22.2.2023 | 22:07
Ferðablogg
Var að fatta að ég hef ekki bloggað síðan rétt í byrjun pestar. Þetta gengur ekki, svo hér er eitt að koma. Vonandi fyrsta af mörgum.
Ég er komin til Long Beach California, jamm get svo svarið það, við vorum í flugvélum í ca 11 tíma í gær. Fyrst fórum við með flugvélinni Ketildyngju alla leið til Seattle. Ótrúlega gott flug, enda svaf ég mest af leiðinni. Eftir smá bið á flugvelli í Seattle flugum við með útlensku flugfélagi til Los Angeles og hingað til Long Beach vorum við komin rúmlega 1 eftir miðnætti. Og hvað erum við að gera hérna? Við erum að fara í krús eftir 2 daga. 15 nætur á sjó eitthvað til að hlakka til. En aftur hingað til Long Beach. Í morgun var byrjað á að fara í ágætis göngutúr, eiginlega flottan göngutúr því við þrömmuðum heila 8 kílómetra. Það er reyndar skítakuldi hérna og von á stormi og rigningu á morgun og föstudag, ætli við verðum ekki bara á hóteli að lesa bók. Já ég sagði það að lesa bók, Erum með 3 bækur til lesa í fríinu. Hlakka til að fara um borð á föstudaginn. Meira seinna. Tjá
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2020 | 10:37
Framvinda námskeiðs
Einn einn föstudagurinn runninn upp og frú í Hafnarfirði sest með kaffibollan við tölvuna. Fyrir utan gluggann lítur út fyrir að vera yndislegt veður, logn og blíða en tölvan mín segir að það séu 4 gráður í mínus.
Og Veiran er komin og það með bravör. Sem betur fer er enginn alvarlega veikur, en mikið hlýtur vesalings fólkið að vera óttaslegið. Fréttaflutningurinn er þvílíkur að það virðist vera að Veiran slái fullfrískt fólk í duftið á mettíma og fáir rísi aftur upp. Útfararstjórar hamstra kistur og búa sig undir yfirvinnu....... Ég, sem er í mjög vernduðu umhverfi, hef ekki skottast til Ítalíu síðan 2017 og aldrei til Austurríkis komið, er pínu á nálum. Ég hef tekið uppá þeim sið að skrúbba hendur eins og ég sé heilaskurðlæknir á leið í aðgerð, oft og mörgum sinnum á dag, eftir handþvottinn er sprittað af miklum móð, þangað til ekki er sá blettur á höndunum sem hefur sloppið. Allt kannski ágætis siðir, en kannski má eitthvað á milli vera og ég sem er ákaflega lítið innan um fólk. En Veiran skal ekki ná mér. Eymingja hendurnar á mér eru hins vegar algjörlega steinhissa á þessum hamagangi og þorna og springa. Nú ætla ég að bæta handáburði í ritualið.
Þið munið eftir jákvæðni og gleði námskeiðinu sem ég sagði ykkur frá um daginn. Það er búið að ganga ljómandi vel, en ég verð að viðurkenna að í allri Veiru umræðunni er ákaflega erfitt að vera á þessu námskeiði. Það koma dagar, sem ég bara get ómögulega mætt. Þá daga sé ég bara ekkert jákvætt eða gleðilegt í tilverunni og langar lang mest að skríða í bedda og breiða upp fyrir haus. En þá er akkurat nauðsynlegast að mæta á námskeiðið og vera eins og Pollýanna, það hlýtur að vera eitthvað jákvætt þarna úti. Og viti menn í gær var eitt skemmtilegt atvik. Við gömlu ákváðum að gefa hvort öðru umboð til að sækja lyf fyrir hvort annað í apótekið ef við þurfum á lyfjum að halda. Eyðublað var prentað út, eyðublað var fyllt út, vottar voru fundnir og látnir krota undir. Hvað á svo að gera við eyðublöðin? Ég sá alveg fyrir mér að ég myndi senda eyðublöðin til Lyfjastofnunar og um hæl fengi ég snyrtileg plastkort til að framvísa í apótekinu. Fann engar upplýsingar svo ég hringdi. Konan á hinum endanum sagði mér að við þyrftum að vera með eyðublaðið í vasanum í hvert skipti.... ég átti ekki til eitt einasta orð og sagði henni hvað mér finndist þetta púkó og gat eiginlega ekki setið á mér að skellihlæja. Konan skellihló líka og benti mér á að ég væri að hringja í Lyfjastofnun og við hlógum eins og fífl. Gott símtal sem gladdi mig og vonandi var konan á hinum endanum líka pínu glöð.
Aðeins aftur að Veirunni. Mér finnst heilbrigðisyfirvöld standa sig frábærlega. Ég þoli illa að sjá einhverja statusa um að Íslendingar séu steinsofandi yfir þessari dómsdagspest, þar sem allir sem einhver einkenni sýna, virðast vera drifnir í próf. Þótt mér þyki upplýsingagjöfin á stundum dálítið of mikil er það miklu betra að hlusta á þar til bært fólk skýra frá, heldur en að lesa á netmiðlunum einhverja tóma vitleysu. Ég er líka lukkuleg með samlanda mína, sem þurfa að vera í sóttkví, það virðast allir vera í sama liði við það að takmarka útbreiðslu, takk fyrir það.
Það er mikið á döfinni um helgina, frú bara úti á lífinu eins og engin Veira sé á ferðinni.
Tjá
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2020 | 10:25
Febrúar að verða búinn
Búin að birgja mig upp með kaffibolla, stinga tölvunni í samband og gá til veðurs. Það er nú ekki svo gott að ég sé búin að fara út í morgun, ég læt duga að kíkja út um stóru gluggana mína og taka stöðuna. Í nótt var hríð þegar ég vaknaði einhverntíman eftir miðnætti. Núna er yndislegt veður, en það hefur snjóað heil ósköp sýnist mér. Þá er nú kaffibollinn ljúfur ekki síst þegar frúin þarf ekki að æða út, þótt hún ætli nú að skottast í nokkur erindi á eftir.
Ég vakna á hverjum morgni við fréttirnar kl. 7. Í alvörunni, er hægt að byrja daginn á ömurlegri nótum? Ég bara man ekki eftir þeim morgni sem þær segja mér að dómsdagur sé í nánd og jafnvel bara eftir hádegi, jú reyndar þegar Hildur Guðna vann Óskarinn, þá tróðu þeir þeirri frétt á milli ömurlegheitanna. Mikið vildi ég óska að hann Magnús Hlynur yrði fenginn til að sjá um 7 fréttirnar, þó ekki væri nema í eina viku. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki alltaf verið æstasti aðdáandi hans, en núna er hann minn uppáhalds.
Á morgun er hlaupársdagur og enginn venjulegur hlaupársdagur, því fyrir 100 árum fæddist hann pabbi minn. Mér verður oft hugsað til hennar ömmu minnar á þessum tíma, hugsið ykkur þremur vikum eftir að hann pabbi fæddist dó litla stúlkan hennar. Hún amma fékk enga áfallahjálp, hún fékk ekki neina meðferð af neinu tagi. Hún amma trúði á guð sinn og trúin á hann hjálpaði henni að komast í gegnum öll áföllin sem dundu á henni ömmu.
Hann pabbi minn var merkilegur maður. Hann var svo sannarlega ekki allra. En hann pabbi var duglegur maður og kom okkur öllum 5 systkinunum vel til manns. Ég man alltaf þegar ég var lítil stelpa á Bústaðaveginum. Þá voru einhverjir krakkarnir að tala um að það væri ekki til peningur heima hjá þeim. Ég var svoleiðis alveg steinhissa, því ég hafði aldrei heyrt talað um skort á peningum nú eða bara peninga yfir höfuð. Ég bara trúði því og hélt að við værum flugrík. Reyndar var það svoleiðis að þegar ég fór til tannlæknis, þá fékk ég pening hjá pabba, ég fékk oftast ekki nóg fyrir reikningi doksans og þótti það frekar fúlt, en núna skil ég að það voru ekki til meiri peningar. Hvenig líka átti að vera til gomma af peningum? Slökkviliðið hefur nú aldrei verið hálaunastaður. En pabbi vann ekki bara hjá slökkviliðinu. Hann vann alltaf aukavinnu. Hann skóf og málaði útihurðir, á tímabili seldi hann rækjur og fleiri aukavinnur hafði hann. Lengst af vann hann við innrömmun. Hann var vandvirkur og ýmsir listamenn fengu hann til að ramma inn listaverk sín og oft fékk hann að hluta til greitt með listaverkum. Það héngu því á vegg í húsi á Bústaðaveginum málverk eftir Gunnlaug Blöndal, eftir Pétur Friðrik voru 2, Eyjólfur Eyfells átti sinn stað, Finnur Jónsson var þarna líka, Jón Jónsson og Sigfús Halldórsson. Þetta eru þeir sem ég man eftir í fljótheitum.
Pabbi minn kvaddi okkur allt of fljótt. Hann var aðeins 69 ára þegar krabbinn lagði hann að velli. Í veikindum sínum skrifaði hann endurminningar sínar á gulan pappír. Enginn hafði hugmynd um þetta og fundum við systkinin gulu síðurnar þegar við vorum að ganga frá hlutunum hans. Þessar endurminningar eru gullkista, sem segja okkur svo margt um pabba alveg frá hans uppvexti og þangað til hann er að glíma við veikindin. Hann segir okkur frá þegar hann komst í nám í skipasmíðum, en það losnaði pláss í Daníelsslipp þegar lærlingur þar drukknaði. Lærlingurinn sem drukknaði var bróðir pabba.
Pabbi var hrjúfur maður með gullhjarta. Það var ekki betra að biðja neinn um greiða. Hann hafði mjög ákveðnar skoðanir og gat haft hátt þegar hann varði þær. Lengi vel þótti mér ekki smart ef einhver sagði að ég væri eins og hann pabbi, en núna væri ég mjög hreykin að vera líkt við hann. Hann var góður maður. Ég minnist hans með virðingu, væntumþykju og hlýju.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2020 | 10:13
Kolkreisí veður
Það er rauð veðurviðvörun í gangi núna, sumsagt hér fyrir utan gluggann er hávaða skrabmans rok og mér sýnist rigningin, eða kannski er þetta slydda, vera á fleygiferð. Hvað er þá betra en að sitja við eldhúsgluggann með kaffibolla og blogga? Ég veit um fátt. Núna eru bara fréttir um veðrið og finnst mér það góð tilbreyting. Ekki eitt bofs um "veiruna", sem er ágætis tilbreyting. Ekki er ennþá farið að gjósa í Grindavík. Ekki veit ég hvað fréttamennirnir geta hellt sér í þegar lygnir, "veiran" orðin að svæsinni pest og lítil hætta á að Grindavík gjósi gosi sem væntanlega varir í 400 ár. En það verður sko örugglega eitthvað. Það verður örugglega eitthvað neikvætt og hræðilegt, sem getur drepið okkur öll, svei mér þá. Gerist aldrei neitt jákvætt? gerist aldrei neitt skemmtilegt hjá neinum nema honum Magnúsi Hlyni? ekki mikil hætta á að hann finni leiðinlegar fréttir.
Í tilefni allrar þessarar neikvæðni skráði ég mig á námskeið um daginn. Það er reyndar bara einn þátttakandi, ég. Kennarinn er ekki af verri endanum, ég. Námsefnið er mjög merkilegt, ég er á námskeiði á hverjum degi að vera jákvæðari. Verð að viðurkenna að stundum er fjári erfitt að vera á þessu námskeiði, þar sem umhverfið er svo fast í neiðkvæðni að hið hálfa væri miklu meira en nóg. Námskeiðið verður vonandi dálítið langt, það stendur yfir alveg þangað til ég loka augunum í síðasta skipti. Ég vona svo sannarlega að ég falli ekki. Ég nefnilega ímynda mér að það hljóti að vera töluvert gleðilegra fyrir bæði mig og þá sem umgangast mig ef ég er jákvæð og reyni að sjá það jákvæða í fari annarra.
Valentínusardagurinn er í dag. Yndislegur dagur, dagur ástarinnar. Uss ég heyri í ykkur sumum..... bahhhh humbug, ég ætla ekki að taka upp einhverja hallærislega Ameríska siði, neibb ég ætla að graðka í mig súrum pungum og fjargviðrast yfir Kana siðum. En þessi dagur er langt frá því Amerískur, þetta er margra margra alda siður að halda upp á dag ástarinnar, vissulega er hann hátt skrifaður í Ameríkunni en hann fluttist þangað með evrópubúum margt fyrir löngu. Ég ætla svo sannarlega að knúsa gamlann minn þegar hann kemur heim og ef ég kemst út í búð, ætla ég að kaupa eitthvað krúttlegt fyrir hann líka.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2019 | 14:54
Nú árið er liðið
Árið 2019 á bara nokkrar klukkustundir eftir. Er þá ekki tilvaið að líta um öxl, eins og maðurinn sagði.
Árið byrjaði fyrir westan þar allur hópurinn minn var samankominn, loksins. Fyrsta vikan var þar í sól og blíðu og góðri samveru. Hópurinn minn er það mikilvægasta fyrir mig og ég er svo þakklát fyrir þau öll.
Gormarnir mínir Benjamín Bjartur, Aríela og Yrja fengu yndislega viðbót í miðjum maí, þegar Hinrik Logi bættist í hópinn. Þau stóru tóku honum vel og held ég að Yrja sé sérstakur aðdáandi. Hún er einstaklega skemmtileg stelpa ótrúlega blíð, fyndin, skemmtileg og klár. Þau eldri koma orðið minna á óvart, þar sem við þekkjum þau orðið svo obboð vel og vitum vel á hverju við eigum von á.
Við skottuðumst yfir páska westur og líka fórum við stuttan túr westur í nóvember. Við héldum uppi fyrri venju og fórum til Norwich þegar við áttum 40 ára brúðkaupsafmæli, ekki var Norwick sérstaklega ljúf við okkur heldur rigndi á okkur nánast allan tímann. Ég held að hápunktur ferðalaga ársins, sé siglingin sem við fórum í þegar gamli átti stórafmæli í september. Ítalía var fyrsti áfangastaðurinn og urðum við ástfangin af Róm þá tvo daga sem við vorum þar á undan siglingunni. Ekki kom lífið um borð á skemmtiferðaskipinu okkur mikið á óvart enda ekki í fyrsta skipti, þetta er faramáti sem mér þykir æðislegur. Ýmsir staðir voru heimsóttir og nutum við hverrar stundar.
Fjórhjólaferð í Þorlákshöfn var æðisleg. Ekki var ég hugrökk að setjast á fjórhjól og bruna af stað, en ég lét mig hafa það. Allt gekk ljómandi vel, þangað til ég lenti í þeim ósóma að moldarbarð varð á vegi mínum og ég flaug af baki. Ekki var neitt sært, nema stoltið og skartaði ég sérdeilis myndarlegum marbletti á afturendanum í nokkurn tíma.
Árið 2019 er búið að vera skemmtilegt og ég er svo sannarlega búin að vera önnum kafin. Ég hlakka til að takast á við árið 2020, sem ég veit að verður fullt af nýjum áskorunum og ekki síst og eiginlega aðallega skemmtilegum stundum með gamla mínum, ungunum mínum og afleggjurunum þeirra.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2019 | 13:30
Hvernig á kona að snúa sér?
Sá fimmtugasti og fyrsti föstudagur ársins er runninn upp. Ég er ekki búin að fara út fyrir hússins dyr en fyrir utan gluggann minn er fallegt, rólegt og frostlaust veður, sumsagt logn og blíða.
Hef dálítið verið að spuglera undanfarið en ég þori varla að impra á þessu, því þessu spuglasjón er um loftlags og mengunarumræðuna sem mér finnst oft á tíðum dálítið ofsafengin. Fyrir einhverjum tugum ára síðan voru allir að fara á límingunum yfir spraybrúsa notkun, almáttugur ef virðuleg frú í vesturbænum leyfði sér að spraya hárlakki yfir lagninguna sína, þá hvarf stór partur af ósónlaginu sem verndar okkur fyrir einhverju, sem ég man ekki lengur hvað er. Þetta var auðvitað mjög hvimleitt því þetta var akkurat á þeim tíma sem ALLIR notuðu hárlakk af miklum móð til að halda hárinu vindheldu. En ekki vill maður grillast af einhverjum geimgeislum, svo ég hafði auðvitað miklar áhyggjur af þessu. En viti menn ennþá erum við hér, enginn hefur heyrt minnst á gatið á ósónlaginu árum saman. Svo man ég eftir pappírsnotkuninni það ætlaði allt um koll að keyra, oft heyrðist að ef kínverjar tæku upp á þeim ósóma að skeina sér, þá hyrfu allir skógar veraldar bara hviss bang og farnir. Það mátti alls ekki nota allan þennan pappír, munið skógarnir hverfa og lausnin var að nota plast. Hjúkket komin lausn, skógarnir hverfa ekki og halda áfram að búa til súrefni fyrir okkur að anda. Ég þarf auðvitað ekki að minnast á alla umræðuna í dag og nenni því eiginlega ekki, en mér finnst næstum fyndið að það sé búið að mæla hvað prump úr beljum mengar mikið. Prumpandi beljur eru algjörlega að koma okkur á heljarþröm ásamt auðvitað öllu hinu. Núna eigum við endilega að nota pappír, í staðinn fyrir plastið, sem við áttum endilega að nota í staðinn fyrir pappír munið þið eftir skógunum sem hverfa þá? Ég veit ekki um neinn sem pælir í ósónlaginu þegar hann spreyar út og suður.
Mér finnst að minnsta kosti óvinnandi vegur að fylgjast með þessu öllu það er algjörlega ómögulegt. Kannski væri bara best að hoppa fram af svölunum, æi nei það má ekki heldur, verður maður ekki að huga að menguninni sem yrði til á meðan skrokkurinn væri að hverfa. Ó mig auma.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2019 | 11:16
Jólatröll????
Hann er runninn upp 50. föstudagur á því herrans ári 2019. Yndislegur morgun, en brunagaddur eða þannig, bíllinn minn sagði mér að það væru 7 gráður í mínus góðir hálsar. En það er blankalogn og dagurinn er fagur.
Mér hefur blessunarlega tekist í gegnum árin að láta jóla jóla jóla æðið framhjá mér fara. Ég veit ekki hvað hefur gerst en þetta árið er ég alveg að verða tjúlluð á öllum auglýsingunum sem dynja á mér í öllum miðlum hugsanlegum. Ertu búin að kaupa??? ertu búin að fara á tónleika??? ertu búin að njóta??? ertu búin að ÖLLU??? eða ertu lúði??? Þessi söngur er búinn að hamast í eyrunum á mér alveg síðan í nóvember og ég er búin að fá nóg. Mikið er ég farin að skilja hann Trölla, sem bara greip til þess örþrifaráðs að stela jólunum. Ég er ekki hissa að vesalings börnin séu útúrtauguð á allri gleðinni sem á að grípa þau. Þau hljóta að vera að kafna úr stressi þessa dagana, þegar jólasveinarnir taka uppá því að setja gjafir í skóinn. Þegar litlu augun eru í þann mund að lokast og þau hlakka svo mikið til að sjá hvað sveinki hefur gaukað að þeim ó nei þá muna þau eftir að þau voru óþekk, æi það var grenjað í Bónus eða litli bróðir kýldur aðeins of fast. Augun glennast upp og þau fá kvíðakast yfir kartöflunni sem þau eiga nú von á frá sveinka. Er þetta virkilega jólaandinn? jamm þetta er hann svo sannarlega. Og ég er smituð, ég er farin að örvænta yfir að það eru ekki svo mörg ljós í gluggunum mínum. Eru jólagjafirnar, sem ég er búin að kaupa, ekki nógu góðar? Erum við gömlu púkó að ætla ekki að gefa hvort öðru pakka? Skyldi sósan heppnast þetta árið?
Það eru 36 jól síðan ég gerði ekki neitt fyrir jólin, engar sortir bakaðar, enginn skápur þrifinn, ekki einu sinni keypt jólatré, en vitiði hvað? Jólin þau voru yndisleg, við litla fjölskyldan með litlu splunkunýju stelpuna okkar áttum yndisleg, róleg og dásamleg jól.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.12.2019 | 10:28
Fertugasti og níundi föstudagur ársins
Þau eru nú orðin nokkur árin síðan ég hætti að skrifa föstudagsblogg, en þar sem lífið hefur aftur tekið breytingum hef ég hugsað mér að taka þau skrif upp aftur.
Margt hefur breyst síðan síðasta föstudagsblogg var skrifað. Í þá daga fórum við voffan alltaf út að viðra okkur fyrst á morgnana, tókum veðrið og spugleruðum ýmislegt. Voffan mín fer ekki í þessar ferðir lengur og svo sem ekki ég heldur, en voffan kvaddi þessa jarðvist skyndilega einn vormorgun í maí.
Með nýju lífsmunstri hef ég nú tækifæri til að taka upp aftur morgungöngur, án voffunar. Það rifjast ýmislegt upp og sumt hefur ekkert breyst. Í gærmorgun, heyrði ég kunnuglegt "kling" fyrir aftan mig í myrkrinu. Obbobb hjólakappi að gera sig kláran að hjóla mig niður. Aftur heyrðist "kling" hvað á ég að gera? á ég að fara að hægri kanti stígsins og taka áhættuna á að hjólakappinn hafi akkurat ákveðið það sama? eða til vinstri og vera í sömu áhættu? Þetta er mikin ákvörðun, sem þarf að takast á örskotstundu í myrkri á göngustíg í Garðabænum. Ég ákvað því að vera á miðjunni, hjólakappinn kæmist nær örugglega framhjá mér án þess að ég ætti á hættu að vera hjóluð niður. Þetta rifjaði upp minningar um marga hraðskreyðari hjólakappa en þennan, sem geystust eftir stígnum okkar voffunar og kannski görguðu "hægri" hátt og snjallt. Átti ég að fara til hægri eða ætlaði hjólakappinn til hægri? ég uppskar oft garg og pínu skammir fyrir að vita ekki hvað hjólakappinn var að hugsa. En í gær var hjólakappnn ákaflega prúð kona, sem ákvað að spjalla aðeins við mig um þá ákvörðun mína að halda mér á miðjum stígnum. Við spjölluðum aðeins og kvöddumst svo með góðar óskir til hvor annarrar.
Veðrið var yndislegt í gær, dálítið kalt en yndislegt desember veður, svo ég komi veðuratugun inní föstudagsbloggið. Og ekki er veðrið síðra í dag, ég sé út um gluggann að það eru að hrannast upp ský yfir Esjuna. Er þá ekki von á norðurátt? Það er algjör stilla og sjórinn nánast spegilsléttur. Svona dagar gera mig glaða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2019 | 23:51
Örfrí að verða búið.
Þetta oggulitla örfrí er nú alveg að verða búið. Við erum búin að hafa það svo sannarlega eins og svín í sagi, notið hverrar mínútu og eftir að einhver kveikti á sólinni þá er brakandi blíða uppá hvern dag og við obboð kát.
Við erum búin að heimsækja fullt af fínum golfvöllum, golfum á hverjum degi og ég verð að segja að þótt árangurinn hafi verið svona upp og ofan þá skiptir það einhvern veginn svo litlu máli, það eru svo mikil forréttindi að geta verið hér og farið í golf í nóvember.
Eitthvað aðeins er búið að versla, en í þetta skiptið réttum við ekki við efnahag Bandaríkjanna, við erum búin að vera svo mikið pen í innkaupum. Eigum samt einn dag til að bæta upp vesaldóminn í versun og viðskiptum.
Stjörnunar eru auðvitað skoðaðar og ennþá er hún Angelína að pönkast í dásemdinni honum Brad, ég bara skil ekki hvað henni gengur til konunni. Og vitið þið að það er allt að verða kreisí í höllinni, Kata og Meghan bara geta ekki verið án þess að hnakkrífast og eymingja drottningin er alveg miður sín, eins og hún eigi ekki nóg með að tjónka við hann Andrés? Ekki hef ég séð stafkrók um Travolta hjónin eða Barböru og hennar, svo ég bara geng út frá því að þar sé allt í lukkunar velstandi.
Það er kvöldið í kvöld eins og næstum öll hin kvöldin, sem ég þræla og púla..... ég þurrka af borðinu, legg á borðið, kveiki á kertinu, tek tappann úr vínflöskunni og við skulum ekki gleyma að ég vel tónlistina. Gamli eldar.
Það er Rib eye i kvöld svona í forbífarten.
Tjá óver and áat
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2019 | 21:17
Flugvéla Floridablog
Það var flugvélin sem ber nafnið Torfajökull sem dröslaði okkur yfir hafið i þetta skiptið. Oft hef ég nú verið sneggri að skottast þessa leið, en þessi flugvél tók akkurat 8 klukkustundir í verkið. Ég er nú ekki einlægur aðdáandi langra flugferða, en læt mig svo sannarlega hafa það, því ég veit hvað ég á i vændum. Venjulega líða þessar flugferðir algjörlega lausar við allar uppákomur og annað en kannski pínu grátandi krakka í sætaröð 22 eða kannski annan grátandi grisling í sætaröð 16. En í þetta skiptið dró svo sannarlega til tíðinda. Ég var í mestu makindum að ná mér í smá fegrunarblund, þegar gamli hnippir í mig. Haldiði ekki að aumingja konan í sætaröðinni fyrir framan okkur hafi fengið einhverskonar áfall. Allar flugfreyjurnr komnar a staðinn og kona sem sat við hliðina á óheppnu konunni voru komnar í málið. Ein flugfreyjan var með hjartastuðtæki meðferðis. Ég verð að viðurkenna að mér stóð alls ekki á sama, aumingja konan og lika aumingja maðurinn hennar, sem var alveg miðður sín. En konan rankaði við sér og bar sig bara vel. Svo varð mér hugsað um hvað gerist bak við tjöldin og flugfrændi litli getur örugglega sagt mér. Ég er nánast örugg um að flugsjórinn var látinn vita, en voru þeir / þau fram i flugstjórnarklefanum, farin að hugsa um hvar þau / þeir gætu lent með veiku konuna? En allt svo fumlaust og flott hjá flugfreyjunum.
En hingað erum við komin, húsið æðislegt eins og vera ber en ó mæ god..... það er búinn að vera fimbulkuldi alveg þangað til í dag. Við gömlu erum búin að golfa í síðbuxum og síðerma, en í dag skín sólin og við komin ut við laug, búin að koma okkur vel fyrir.
Af afrekum af golfvellinum er fátt að segja utan að gamli fékk örn á erfiðustu holu vallarins em við spiluðum í gær já og við skulum ekki gleyma fuglinum, sem hann fékk fyrr á hringnum. Mín helstu afrek eru að hafa komist ógrátandi í gegnum hringina. En það breytist allt á morgun, sól og blíða og mín í góðum gír, með flottar golfkúlur, ný tee og svei mér þá, get puntað mig í nýjan golfbol. Hvað getur þá klikkað?
Ég er búin að sjá að þessir 9 dagar eru algjör hungurlús mér duga varla færri dagar en 21, en ju OK þetta er betra en ekki neitt.
Verð því að snua mér að sólbaðsiðkun og hana nu
Óver and át.
og þið munið ég ELSKA komment.
Held að það verði steik í kvöld.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)