7.6.2008 | 15:08
Áfram um ferðalög
Jú ég er einlægur aðdáandi ferðalaga. Man fyrstu eftir fyrstu flugferðinni minni. Það var þegar bróðir minn var að læra flug og leyfði lillunni að koma með sér. Flugvélin var sú fallegasta sem ég hafði séð, eins hreyfils, blá og hvít. Þarna hef ég kannski verið 5 eða 6 ára gömul. Vá hvað var æðislega gaman. Ég man líka þegar ég var 11 og fór með mömmu að heimsækja flugbróður minn til Luxembourgar. Flugvélin var miklu miklu stærri, DC-8 frá Loftleiðum. Þá var flogið 3svar á dag til Luxembourgar hvorki meira né minna. Mamma varði löngum tíma fyrir ferðalagið að sauma á mig föt til ferðarinnar og þá ekki síst ferðafötin. Þau voru sko flott, bleikar flauels stuttbuxur og sítt vesti. Ég var sú fyrsta í mínum bekk að ferðast til útlanda. Þá var ekkert talað um hvort væri þröngt eða ekki þröngt í vélinni þetta var tær luxus og upplifun. Ég er nú svo skrítin að ennþá þykja mér ferðalög upplifun. Fríin mín byrja í Leifsstöð, ég fæ alltaf skrítin fiðring í magann þegar ég kem þangað, jafnvel þótt ferðalögunum hafi fjölgað umtalsvert.
Í gamla daga var spurt eftir ferðalagið hvað hefði verið í matinn og hvað flugvélin hafi heitið. Það spyr enginn að þessu í dag, maturinn er nú ekkert til að hrópa húrra fyrir og enginn hefur áhuga á hvort flugvélin heitir eitthvað. Frekar er spurt hvað ég hafi þurft að borga fyrir ferðina.
Núna eru öll flugfélög að leita leiða til að fá fleiri aura í kassann. Mér fannst eiginlega bráðfyndin hugmynd frá annað hvort EasyJet eða RyanAir. Það á að fara að kosta að fara á klóið. Það þarf reyndar ekki að borga til að komast inná dolluna, nei ó nei það þarf að borga til að komast út. Ó mæ god, maður gleymir buddunni eða á ekki rétt klink og er þá bara pikkfastur á kamrinum og vonar bara að fari ekki fyrir manni eins og konunni sem sogaðist föst við klóið í flugvélinni og þurfti að dúsa þar í 5 tíma, en það var nú líka í Ameríku. American Airlines ætla að rukka $15 fyrir hverja tösku sem maður tékkar inn hjá þeim, ég ætla sko ekki að fljúga með þeim eftir verslunartúr westur til USA.
Þótt mér þyki ekkert sérstaklega gaman að sitja um borð í flugvél þá þykir mér flug alltaf mjög spennandi og frábær ferðamáti, maður getur ferðast heimsálfa á milli á aðeins dagsparti, frábært. Ég ætla sko að nýta mér þennan luxus vel og mikið og vona bara að ég þurfi ekki að borga heil ósköp fyrir. Ef ég þarf að borga minna, þá fer ég bara oftar þannig að flugfélagið fær alveg jafn mikið út úr mér, ferðasjúklingnum.
Og svona í endann, afhverju þarf endilega að gefa manni að éta í flugvél?
Athugasemdir
Frábær nostalgia - frábær pistill. Rétt hjá þér, þetta er alltaf einhverskonar galdur - Jú og túrinn er byrjaður í Leifstöð. Þeirri al-Islenzku sérstöðu verður að viðhalda. Keep-on-trucking.. Klux
Klux (IP-tala skráð) 7.6.2008 kl. 20:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.