir og týna kúlum hægri vinstri.  Ekki í kvöld.  En aftur að þeim köppum, sem ég ætla að reyna að herma eftir.  Þeir eru svo flinkir að hið hálfa væri svoleiðis miklu meira en nóg.  Það hefði nú verið enn meira gaman að horfa á ef hann Sam okkar í Highlands Reserve hefði náð í gegn.  Hann er bara 16 ára og var sorglega nálægt því að ná í gegn.  Hann Sam er bara nágranni okkar, systir hans, mamma, pabbi og hundspott eiga bara heima nánast í næsta húsi við okkur.  Hann er breti og Ian Poulter segir að hann sé sá allra besti sem hefur komið fram og ætti að vera helsta vonarstjarna þeirra Tjallana.  Hann spilar alltaf völlinn okkar í eftirmiðdaginn og ég var að lesa í gærkvöldi að völlurinn okkar var lengdur, bara fyrir hann, því hann er orðinn eiginlega of högglangur fyrir völlinn.  Það voru pabbi hans og tveir vinir pabbans, sem gerðu nýja teiga.  Æi mér finnst það svo krúttlegt, pínu eins og bara hérna á klakanum.  Pabbinn vill að stráksi spili heima og þá skokkar hann bara og spjallar við hann Matt og hviss bang, þeir sjóða saman hvernig á að gera og græja og pabbinn og vinirnir ganga í málið.  Frábært.

En ég þarf ekki svona langa teiga.  Mér duga bara þessir allra fremstu.  Flott í tauinu með nýja kúlu og nýjan hanska skunda ég út á völl og skal standa mig vel.

Þori varla að biðja um komment, en læt vaða.....   og kommenta svo

Óver and át 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband