Umferðarþankar

Nú er enn eitt bloggið að verða til.  Í dag er suddi úti, eiginlega ómögulegt verður, ekki kalt og ekki hlýtt, ekki vetur og ekki sumar.  En það er farið að birta maður minn, enda er vorið á næsta leiti.

Ég keyri á hverjum í morgni í vinnuna og hef gert svo árum skiptir.  Umferðin er ógurleg.  Ég hef þó tekið þann pól í hæðina að leggja af stað með hönum, eða eiginlega svo snemma að hanarnir eru ekki farnir að hugsa sér að opna augun.  Þannig afreka ég að keyra á eðlilegum tíma frá Hafnarfirði til höfuðstaðarins.  Ef ég er örlítið seinni, þá er geðheilsu minni mikil hætta búin, því umferðarþunginn er þvílíkur að túr sem alla jafna ætti að taka 10 - 15 mínútur tekur allt að klukkustund og það sér hver maður með mitt geðslag að það gengur ekki.  Ég hef svo margt skemmtilegra að gera í lífinu en að húka í bílnum mínum og hreyfast varla.  Ég hef heyrt suma segja að þeir njóti samverunnar við bílinn sinn í öngþveitinu, en ég trúi því ekki, obboð er líf þeirra leiðinlegt.

Svo eru það umferðarljósin.  Ég skil ekki hvað þau virðast flókin í notkun.  Síðast þegar ég vissi, þá átti að bruna af stað þegar græna ljósið kviknar og stoppa þegar það rauða lætur sjá sig.  Eitthvað vill það skolast til í höfðinu á mörgum ökumanninum.  Minni ykkur aftur á geðslag mitt.  Ég get alveg látið það fara töluvert í pirrurnar á mér, þegar græna ljósið kemur og ökumaður númer 1.....  lítur upp.....  leggur frá sér símann.....  setur í gír..... og drattast af stað.  Ég get svo svarið það að oft komast ekki nema kannski 3 bílar yfir á græna ljósinu.  Svo virðast margir halda að rauða ljósið sé einhverskonar vinsamleg ábending um að það ætti að fara að hugsa sér að bruna ekki yfir.  Það er varla undantekning heldur regla að þegar græna ljósið kviknar þá er einhver að leggja af stað hinum megin. 

Ég vildi að allir væru eins fullkomnir ökumenn og ég......

 


Áramótaheit

Ég setti mér eitt áramótaheit.....  ég ætla að blogga meira.  Ekki á hverjum degi, kannski einu sinni í viku, kannski aðeins sjaldnar.

Núna er 2 laugardagur ársins og úti er skítaveður.  Gengur á með hríð og almennum leiðindum.  Ég fór í morgungöngu í morgun, Ég var varla komin út fyrir hússins dyr, þegar ég var farin að sjá eftir að hafa ekki drifið mig í hlífðarbuxur, en fyrir mitt litla líf nennti ég ekki upp í brækurnar.  Túrinn var fínn, enda skemmtilegt að feta nýjar slóðir.

Árið byrjar fínt, fyrir utan veðrið, sem mætti vera betra.  Bíllinn minn ákvað að þurfa vera á verkstæði, enn einu sinni, yfir áramótin.  Mér og manninum á verkstæðinu, reiknast til að þessi bíll sé búinn að vera ca 40 sinnum á verkstæðinu á þessum tæpum 5 árum sem hann er búinn að vera á landinu.  Ég er næstum því hætt að kippa mér upp við hvað honum dettur í hug.  Það nýjasta var dálítið fyndið.  Jú á fullri ferð, áfram, verð ég að taka fram, fannst bílnum snjallræði að kveikja á bakkmyndavélinni, svo hann gerði það og ég sá bæði fram fyrir bílinn og svo líka allt sem gerðist fyrir aftan.  Góð hugmynd???  veit ekki en þessir stælar, ásamt nokkrum fleiri sem fylgdu í kjölfarið kostaði hann tæpar 3 vikur á verkstæðinu.  En hann er kominn heim og ég bíð spennt eftir hvað hann býður uppá næst.

Erum að skottast í leikhúsið á morgun með krakkakrýlin, það verður gaman og athyglisvert.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband