Annar föstudagur ársins.....

upprunninn og ennþá er myrkur úti.
Við voffan búnar að viðra okkur og hugsa málin. Ég reyndar veit ekki hvað voffan var að spuglera, kannski bara eins og vanalega, hvaða voffi hafi verið hvar á undan..... hvur veit.

En ég var að spuglera. Rétt eftir áramótin, tók ég þá ákvörðun að hvíla mig á feisbúkkinu. Mér fannst ég fá allt of miklar upplýsingar um ekki neitt, mér er nokk sama hvað hver hefur í kvölmatinn, hvenær einhver fer í ræktina, hvenær einhver klórar sér í hausnum og hvenær einhver mokar stéttina hjá sér. Og þá var ekkert annað í stöðunni en að taka sér frí, sem ég og gerði.
Ég áttaði mig líka á því að með því að loka feisbúkkinu og þar af leiðandi ekki birta bloggin mín þar, þá auðvitað les enginn það sem ég set hér niður. En er það ekki markmiðið með bloggi að einhver lesi það? Jú væntanlega. En ég hef ákveðið að líta öðruvísi á málið. Hér ætla ég að setja niður það sem mig langar. Og það sem mig langar, langar mig sjálfa kannski að lesa einhverntíman seinna. En ef einhver vill lesa og ef einhver hefur gaman af, þá er það ennþá skemmtilegra. Og skemmtilegast ef einhver skrifar athugasemdir.
Reyndar man ég þegar ég fyrst byrjaði að blogga og leyfði mér að blogga um hugmyndir um að farþegar í yfirvigt þyrftu að borga extra. Þá fékk ég aldeilis á baukinn. Ein athugasemdin var eins og í áramótaskaupinu "djöfull ertu grunnhyggin" og "Djöfullin hafi það! ef þú höndlar ekki að sitja hjá feitu fólki skaltu bara halda þig heima hjá þér!" Þessar athugasemdir voru báðar frá sömu ljúfu stúlkunni, sem bæ ðe vei, ég þekki ekki baun.

Well ætti ég ekki að hætta þessu þrasi það er að byrja að birta fyrir utan gluggann minn og ég bara í nokkuð góðu stuði.

Og svo enginn sakni feisbúkk statusa þá ætla ég að hafa fisk í matinn í kvöld, hvur veit nema ég skottist smá í ræktina, en það þarf ekki að moka stéttina.

Heyrumst.


Fyrsti föstudagur ársins.

Er ekki við hæfi að blogga á þessum fína morgni. Fyrsti föstudagur ársins 2013 runninn upp. Ennþá er myrkur, enda er bara 4. janúar, svo ekki er von á sólinni alveg strax.

Ég og voffan fórum í daglegan göngutúr í morgun, sem er auðvitað ekki í frásögur færandi, dálítið langan göngutúr, svo það var góður tími til að hugsa ýmislegt. Og hvað gat ég látið mér detta í hug?

Jú fyrst af öllu, þá kúkaði (skjús mí) voffan og ég tók afurðina snyrtilega uppí bláa pokann. Þetta var á göngustígnum meðfram sjónum okkar hérna í Garðabænum. Fór svo að skima eftir rusladalli, til að losa mig við pokann. Við löbbuðum og við löbbuðum og alltaf var ég með bláa pokann í hendinni, því enginn rusladallur varð á vegi okkar. þegar við vorum búnar að ganga dágóðan spöl og þá er ég að tala um örugglega rúman kílómetra, hafði enginn rusladallur orðið á vegi okkar. Skamm skamm Garðabær. Mér er nú kannski ekki vorkunn að halda á þessu lítilræði sem frá minni voffu kemur, en þeir sem eru stærri, skila stærri stykkjum og vitið ég næstum skil að þeir nenni ekki að taka upp eftir sína voffa gegn því að halda á afurðinni, tja í langan langan tíma. Kannski skrifa ég bænum.

Annað sem kom upp í hugann. Ég man þegar ég var lítil stelpa. Hvursu langt er síðan það var, skiptir engu máli. Ég man þegar færðin var eins og hún er búin að vera undanfarna daga, svell og blautt ofan á því. Ég man þegar ég var að labba í skólann, því ekki var mér skutlað, nei o nei. Ég man hvað var erfitt að fóta sig. Auðvitað var ég í gúmmístígvélum og ullarsokkum. Gúmmístígvél eru nú ekki besta skótauið til að notast við í hálku, en klakinn var blautur og þá var ekki um annað að ræða. Mig minnir meira að segja að það hafi verið smá gat á öðru stígvélinu. Ég man þegar ég var kominn yfir hitaveitustokkinn og horfði yfir Víkingsvöllinn. Vá þetta yrði erfitt. Ekkert nema risastórt svell, ekkert til að styðja sig við. Jæja það var bara að ráðast í verkefnið. Ég man að ég datt ekki bara einu sinni, heldur oft. Ég man hvað ég var blaut þegar ég loksins komst í skólann. Ég man líka að þótt að skólalóðin væri í sama ástandi og Víkingsvöllurinn, þurftum við að fara út í frímínútum. Væntanlega vorum við öll sirka bát jafn blaut, en út þurftum við að fara, nema þau ljónheppnu, sem höfðu miða að heima, sem leyfði þeim að vera inni í frímínútunum. Okkur hefur örugglega verið skítkalt og lítið verið um leiki eða aðra hollustu í frímínútunum og örugglega var enginn kennari á lóðinni, þið munið það var ekki hundi út sigandi, rennandi blautt svell og kannski rigning. Ég vona að krakkar í dag þurfi ekki út á rennandi blautt svell. En öll komumst við heim að loknum skóla og ég held að enginn hafi skaðast af. En svona eru breyttir tímar.

Og í þá daga voru nú fáir heimilishundar til að taka upp kúkinn. Ég man eiginlega bara eftir einum, sem hún Júlla sturtukona átti og guð minn góður hvað ég var hrædd við hann. Já það eru breyttir tímar.


Komin heim

Við erum komin heim, eftir heilan mánuð í burtu.
Þvílíkur dásemdar mánuður. Seinast þegar ég bloggaði vorum við rétt farin af klakanum, Háhæðarhjónin á leiðinni og við rétt í startholunum með að njóta.
Sem betur fer mundi ég eftir að stokka upp af bleika stöffinu og kannski fylgdi ein hvítvín með, svo Háhæðarfrúin var bara kát með mig. Kallarnir fengu sér örlítið sterkara í tána.
Well Háhæðarhjónin komu, við og Háhæðarhjónin fórum í siglingu til Bahamas. Það var ekki að sökum að spyrja, það var æðislegt. Það er nú ekki leiðinlegt að ferðast með þeim sköthjúunum.

Svo leið hver dagurinn á fætur öðrum og við urðum slakari og slakari, gerðum kannski ekki margt,sem svona venjulegur ferðamaður gerir, við erum jú búin að fara í alla garðana, mollið freistar ekki lengur og okkur langar bara að njóta þess að vera saman á yndislegum stað. En við eigum eftir að skoða svo margt, en það verður bara að bíða betri tíma.
Engin vinna, ekki einu sinni GSM. Nei enginn GSM. Það var slökkt á símum í heilan mánuð og mig langaði ekki baun að kveikja á minum þegar heim var komið. Ekkert áreiti. Bara að njóta.
Við auðvitað golfuðum frá okkur allt vit. Í ferðakeppninni alræmdu vann ég, júhú ég vann í fyrsta skipti og verð að segja að ég var að golfa eins og engill flesta daga. Reyndar hef ég aldrei séð engil golfa, en ég hef reyndar heldur aldrei séð engil, well komin kannski aðeins út í aðra sálma.
Komumst að því að einn frægasti golfari heimsins Ian Poulter, spilar stundum golfvöllinn okkar með honum Sam, sem er orðinn svo stór. Þegar við sáum Sam fyrst var hann svo oggulítill en nú er Sam orðinn stór og hann er sko einhver sem er vert að hafa augun á í golfheiminum. Það er önnur saga en semsagt, þið þarna úti, Ian Poulter sjálfur spilar völlinn okkar stundum. Einnig kemur Christina Kim stundum og okkur er sagt að fleiri frægir komi stundum, bara svona eins og þegar frægir koma til Íslands, þeir koma á svona velli eins og okkar til að fá frið. Þarna er enginn að spuglera í þeim.

En svo kom heimferðin í flugvélinni "sem ber eldstöðvarheitið Krafla" smekkfull vél eins og venjulega. Fyrir innan okkur sat frú frá Noregi, úff hvað frúin var frek, held að hún hafi verið með þvagleka, svo þurfti hún stanslaust að vera að láta mikið fyrir sér fara.
Það var ekki það eina. Ég hef nú alltaf verið frekar ánægð með flugfreyjur Icelandair. En ekki núna. Þarna var ein sú leiðinlegasta flugfreyja sem ég hef á ævi minni átt samskipti við. Þið vitið hver hún er...... ætla ekki að segja nafnið hennar en hún vann í útvarpi. Vá sú ætti að fara að gera eitthvað annað. Orðin þreytt og pirruð í vinnunni sinni.
En ég ætla ekki að láta hana pirra mig.
En eitt er víst, næst þegar ég fer "westur" ætla ég að hafa púða undir bossann á mér. Þessi andsk..... pínubekkir sem þeir hjá Icelanair kalla sæti eru ekki fólki bjóðandi.

En þangað til næst.
sí jú


Sól sól skín á mig

Verð nú að viðurkenna að þegar við vorum sest í sætin okkar í flugvélinni "sem ber eldstöðvar heitið Askja" varð mér eiginlega ekki um sel. Það svoleiðis hrúguðust inní vélina börn, lítil börn, stálpaðri börn og jafnvel bara nokkuð stór börn. Obbosí, voðalega löng flugferð fyrir höndum og öll þessi börn, vá þau verða þreytt, þau verða pirruð og sum bara pjúra frek. Ég átti von á gráti og hlaupandi krökkum um alla vél. En alla malla hvað maður er forpokaður, eftir næstum 8 tima flug voru öll börnin eins og ljós, ég næstum skammaðist mín fyrir fordómana.
Í fyrsta skipti í mjög langan tíma var okkur hleypt inní USAið án nokkurra málalenginga, við þurftum ekkert að skýra okkur út, við bara sprönguðum í gegn eins og ekkert væri. Ég reyndar vara næstum búin að koma mér í klípu. Gæinn spurði mig hvað ég væri að dunda mér við á daginn og snillingurinn ég var næstum búin að segja honu að ég væri "home wrecker", vá það munaði svo litlu. Við svoleiðis vorum langt fyrst út, enda enginn farangur að þvælast fyrir okkur, enginn á bílaleigunni og við komin heim í Bonville bara eins og skot.
Annað kvöld koma svo Háhæðarhjónin, ég verð að stokka upp af bleika stöffinu, annars er ég hrædd um að Háhæðarfrúin verði ekki glöð með mig. Svo er það golf, golf og meira golf en ekki hvað.
Well sólin bíður og ég er meira að segja með ekki bara eina bók, nei ég er með 2 bækur sem ég ætla að lesa, svo ég má ekki láta deigan síga í þeim efnum, verð að drífa mig.
Sí jú

Ísland ég er að koma !!!

Jú ég ætla að þora að blogga einu sinni í túrnum. Get svo svarið það að undanfarið hef ég bara ekki lagt í að láta vita að ég sé ekki á landinu. Þið vitið, það gæti einhverjum dottið í hug að fara heim til mín og hreinsa út. p.s. var að fá smá forrétt..... semsagt ég er ekki að elda í kvöld. nammi nammi namm.
Well aftur að bloggi. Við gömlu skutluðumst semsagt "heim" til Florida í 10 daga. Erum auðvitað búin að golfa frá okkur allt vit. Erum í blóðugri keppni, sem ég var nokk örugg með að vinna framan af, en viti menn gamli er búinn að jafna metinn og MÁ EKKI VINNA Á MORGUN. Þá er hann búinn að vinna tvær keppnir í röð. Get ekki látið það gerast.

Eins og venjulega höfum við haft það eins og svín í sagi, eiginlega ekki gert neitt annað en að njóta lífsins og gera ekki neitt.

Hvaða vitleysa annars, hann Fred vinur okkar og konan hans hún Carol voru svo sæt að biðja okkur að koma með sér á yndislega tónleika í Epcot Center. Fyrst borðuðum við saman, í Epcot og svo fórum við á úti já segi og skrifa úti tónleika. Kórinn var sá stærsti sem ég hef í lifinu séð og 80 manna hljómsveit spilaði undir. Einhver Broadway stjarna, sem bæ ðe vei ég hef aldrei heyrt af, las jólaguðspjallið og kórinn söng og söng og söng, ég hef nú oft heyrt kórsöng, en aldrei annan eins. Vá vá vá, þessir yndislegu tónleikar komu mér sko aldeilis í hátíðarskap. Já ekki gleyma, þegar "Heims um ból" var sungið, auðvitað á ensku og stjórnandinn hvatti viðstadda að syngja, jú ég söng auðvitað með og sko á íslensku. Eins og þið sjáið þá var þetta YNDISLEGT.

En á morgun er heimferð. Og vitið merkileg heimferð. Við komum farangurslaus hingað og viti menn, við förum farangurslaus heim. Þetta er takmark sem við erum búin að vera að láta okkur dreyma um svo lengi. En vitið ég er eiginlega alveg pottsjúr á því að tollararnir heima halda að við höfum eitthvað mjög misjafnt á samviskunni, komandi frá Ameríkunni......... með engan farangur........ eitthvað voða skrítið. !!!!. Sé alveg svipinn á þeim. But en það skiptir engu máli, þeir mega gramsa í handtöskunni minni eins og þeir lifandi geta.

Well það er verið að kalla á mig í mat. Það eru sjávarréttir ala gamli. Þið megið sko alveg öfunda mig.

Og koma svo og kommenta :)


Ég játa.... ég er sek..... ætli löggan sé á leiðinni?

Ég er eiginlega dauðstressuð.
Þessi yndislega ríkisstjórn er búin að setja ný lög, sem gerir mig að harðsvíruðum glæpamanni, get svo svarið það. Ég er algjörlega miður mín, enda hef ég svo sem ekki lagt það í vana minn að mölbrjóta lög. Hef reyndar fengið stöðumælasektir og jú ég hef komið með örlítið meira af nýjum fatnaði úr ferðalagi en tollalög segja til um, en þar held ég bara að glæpaferill minn sé upptalinn.

En núna er aldeilis annað uppá teningnum.
Ég játa mig seka um brot á gjaldeyrislögum. Já gjaldeyrislögum. Ég á erlendan gjaldeyri í fórum mínum.

Ég var að koma frá útlöndum um daginn, nánar frá Bandaríkjunum, einhver hissa? og það er ekki með einbeittum brotavilja sem ég mölbrýt lögin. Við brottför á ég í veskinu mínu nokkra dollara og smáræði af klinki. Ég var algjörlega grunlaus að nú væri ég orðin krimmi. Gat ekki séð það fyrir að þessir fáu dollarar skiptu sköpum í gjaldeyriseign þjóðarinnar. En rétt skal vera rétt, það er bíð að setja lög í landinu.

Þegar ég geri mér grein fyrir glæp mínum, fer ég auðvitað í bankann til að skila góssinu. Þar er tekið vel á móti mér og mínum miklu verðmætum. Ég var reyndar ekki trítuð eins og ég væri að bjarga gjaldeyrisvarasjóðnum, en mér er boðið uppá kaffi og bara allir nokk almennilegir.

Gjaldkerinn tók fagnandi á móti dollurunum mínum, en var ekkert sérstaklega kát þegar ég dró fram klinkið mitt. Bankinn hefur aldrei keypt erlent klink, þvílíkur sauður get ég verið.....

Obbosí, hvað get ég núna gert?
Ég má ekki eiga erlendan gjaldeyri.
Ég get ekki losað mig við klinkið.

Þetta vandamál er að fara illa með sálartetrið. Í hvert skipti sem hundurinn rekur upp bofs kippist ég við..... ætli löggan jú eða Árni Páll sjálfur séu á tröppunum að koma og ná í mig? Þetta klink er að gera út af við sálartötrið mitt. Ég get ekki hugsað mér að henda klinkinu, ég fer ekki að henda peningum annarra þjóða, ég hef nú ekki lagt í vana minn að henda peningum.

Ég sé bara eina leið út úr vandanum. Þegar ég er búin að pikka þetta blogg, þá ætla ég á vef Icelandair og bóka mér far til USA. Þar ætla ég að eyða klinkinu mínu og koma algjörlega tómhent heim.

Vandinn leystur.

Er farin að pakka

Sí jú leiter.


Góðir farþegar, þetta er flugstjórinn.....

Við eum tvær dömur á leið í dömuferð til Köben. Byrjum ferðina eins og sönnum dömum sæmir á Saga lánsinu. Það er nú obboð snemmt fyrir að fá sér í tána, en þar sem við erum sannar dömur, þá höndlum við það ágætlega.
Við sitjum við vænginn og höfum yndislegt útsýni. Vélin er smekkfullt, ég undra mig á hvað allt þetta fólk er að þvælast. Við dömurnar hefðum nú ekki haft mikið á móti því að hafa rýmra um okkur, en svona er Ísland í dag, allir á faraldsfæti.
Allt gengur svona líka ljómandi og við dömurnar skipuleggjum ferðina okkar. Við höfum aldrei ferðast saman áður til útlanda, svo hugsanlega sjáum við nýjar hliðar á hvorri annarri. En ég amk er full tilhlökkunar.

Svo miðja vegu milli nýju höfuðborgarinnar okkar Reykjavíkur og þeirrar eldri kóngsins Kaupmannahöfn, er samtal okkar truflað: Góðir farþegar, þetta er flugstjórinn sem talar. Maður er nú ekkert óvanur að flugstjórinn ávarpi farþegana sína, enda er það bara kurteisi af honum. En í þetta skiptið, eftir allt kurteisishjalið, stynur hann uppúr sér að við megum eiga von á slæmu aðflugi, það er semsagt hífandi rok í kóngsins, en við þurfum ekki að hafa áhyggjur af öryggi vélarinnar. Wot.... ég hef nú meiri áhyggjur af mínu eigin öryggi, en í þetta skipti er öryggi mitt og öryggi flugvélarinnar eiginlega samantvinnað.

Ekki erum við dömurnar að kippa okkur mikið upp við þessar fréttir, enda eigum við frábæran flugbróður, sem hefur nú sagt okkur margar sögur úr fluginu, af veðri og kippum og rikkjum í alls konar flugvélum og alltaf hefur hann stýrt flugvélinni sinni örugglega til jarðar. Enda berum við fullt traust til flugstjórans og áhafnar hans.

Jæja, aðflugið er hafið og við eiginlega orðnar pínu spældar, það er þvílíkt rjómalogn og kaffið hreyfist ekki í pappamálunum okkar. Er maðurinn búinn að vera að plata okkur með þessum óveðursfréttum???

Ferðadaman mín byrjar að segja mér sögu af vinkonu sinni, sem fyrir margt löngu lenti í flugslysi við Oslóarfjörð og ég sötra kaffið mitt og þykir sagan mjög merkileg. En þá byrjar ballið, það er eins og sé lamið af miklu afli í vélina og vitið að það er ansi langt liðið á aðflugið. Og vængurinn mamma mia, hann sem er ekki búinn að bifast, allt í einu er hann eins og vængur á vænum fugli sem blakar vængjunum sem mest hann má til að haldast á lofti. Og ég er að hlusta á flugslysasögu. Oft hef ég nú flogið til Kaupmannahafnar enda sönn dama, en aldrei hef ég lent í öðru eins. Við hristumst og hristumst bara eins og hveiti og vatn í sósuhristara, get svo svarið það.

En það er svo skrítið að ég er ekki baun hrædd. Verð þó að viðurkenna að þetta eru skratti (afsakið orðbragðið, ekki dömu dæmandi) mikil læti.

Við lendum þó heilu og höldnu og nú byrjar frábært ferðalag. En þegar ég hringi í gamla minn, þá segir hann okkur að Kastrup hafi verið lokað og við verið síðasta vélin til að lenda.... það er eins og þeir hafi vitað af komu okkar systranna, já ég er að ferðast með elstu systur, við megum enga tíma missa, verðum að njóta alls og svo ætlar brottflutta dóttirin að koma til okkar frá Hollandi, svo það er algjörlega ómögulegt að komast ekki á áfangastað á réttum tíma.

Ekki meira í bili, nema ferðin var frábær í alla staði. Elsta systir og ég fórum algjörlega á kostum. Mæli með svona ferðum fyrir allar góðar systur. Ég er strax farin að hlakka til aftur.


Vorið er komið......

og hundarnir skíta.

Er þetta ekki ljóðrænt hjá mér?
Mér datt þetta si svona í hug, þegar snjóa leysti um daginn. Ég og voffan mín förum á hverjum morgni út að labba. Ekki það að ég þurfi að neyða hana út, ekki það að ég hafi þessa ótrúlegu þörf á að þramma úti, í hvaða veðri sem er, vetur, sumar, vor eða haust. Nei þetta er meiri líkamleg þörf voffunar. Hún þarf nefnilega að skíta, sorry, kúka og pissa á hverjum morgni og hún var snögg að venja mig á það að fara með henni á hverjum degi til að hún geti valið sér af mikilli kostgæfni stað til að sinna þessum frumþörfum sínum.

Nema hvað, þegar snjóa leysti um daginn kom í ljós á undarlegustu stöðum hundaskítur, já hundaskítur út um allt. Við þ.e. ég og voffan mín vorum yfir okkur bit. Hafa þessir hundar ekki þjálfað samgöngufólk sitt til að tína kúkinn upp í poka? Augsýnilega ekki. Það er algjör skömm að sjá hvað hundar eru slappir í að þjálfa eigendur sína. Það eina að tína kúkinn upp eftir besta vininn er nú algjört frumskilyrði, það finnst okkur voffu að minnsta kosti. Ég meina, ekki er hægt að ætlast til að voffinn sjái um þetta, hann er auðvitað önnum kafinn að finna yndislegan ilminn af pissi allra annarra voffa sem hafa verið á sömu leið áður, göngufélaginn hefur ekkert annað að gera en að tína upp eftir önnum kafinn voffann, trítla svo með pokann til loka göngutúrsins, svona eins og um Gucci tösku sé að ræða. Minna má það ekki vera.

Ég skelli skuldinni algjörlega á hunda landsins. Hundar takið ykkur á og þjálfið eigendur ykkar, nú eða þann sem þið hafið valið til að fara með í göngu. Það er óþolandi að bæta því á voffa sem á eftir koma, að þurfa líka að þefa af kúkum þeirra voffa sem hafa á undan komið, þið munið að þeir eru önnum kafnir við að þefa að ilmandi pissi.

En vorið er komið og hvað gerist þá? Jú þá koma gæsir, já gæsir fljúgandi og vitið, þær skíta á flugi, ég meina það á flugi og brátt verða allir göngustígar þaktir af gæsaskít. Mér finnst þetta óþolandi af þessum gæsum að gæta ekki að sér. Þær hafa engan til að tína upp eftir sig og það minnsta sem þær geta gert í stöðunni er að miða amk út í móa þegar þær fljúgja yfir og er mál.

Tja þetta þykir mér að minnsta kosti.


Kæra Jóhanna

Til hamingju með að hanga ennþá í forsætisráðherrastólnum.

Aðeins meira af auðlegðarskattinum þínum.
Var að lesa mér pínu til og reikna í framhaldi.

tökum hjón sem eru obbbbboð efnuð, eiga 100.000.000 samtals í nettoeign (hámark til þess að fá ekki auðlegðarskatt), þau geta átt hlut í fyrirtæki sem er ekki alveg á vonarvöl, og ágætis húsnæði. Reyndar dugar þeim að eiga hlut í fyrirtæki.

Þessi hjón eru líka búin að eiga eina milljón inní banka í 1 ár.

Skv vaxtatöflu Arion banka fá þau 0,5% vexti af milljóninni = 5,000

Þú skattleggur þennan fimmþúsund kall og færð af honum kr 900.

Þar með eiga hjónin kr 101,004,100.

Þú setur á þau auðlegðarskatt 1,5% umfram það sem þau "eiga" umfram 100 millur. það gera kr 15,061.

Mannstu þau eiga ekki 100 millur í peningum. Enginn veit hvert raunverulegt verðmæti fyrirtækisins er, því eins og þú veist ertu að murka lífið úr öllum lífvænlegum fyrirtækjum á landinu með aðgerðarleysi og skattpíningu.

En þau eiga milluna.... en hún er alls ekki milla lengur. Eftir að þú ert búin að rífa af þeim fjármagnstekjuskatt og auðlegðarskatt er millan orðin kr 909,038. Hún hefur semsagt rýrnað um 90,962 með því að geyma hana í bankanum. Þetta eru bara raunverulegir peningar, þarna er ekki tekið tillit til verðbólgu og alls annars.

Held ég skötli mér bara út í banka og taki út. Þú rífur hvort sem er allar vaxtatekjur í burtu.


Kæra Jóhanna

Ég hef nú ekki haft mig mikið í frammi í bloggum um stjórnmál eða þjóðmál undanfarin ár amk ekki síðan þessi auma ríkisstjórn komst til valda í boði byltingar og virðingarleysis við lýðræði.
En nú er nóg komið.
Við gömlu kíktum í gærkvöldi á skattframtalið. Svona í fljótu bragði virðist allt vera komið forskráð inná framtalið, sem er alveg brilliant. Þar sem gamli var eiginlega verkefnalaus mest allt árið í fyrra, áttum við í vitleysu okkar kannski von á því að fá endurgreidda einhverja smáaura. Nei ó nei það er öðru nær.
Skv bráðabirgðaútreikningi eigum við að borga mörg já segi og skrifa mörg hundruð þúsund í "auðlegðarskatt".
Erum við svona obboð rík? Kannski. Spáum aðeins í dæmið.
Fyrir 9 árum datt okkur í hug að byggja okkur hús. Jú takk, húsið er stórt og verðmikið. Til þess að binda okkur ekki á skuldaklafa, þá unnum við myrkranna á milli til að þurfa ekki að taka lán fyrir vinnuafli og eigum þar af leiðandi fína húsið okkar nánast skuldlaust, katjing.... þurfum núna að borga hrúgu af "auðlegðarskatti". Við höfum verið svo vitlaus að leggja pening skipulega inná banka, semsagt höfum verið með skipulegan sparnað, katjing aftur, nú fer að klingja vel í kassanum hjá Jóhönnu við þurfum að borga meiri "auðlegðarskatt".
Er þessi ríkisstjórn ekki að senda þau skilaboð út í þjóðfélagið að skulda sem mest? þá fær maður hugsanlega meira að segja niðurfellingu skulda. Ég held að hann pabbi minn væri nú amk ekki sammála þessu. Hann sendi mig út í lífið með þau skilaboð að kaupa helst aldrei neitt, nema að hafa efni á því. Ekki kaupa neitt fyrr en maður getur borgað fyrir það.

Nú heyri ég einhvern segja: Af hverju eru þau ennþá í þessu stóra húsi?
Well svarið er: Veit einhver um einhvern sem vill kaupa???? Ekki ég. Ég hef nú ekki orðið vör við að fasteignamarkaðurinn sé á blússandi siglingu.

Mér datt í hug gamant áramótaskaup þar sem var gert mikið grín að þáverandi fjármálaráðherra, sem núna er forsetinn okkar. Hann var algjörlega tekinn fyrir og mikið sungið um skattmann. Þá var talað um ekknaskatt, þar sem ekkjur sem leyfðu sér að búa í skuldlausum eignum sínum voru teknar í bakaríið og rúnar nánast inn að skinni. Er ekki núverandi ríkisstjórn að gera nákvæmlega það sama? Einnig datt mér í hug fógetinn í Nottingham í sögunni um Robin Hood. Eins og þið munið þá skattpíndi hann svo þegna sína að þeir gátu varla dregið fram lífið.

Ég er nánast viss um að ef Jóhanna og co væru ekki bara með eina hugmynd í kollinum um hvernig á að koma ríkiskassanum í lag, þ.e. hækka skatta, þá værum við komin betur af stað eftir hrun.

Ef ég t.d. ætti þessa peninga sem ég þarf núna að borga Jóhönnu í auðlegðarskatt þá gæti ég keypt mér eitthvað fyrir, kaupmaðurinn sá fengi meiri veltu, hann þyrfti þá ekki að loka eða segja upp starfsfólki. Alltaf fær ríkið sinn skerf. Bara spá í hvort þetta væri ekki betra en að skattpína þegna landsins svona.

Eins og ég sagði fyrst í pistlinum, þá hef ég ekki haft mig mikið í frammi eftir "búsáhaldabyltinguna" en hvur veit nema nú verði breyting á. Ég hef amk sterkar og fjandi góðar skoðanir og fagna skemmtilegum og málefnalegum umræðum um málið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband