Hvernig á kona að snúa sér?

Sá fimmtugasti og fyrsti föstudagur ársins er runninn upp.  Ég er ekki búin að fara út fyrir hússins dyr en fyrir utan gluggann minn er fallegt, rólegt og frostlaust veður, sumsagt logn og blíða.

Hef dálítið verið að spuglera undanfarið en ég þori varla að impra á þessu, því þessu spuglasjón er um loftlags og mengunarumræðuna sem mér finnst oft á tíðum dálítið ofsafengin.  Fyrir einhverjum tugum ára síðan voru allir að fara á límingunum yfir spraybrúsa notkun, almáttugur ef virðuleg frú í vesturbænum leyfði sér að spraya hárlakki yfir lagninguna sína, þá hvarf stór partur af ósónlaginu sem verndar okkur fyrir einhverju, sem ég man ekki lengur hvað er.  Þetta var auðvitað mjög hvimleitt því þetta var akkurat á þeim tíma sem ALLIR notuðu hárlakk af miklum móð til að halda hárinu vindheldu.  En ekki vill maður grillast af einhverjum geimgeislum, svo ég hafði auðvitað miklar áhyggjur af þessu.  En viti menn ennþá erum við hér, enginn hefur heyrt minnst á gatið á ósónlaginu árum saman.  Svo man ég eftir pappírsnotkuninni það ætlaði allt um koll að keyra, oft heyrðist að ef kínverjar tæku upp á þeim ósóma að skeina sér, þá hyrfu allir skógar veraldar bara hviss bang og farnir.  Það mátti alls ekki nota allan þennan pappír, munið skógarnir hverfa og lausnin var að nota plast.  Hjúkket komin lausn, skógarnir hverfa ekki og halda áfram að búa til súrefni fyrir okkur að anda.  Ég þarf auðvitað ekki að minnast á alla umræðuna í dag og nenni því eiginlega ekki, en mér finnst næstum fyndið að það sé búið að mæla hvað prump úr beljum mengar mikið.  Prumpandi beljur eru algjörlega að koma okkur á heljarþröm ásamt auðvitað öllu hinu. Núna eigum við endilega að nota pappír, í staðinn fyrir plastið, sem við áttum endilega að nota í staðinn fyrir pappír munið þið eftir skógunum sem hverfa þá?  Ég veit ekki um neinn sem pælir í ósónlaginu þegar hann spreyar út og suður.  

Mér finnst að minnsta kosti óvinnandi vegur að fylgjast með þessu öllu það er algjörlega ómögulegt.  Kannski væri bara best að hoppa fram af svölunum,  æi nei það má ekki heldur, verður maður ekki að huga að menguninni sem yrði til á meðan skrokkurinn væri að hverfa.  Ó mig auma.

 


Bloggfærslur 20. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband