Föstudagur númer 12 upprunninn

Við voffan skokkuðum glaðar út í morgun morguninn svo bjartur og fagur.  Held að voffan sé búin að gleyma lífinu fyrir "skerminn"  .´

Ég átti afmæli í vikunni.  Svo sem ekkert um það að segja, nema við þau merku tímamót fékk ég tak í hálsinn.  Kannski ekkert skrítið við að kona á "mínum aldri" fái tak í hálsinn.  En þessi kona, þ.e. ég nenni ekki að vera með tak í hálsinum, svo einhvernveginn fékk ég þá flugu í höfuðið að fara til doksa og fá beiðni til sjúkraþjálfara og losa mig við þetta í einum logandi grænum.  Ekki halda að þetta sé einhvert brjálæði í mér, ég nefnilega veit að þetta fer bara ekki si svona af sjálfu sér, hef nú aflað mér þeirrar reynslu áður.  Nema hvað, ég byrja morgnana á því að hringja í heilsugæsluna.  Neibb, enginn tími til í dag, nema í eftirmiðdagstímana, sem kosta hvítuna úr augunum á manni, "en reyndu endilega aftur í fyrramálið".  Daginn eftir:  Ég hringi.  Neibbs enginn tími til og ekki lagast hálsinn.  Ok, ég dey ekki ráðalaus, þykist nú svo sem ekkert þurfa að hitta doktorinn, gæti hæglega sent henni í-meil, það er jú í fælnum mínum að ég hef fengið þennan kvilla áður, reyndar fyrir löngu, en bíttar það einhverju?  Neeeeeeei, þú færð ekki beinan aðgang að netfangi virðulegs doktorsins.  Hvað er þetta eiginlega?  Ef læknislufsan vill ekki tala við mig með í-meil, getur hún þá ekki bara eytt póstinum mínum?  ég fæ mjög reglulega pósta sem ég vil eiginlega ekki fá og eyði þeim bara með einum snyrtilegum smelli.  En ég fékk netfang heilsugæslunnar.  Hm hm  einhver ætlar sem sagt að sigta út það sem virðulegur læknirinn má sjá.  Hvað er í gangi, eru doktorarnir svona langt yfir mig hafnir?   Mín orðin pínu pirruð á þessu öllu saman, þegar ég fæ vélrænt svar frá heilsugæslunni.....  neibb auðvitað afgreiða þeir ekki beiðnir svona yfir internetið.  OK, get svosem skilið það, en kvillinn er í fælnum mínum, ég fór síðast til sjúkraþjálfara fyrir ca 7 árum, svo ekki er ég að ofnýta þeirra þjónustu og síðast en ekki síst ÉG NÆ EKKI Í DOKTORINN.  Það er verulega farið að fjúka í mína.  Ég bara dríf mig af stað og fæ tíma hjá sjúkraþjálfaranum.  Hringi kl. 8:02 í heilsugæsluna, svona rétt áður en við voffan drifum okkur út í morgunblíðuna, og viti menn, ég næ í gegn  jibbbbbbííííí.  Ég bið um símtal við lækninn.  

Þegar þjálfi er byrjaður að kvelja mig, hringir langtyfirmighafni doktorinn....  neibb, ég fæ ekki beiðni hún verður að sjá mig fyrst, en bara smá vandamál, hún á ekki tíma fyrr en 2.apríl !!!!  Þetta er nú að verða fyndið.  Ég ætla að vera búin að ná þessu úr hálsinum á mér 2. apríl takk fyrir kærlega.  2.apríl, ég næstum spurði   hvaða ár?  svo fáránlegt var þetta.  

Svo tala þeir í útvarpinu um og dásama heilsugæsluna.  Þegar maður er kominn á minn aldur og þarf hugsanlega að fara að nýta sér þjónustuna, þá held ég bara að sé ágætt að eiga tíma amk einu sinni í mánuði, þá er maður nokk klár að það er ekki svo langt í næsta tíma ef eitthvað bjátar á.  Ég dásama amk ekki heilsugæsluna, því þetta er alltaf sama sagan ef maður þarf á henni að halda.  Ef ég þarf ekki aðstoð pronto, þá panta ég tíma, því ég veit af reynslunni að ég fæ ekki tíma fyrr en amk í næstu viku.  En ef ég þarf aðstoð pronto,  ja þá er ég eiginlega algjörlega fxxxxd eins og staðan er í heilsugæslunni minni.

Updeit næsta föstudag. 

 


Ellefti föstudagurinn er mættur.

Þegar við voffan brugðum okkur út í morgun, var alveg yndislegt, alveg orðið bjart og veðrið yndislegt.  Núna veit ég nokk hvað voffan var að spá, hún var örugglega að spá í hvenær hún losnaði við þennan fúla skerm um hálsinn.  En særð voffa verður að vera með skerm og ekkert múður.

Hvað ég var að spuglera, ja hvað skyldi það nú hafa verið?  Voða lítið, var bara að njóta blíðunnar og hlakka til helgarinnar.

Nýr páfi var kosinn.  Og ekki er hann í yngri kantinum.  Er ekki maðurinn 78 ára?  Er ég sún eina, sem þykir þetta dálítið skrítið að velja mann, sem fyrir löngu ætti að vera hættur að vinna,  fær kallanginn aldrei að fara á eftirlaun?  Spáið í það að vera að byrja í nýrri vinnu á þessum aldri og ekki bara einhverri venjulegri vinnu,  neibb maðurinn er páfinn.  Kallanginn, var kannski farinn að hlakka til að vakna bara í rólegheitum á morgnana og þurfa ekki að drösla sér í vinnuna.  Neits ekki þessi náungi.  Hann ætlar á gamalsaldri að vera páfi, alla malla ekkert afslappelsi á þeim bænum.  Hver segir svo að fullorðið fólk geti ekki fengið vinnu.

Það er ekki lengur neitt að þvælast fyrir mér löngun til að ferðast til Tyrklands.  Nei o nei, ég ætla sko ekki að ónáða þá með nærveru minni.  Er að spá í aumingja manninn, sem keypti grjótið og lenti í grjótinu fyrir.  Hverskonar fararstjóri var í þessari hópferð?  Ég man þegar við gömlu brugðum okkur til Kúbu fyrir nokkuð löngu síðan.  Þá fengum við nákvæmar leiðbeiningar varðandi, hvað við máttum fara með úr landi og af hverjum við máttum kaupa.  Ekkert flókið þar.  En aftur að Tyrklandi, spáið í það, að kaupa grjót og ekki dettur manni í hug að það sé verið að selja einhverjar stórmerkilegar fornmynjar bara si svona úti á götu og svo bara hviss bang og svo það næsta sem maður veit er maður lentur í grjótinu og læst á eftir manni.  Nei held að ég haldi mig algjörlega fjarri þessu landi.

 


Sá 10 mættur, bjartur og fagur

Í morgun þegar við voffan skokkuðum af stað, önnur ennþá pínu marin, þá var yndislega bjart og yndislegt veður.

Vikan hefur aldeilis verið sérstök.  Fengum heimsókn á þriðjudagskvöldið, frá ungum frænda, sem hefur ekki komið til Íslands í 9 ár.  Hann var dálítið hissa á snjóleysinu og ég eyddi dágóðum tíma í að segja honum að svona væri hinn hefðbundni vetur á höfuðborgarsvæðinu.  Hann hefði bara verið óheppinn þegar hann kom hingað sem krakki, því hann mundi eftir öllu á bólakafi í snjó.  Ég var bara nokk sannfærandi og pilturinn fór frá okkur með nýja mynd af landinu í huganum.  Á miðvikudaginn, já á miðvikudagsmorgun, var þessi ungi piltur á leið aftur úr landi.  Hann sofnaði með nýju vetrarmyndina frá mér í huganum en hvað gerðist?  Veðurguðrinir gerðu mig að fífli big tæm.  Þegar pilturinn vaknaði sást varla út um gluggann fyrir hríðinni.  Ferðafélagarnir komust við illan leik til Keflavíkur.  Og mér leið pínu eins og flóni....  vetur á Íslandi mæ ass.  Það sem ég get lært af þessu, er að vera ekki að blaðra of mikið um íslenska vetur amk ekki um hávetur og staðsett á Íslandi.  

Farin að þrífa, óver and át. 


Níundi föstudagurinn fokinn í hlað.

Við voffan fórum auðvitað í reglulegan túr í morgun.   Og núna er eiginlega orðið alveg bjart, yndislegt. Hvað við spugleruðum ákváðum við að láta ekki uppi.

En mér þykir eitt dálítið skrítið.  Við voffan förum á hverjum einasta degi í túr eins og þið allir mínir tryggu 5 lesendur vitið.  Og við höfum vanið okkur á að fara í langan langan túr á föstudögum.  Getur einhver af ykkur 5 getið uppá hvað ég er að fara?  Munið kannski síðasta föstudag.....  þá var suddi.  Í morgun var eiginlega suddi á sterum.    Báðar, ég og voffan erum hraustar og látum auðvitað ekki smá sudda hrekkja okkur.  En alla vikuna er búin að vera þvílík blíða að við bara næstum munum ekki eftir öðru eins í lok febrúar.  Svo kemur föstudagurinn, með langa túrnum og þá er ekki hundi út sigandi, sorry voffa, en ég sigaði bæði hundi og konu út.  Og þá komum við að öðru hjartans máli hjá okkur voffu.  Ég auðvitað þarf að þjálfa voffuna betur í að velja staði til að kúka á.  Því oftar en ekki kúkar hún á kolvitlausum stöðum.  Hún kúkar þar sem er lengst í næsta rusladall og ég eins og sauður í hressingargöngu með kúk í poka.  Komm on, það er ekki hæfandi virðulegri konu á mínum aldri að spássera úti með hefðarhund og kúk í poka.  Þetta sér auðvitað hver hálf heilvita maður.  Eins og í morgun.  Þá ákvað hún að kúka, bæ ðe vei í þriðja skiptið í túrnum, rétt við Sjálandsskólann.  Þar rétt hjá er skilti þar sem auglýstir eru allir fuglar sem einhverntíman hafa hætt sér nálægt Arnarnesvoginum.  Þar eru við hundaeigendur líka minntir á að lausaganga hunda er bönnuð, tékka á voffu, við erum pikkfastar saman og við erum líka minnt á að taka kúkinn með okkur í poka........  !!!!!!  Þarna stóð ég akkurat, með hund í bandi og kúk í poka.   Mér hefði þótt eitursnjallt að hafa þarna við skiltið staur með rusladalli.  Neibb þarna var enginn staur með rusladalli, svo ég hélt áfram túrnum með hundinn og kúkinn í pokanum.  Ég þrammaði í gegnum allt Sjálandshverfið og bað til guðs að ég mætti ekki neinum sem ég þekki, mér þykir þessi kúkaburður ekkert smart og viti menn það var rusladallur þegar ég var komin í gegnum hverfið.  Ég er búin að venja mig á að, þegar ég geng í gegnum íbúðarhverfi, þá læðist ég að ruslatunnum við eitthvert hús og læði kúkapokanum í tunnuna, drullunervös að íbúi viðkomandi húss, komi akkurat út og nappi mig.  En það eru engar tunnur sjáanlegar í Sjálandinu svo ég verð bara að gjöra svo vel að trítla eins og bjáni með kúk í poka.  Djísús það er ekki lekkert.  Verð nú samt að benda á að afurðirnar hennar voffu minnar eru algjörlega mini þar sem hún er eiginlega mini voffi, ekki vildi ég dröslast um með afurðir tja segum labradors alla þá leið sem ég dröslast með pokann minn.  Ætti ég ekki bara að skrifa bænum snyrtilegt bréf og benda þeim á þetta smáræði?

Tjá 


Þeir hrúgast inn, föstudagur númer 8 mættur á svæðið.

Það má eiginlega segja að þegar við voffan skokkuðum út í morgun, þá var hálfbjart.  Ef ekki hefði verið svona þungbúið og eiginlega suddi, þá hefði bara verið orðið nokk bjart.  Voffan spugleraði mikið í ferðum annarra voffa, enda farin algjörlega ný leið.  Ég bara spugleraði hvað ég ætti að segja hérna.

Ég sá viðtal í fréttunum í gærkvöldi viðtal við einhverja konu sem ég held alveg örugglega eigi sæti í íþrótta og tómstundaráði Reykjavíkur.  Hún var að tala um þvílík ósköp væri að RVK væri að styrkja börn í að stunda súlu fitness.  Fannst mér þarna komið kýrskýrt dæmi um hvað er hægt að gera mikið rugl úr engu.  Hélt konan í alvöru að súlu fitness snérist um það að þjálfa strippara?  Ég þurfti eiginlega að hætta að gúffa í mig matnum, svo hissa var ég.  Eru súlur ekki til neins annars nýtilegar en að þjálfa strippara?  Ég hef séð í mörgum bíómyndum senur frá slökkvistöðum þar sem súlur eru notaðar til að komast snarlega milli hæða.  Kannski eru slökkviliðsmennirnir að láta sig dreyma um feril sem strippara ha ?  Ég man líka þegar ég var obboð lítið stelpukorn og "nýja" slökkvistöðin í Skógarhlíðinni var vígð,  ég held að það hafi verið nálægt 1966 þá var þessi líka fína súla á milli hæða.  Obbosí, voru þeir kallarnir á vaktinni hans pabba að æfa sig í strippdansi?  Æi kannski er ég bara svona leiðinleg en mér finnast svona umræður svo forpokaðar og lýsa frekar vanköntum þeirra sem láta sér detta svona í hug.  Mér finnst amk að konukrílið ætti að fagna því að ungingar vilji stunda líkamsrækt.  Ég veit að súlu fitness er sko ekkert auðveld  og algjörlega frábær leið til að komast í fantaform.  Eins og þegar ég las um daginn í blaðinu um að Kardimommubærinn væri allt í einu orðin hornsteiinninn að kvenfyrirlitningu og Dýrin í Hálsaskógi engu betri.  Hvað er eiginlega í gangi?  En sú sem þar talaði gleymdi alveg að tala um Karíus og Baktus, þar var alls engin kvenmaður í munninum á honum Jens,  er það allt í lagi þegar þeir kumpánar voru bara vondir og gerðu bara ljótt?  Tja ég bara spyr.

Jæja búið með þetta.

Annað datt mér í hug í suddanum í morgun.

Eins og þið vitið, sem þekkja mig, þá vann ég í yndislegri búð í milljón ár.  Ég hef mikinn áhuga á þjónustustigi verslana og er obboðslega gagnrýnin á búðarfólk.  Ég verð obboð pirruð ef ég get ráfað um í verslun án þess að nokkur svo mikið sem virði mig viðlits og eins verð ég líka voða fúl ef ég er elt á röndum eins og búist sé við að ég sé að stela.

En aníróds, ég fór í Smáralindina í gær.  Ég fór í ákveðnum erindagjöðum.  Ég var að leita mér að flík, undirflík, sem mér datt helst í hug að fengist í Hagkaupum eða Debenhams.  Mig minnti reyndar að það væri sérstök undirfataverslun í Smáralindinni, en ég fann hana amk ekki.  Ég lagði bílnum í endanum við Debenhans og byrjaði því leiðangurinn þar.  Ég  lagði leið mína í undirfatadeildina.  Það voru nokkrir starfsmenn þar, flestir bara að ráfa um eða raða á slár.  Þarna var ég ræfillinn, tilbúin að eyða krónunum mínum þarna ef rétt flík fengist.  Við skulum ekki gleyma sérvisku minni varðandi búðarfólk, ég vil alls ekki ganga á eftir þeim og biðja þau um að aðstoða mig, þau eru í búðinni til að gera mér lífið gott og aðstoða mig.  En þarna sá sig enginn knúin til að bjóða mér aðstoð sína, þrátt fyrir að ég labbaði nokkra hringi og ég var nokk örugglega að leita að einhverju.  Og hvað gerði ég?  ég fann ekki sjálf það sem ég var að leita að, svo ég fór út með aurana mína pikkfasta á kreditkortinu mínu.  Reyndar á leiðinni kom ég við í snyrtivörudeildinni hjá Mac.  Um leið og ég kom inn fyrir básinn þeirra, kom þessi ljúfa stúlka og bauð mér aðstoð sína og meira segja sagði uppáhalds setningu allra búðarspegulanta.  Hún sagði orðrétt:  góðan daginn, HVERNIG get ég aðstoðað þig.  Þarna gaf hún mér ekki einu sinni færi á að segja NEI, sem er svo hræðilega auðveltl, þegar maður er spurður  GET ég aðstoðað.  Hún fær 10 þessi stúlka.  Jæja, ennþá með fulla trú á islensku verslunarfólki, þá sprangaði ég yfir í Hagkaup og beint í nærfatadeildina.  Þar var nú ekki nokkur sála við vinnu svo ég ráfaði þar óáreitt um í dágóða stund í leit að flíkinni góðu.  Ég reyndar sá ekki neinn starfsmann, fyrr en ég kom í skódeildina, þar sem ég var nokkuð klár að flíkin mín fengist ekki.  Skamm skamm verslunarfólk......  Ég fór sumsagt heim án flíkarinnar sem ég svo sannarlega var komin til að kaupa.  Ætli ég kaupi hana ekki bara í Ameríkunni þegar ég fer þangað næst.

Hlakka til að sjá hvað margir lesa þessar hugleiðingar mínar í dag.  Síðasta föstudag voru það 5 sálir.  Ég er bara obboð ánægð með það. 


Jibbí, föstudagur númer sjö.

Þegar við voffan skokkuðum út í morgun, var bara orðið yndislega bjart, eða þannig,  ekki skellibjart, en það birtir og birtir.

Við voffan höfum farið í okkar daglegu göngutúra í rúmlega 8 ár.  Ég held að ég sé að fara með hana til að hún geti sinnt sínum frumþörfum.  Eða er það þannig?  

Hver fer með hvern?  Þegar ég spái betur í málið, er það kannski voffan sem fer með mig á hverjum morgni?  Ef henni þykir ég vera sein í að drösla mér af stað, þá rekur hún á eftir mér,  það er engin miskun hjá minni.  Það er hún sem hefur dregið mig af stað á hverjum morgni.  Aldrei hefði mér í lífinu dottið í hug að fara í gönguferð fyrir 8 á hverjum morgni.   Er ansi hrædd um að mínir nánustu hefðu látið loka mig inni ef ég hefði tekið upp á þeirri vitleysu.  Jú ég held í bandið og voffan er á hinum endanum.  En hún er oftast á undan mér.....  hver er þá með hvern í bandi?  

 Var bara að spá 


Sjötti föstudagurinn kominn.

Og í morgun var svo sannarlega farið að birta þegar ég og voffan skokkuðum út í hálfmyrkrið.  Dálítið var kalt, en voffan var hugrökk og lét sig hafa það.

Ég hef lengi verið einlægur aðdáandi skrítinna fyrirsagna í blöðunum.  Í gær var ein, sem kom mér til að brosa.  Ekki út af innihaldinu heldur af hvað mér fannst fyrirsögnin klaufaleg.  Þetta var semsagt á visir.is og fyrirsögnin var svona:   "Blindir rekst á hindranir í háskóla" .  Í guðanna bænum ekki misskilja mig.  Innihald fréttarinnar fannst mér ekkert í samhengi við það sem ég las í fyrirsögninni.  Í ruglaða hausnum á mér, sá ég bara haug af blindu fólki uppí háskóla, ráfandi um og rekandi sig utan í húsgögn og allt annað sem hægt var að rekast á.  Ég er eiginlega alveg viss um að blaðamaðurinn hefði mátt orða fyrirsögnina heppilegar.

Fyrir mörgum árum var ein sem er í miklu uppáhaldi hjá mér:  "allir að skilja í Flóanum".  Vá, hvað er í gangi í hjónaböndum í Flóanum?  Hvað gerðist eiginega á þorrablótinu hjá þeim?  en þegar ég las lengra þá kom í ljós að eitthvað var þess valdandi að kúabændur voru farnir að skilja mjólkina heima á bæjunum,  semsagt þorrablótið alveg í húrrandi lagi og hjónaböndin í Flóanum jafn traust og fín og hvar annarsstaðar á landinu.  

Nú er ég komin á flug.  Vinkona mín var algjörlega undarleg á svipin þegar hún las eitt, já eitt orð í fyrirsögn,  hún skildi bara alls ekki orðið  "ístru-flanir"  hvað er eiginlega "flanir"?  hún stóð algjörlega á gati svo hún las áfram og komst þá að hvað var eiginlega í gangi, en það voru "ís-truflanir" sem voru að stríða virkjunum uppí óbyggðum.  

Jæja dagurinn bíður, brjálað að gera hjá frúnni, á löns deit með ljúfri vinkonu, svo ýmislegt að bardúsa áður en ég hef tíma til að hafa mig til fyrir þorrablótið í kvöld.  Jú frúin, sem borðar ekki þorramat, er að fara á þorrablót númer 2 á þessum þorra og svo eru Blues tónleikar annað kvöld.  Þá verður nú gaman.  

Tjá 


Föstudagur númer fimm er mættur.

Og við voffan búnar að virða fyrir okkur morguninn. Í morgun var svo sannarlega farið að birta þegar við vorum í spássitúrnum okkar.

Og þvílík vika er þetta búin að vera. Æsseif vonandi loksins búið. Steingrímur orðinn eins og Ragnar Reykás, ekki að það sé nokkuð nýtt, forsetinn segir ekki baun. Allir fagna og allir þykjast hafa haft rétt fyrir sér, þrátt fyrir alla samninga bla bla bla. Ég er bara nokkuð kát með að loksins sé komið á hreint að ég skuldaði ekki þessum Bretum og Hollendingum baun, ég nefnilega man bara alls ekki eftir þvi að hafa fengið krónu eða evru að láni hjá nokkrum manni hinum megin við hafið.

Það er eiginlega dálítið fyndið að fylgjast með þessu fólki við Austurvöllinn. Jafnvel þeir sem voru algjörlega á móti því að fara með æsseifið fyrir dómstóla, berja sér á brjóst og reyna að gera sig að hetjum málsins. Mér finnst tími til kominn að gera bara sirka einn sjónvarpsþátt, þar sem sýnd eru ummæti hinna og þessara þegar æsseifið var að gleypa okkur öll. Munið það komu ekki tvær kerlingar eða karlar saman án þess að æsseifið væri krufið til mergjar. Konum var hent út úr búðum á Strikinu í Köben, Bretar hreyttu ónotum í "alla" ferðamenn og allir Hollendingar hötuðu okkur. En núna er loksins komið í ljós að kaupmaðurinn á Strikinu var bara fól, Bretarnir kannski búnir að fá sér einum of marga pænta á kránni og Hollendingarnir bara súrir út af einhverju öðru. Við höfðum rétt fyrir okkur.

Þetta finnst mér að minnsta kosti.


Fjórði föstudagurinn

Er mættur og það er bóndadagurinn. Við voffan búnar að spássera, stundum rann nú frúin reyndar á svellinu, má kannski segja að frúin hafi verið eins og belja á svelli :)

Bóndadagurinn er í dag  Til hamingju með daginn allir karlar í landinu.  Ég er á leiðinni á þorrablót í kvöld og ætla að nota tækifærið og knúsa sem flesta karla...

Jæja, nenni þessu ekki.  Er farin að þrífa.

Skemmtið ykkur öll vel í kvöld, sem eruð að fara á þorrablót.  Farið varlega á svellinu, ekki viljið þið enda á slysó.  Ég ætla amk að reyna að vera skynsöm.  Fer í sléttbotna til að geta dansað endalaust og hugsanlega þrammað heim.

sí jú 

 

 


Jebb þriðji föstudagurinn.....

Hann er kominn, þriðji föstudagur ársins.
Við voffan hentumst út í morgun, úff fukum eiginlega, en við erum hraustar ég og voffan og við skiluðum okkar labbitúr með sóma.

Við spugleruðum eiginlega ekki baun, eða kannski bara fauk spuglerið út í rokið.

En í gær var ég að spuglera....
Öll tæknin í dag, öll tæknin og tólin heima hjá okkur mæ god.
Ég man nú, o boj nú tala ég eins og fornmaðurinn. Nei ég er ekki alin upp í torfbæ, ég er alin upp í Bústaðahverfinu á seinni hluta síðustu aldar.
Well aníród, ég var að spuglera, ég man þegar ég var stelpa, hann Bergsteinn átti reiknivél, já maðurinn átti reiknivél. Ekki bara uppá punt, nei hann vann á skrissu niðri í bæ og þurfti stundum að vinna heima og hafði sumsagt reiknivél heima við. Og ég fékk oft oft oft að reikna, vá hvað það var gaman. Ég man líka að ég fékk stundum að heimsækja hann á skrissuna niðrí bæ og þar var önnur reiknivél og svo kom rafmagnsritvél. Það kom IBM kúluritvél, get svo svarið það. Og ég fékk að prufa. Og ég prufaði svo mikið að ég ruddi út úr mér heilum sögubálki um hann Grilla grís. Ég man líka þegar ég fór í gaggó, var á stundaskránni "vélritun". Vá, þá var keypt þessi fína ritvél, sem ég fór með í skólann þá daga sem var vélritun. Ég pikkaði og pikkaði, lærði eiginlega kennslubók í vélritun eftir Þórunni Felixdóttur utan af, átti spjald, sem sýndi fingrasetningu og allt.

Ég var sumsagt að spuglera í þessu, þegar maðurinn var að koma nýja sjónvarpinu mínu í samband við alheiminn, því ekki réðum við gömlu við það verkefni. Þið vitið, hvar á að tengja hvað. Allar þessar snúrur eru nóg til að koma manni algjörlega yfir strikið. Já sjónvarpið kemst á netið, get svo svarið það. Ekki komst gamla SABA lampa sjónvarpið sem var heima í samband við netið, úff reyndar var netið ekki til þá, en samt komst SABA sjónvarpið varla í samband við loftnetið, en það var sko hægt að horfa á það. Og það var í svart hvítu.

Núna getur varla nokkur maður dregið andann, nema eiga sína prívat fartölvu og helst líka spjald tölvu. Það er varla nokkur maður svo púkó núna að stíga um borð í flugvél með sína prívat fartölvu, hún er nefnilega svo þung þá er nú betra að vera með spjaldtölvuna. Rosa var Brother ritvélin mín flott á sínum tíma, en að rogast með hana uppí Réttó, vá hún var þung.

Núna er ég að komast í flokk með alvöru fólki, því ég á "smart" sjónvarp, komst reyndar að því að sjónvarpið er smartara en ég en það verður einhver að vera "smart" á heimilinu. Og ég á mína prívat fartölvu, þá vantar mig bara spjaldtölvu til að leika mér við og bæ ðe vei ég held ég verði að fara að eignast "smart" síma. Minn er að verða afspyrnu púkó.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband