Nú árið er liðið

Árið 2019 á bara nokkrar klukkustundir eftir.  Er þá ekki tilvaið að líta um öxl, eins og maðurinn sagði.  

Árið byrjaði fyrir westan þar allur hópurinn minn var samankominn, loksins.  Fyrsta vikan var þar í sól og blíðu og góðri samveru.  Hópurinn minn er það mikilvægasta fyrir mig og ég er svo þakklát fyrir þau öll.

Gormarnir mínir Benjamín Bjartur, Aríela og Yrja fengu yndislega viðbót í miðjum maí, þegar Hinrik Logi bættist í hópinn.  Þau stóru tóku honum vel og held ég að Yrja sé sérstakur aðdáandi.  Hún er einstaklega skemmtileg stelpa ótrúlega blíð, fyndin, skemmtileg og klár.  Þau eldri koma orðið minna á óvart, þar sem við þekkjum þau orðið svo obboð vel og vitum vel á hverju við eigum von á.

Við skottuðumst yfir páska westur og líka fórum við stuttan túr westur í nóvember.  Við héldum uppi fyrri venju og fórum til Norwich þegar við áttum 40 ára brúðkaupsafmæli,  ekki var Norwick sérstaklega ljúf við okkur heldur rigndi á okkur nánast allan tímann.  Ég held að hápunktur ferðalaga ársins, sé siglingin sem við fórum í þegar gamli átti  stórafmæli í september.  Ítalía var fyrsti áfangastaðurinn og urðum við ástfangin af Róm þá tvo daga sem við vorum þar á undan siglingunni.  Ekki kom lífið um borð á skemmtiferðaskipinu okkur mikið á óvart enda ekki í fyrsta skipti, þetta er faramáti sem mér þykir æðislegur.  Ýmsir staðir voru heimsóttir og nutum við hverrar stundar.

Fjórhjólaferð í Þorlákshöfn var æðisleg.  Ekki var ég hugrökk að setjast á fjórhjól og bruna af stað, en ég lét mig hafa það.  Allt gekk ljómandi vel, þangað til ég lenti í þeim ósóma að moldarbarð varð á vegi mínum og ég flaug af baki.  Ekki var neitt sært, nema stoltið og skartaði ég sérdeilis myndarlegum marbletti á afturendanum í nokkurn tíma.

Árið 2019 er búið að vera skemmtilegt og ég er svo sannarlega búin að vera önnum kafin.  Ég hlakka til að takast á við árið 2020, sem ég veit að verður fullt af nýjum áskorunum og ekki síst og eiginlega aðallega skemmtilegum stundum með gamla mínum, ungunum mínum og afleggjurunum þeirra.


Hvernig á kona að snúa sér?

Sá fimmtugasti og fyrsti föstudagur ársins er runninn upp.  Ég er ekki búin að fara út fyrir hússins dyr en fyrir utan gluggann minn er fallegt, rólegt og frostlaust veður, sumsagt logn og blíða.

Hef dálítið verið að spuglera undanfarið en ég þori varla að impra á þessu, því þessu spuglasjón er um loftlags og mengunarumræðuna sem mér finnst oft á tíðum dálítið ofsafengin.  Fyrir einhverjum tugum ára síðan voru allir að fara á límingunum yfir spraybrúsa notkun, almáttugur ef virðuleg frú í vesturbænum leyfði sér að spraya hárlakki yfir lagninguna sína, þá hvarf stór partur af ósónlaginu sem verndar okkur fyrir einhverju, sem ég man ekki lengur hvað er.  Þetta var auðvitað mjög hvimleitt því þetta var akkurat á þeim tíma sem ALLIR notuðu hárlakk af miklum móð til að halda hárinu vindheldu.  En ekki vill maður grillast af einhverjum geimgeislum, svo ég hafði auðvitað miklar áhyggjur af þessu.  En viti menn ennþá erum við hér, enginn hefur heyrt minnst á gatið á ósónlaginu árum saman.  Svo man ég eftir pappírsnotkuninni það ætlaði allt um koll að keyra, oft heyrðist að ef kínverjar tæku upp á þeim ósóma að skeina sér, þá hyrfu allir skógar veraldar bara hviss bang og farnir.  Það mátti alls ekki nota allan þennan pappír, munið skógarnir hverfa og lausnin var að nota plast.  Hjúkket komin lausn, skógarnir hverfa ekki og halda áfram að búa til súrefni fyrir okkur að anda.  Ég þarf auðvitað ekki að minnast á alla umræðuna í dag og nenni því eiginlega ekki, en mér finnst næstum fyndið að það sé búið að mæla hvað prump úr beljum mengar mikið.  Prumpandi beljur eru algjörlega að koma okkur á heljarþröm ásamt auðvitað öllu hinu. Núna eigum við endilega að nota pappír, í staðinn fyrir plastið, sem við áttum endilega að nota í staðinn fyrir pappír munið þið eftir skógunum sem hverfa þá?  Ég veit ekki um neinn sem pælir í ósónlaginu þegar hann spreyar út og suður.  

Mér finnst að minnsta kosti óvinnandi vegur að fylgjast með þessu öllu það er algjörlega ómögulegt.  Kannski væri bara best að hoppa fram af svölunum,  æi nei það má ekki heldur, verður maður ekki að huga að menguninni sem yrði til á meðan skrokkurinn væri að hverfa.  Ó mig auma.

 


Jólatröll????

Hann er runninn upp 50. föstudagur á því herrans ári 2019.  Yndislegur morgun, en brunagaddur eða þannig,  bíllinn minn sagði mér að það væru 7 gráður í mínus góðir hálsar.  En það er blankalogn og dagurinn er fagur.

Mér hefur blessunarlega tekist í gegnum árin að láta jóla jóla jóla æðið framhjá mér fara.  Ég veit ekki hvað hefur gerst en þetta árið er ég alveg að verða tjúlluð á öllum auglýsingunum sem dynja á mér í öllum miðlum hugsanlegum.   Ertu búin að kaupa???  ertu búin að fara á tónleika???  ertu búin að njóta???  ertu búin að ÖLLU???  eða ertu lúði???  Þessi söngur er búinn að hamast í eyrunum á mér alveg síðan í nóvember  og ég er búin að fá nóg.  Mikið er ég farin að skilja hann Trölla, sem bara greip til þess örþrifaráðs að stela jólunum.  Ég er ekki hissa að vesalings börnin séu útúrtauguð á allri gleðinni sem á að grípa þau.  Þau hljóta að vera að kafna úr stressi þessa dagana, þegar jólasveinarnir taka uppá því að setja gjafir í skóinn.  Þegar litlu augun eru í þann mund að lokast og þau hlakka svo mikið til að sjá hvað sveinki hefur gaukað að þeim  ó nei þá muna þau eftir að þau voru óþekk, æi það var grenjað í Bónus eða litli bróðir kýldur aðeins of fast.  Augun glennast upp og þau fá kvíðakast yfir kartöflunni sem þau eiga nú von á frá sveinka.  Er þetta virkilega jólaandinn?  jamm þetta er hann svo sannarlega.  Og ég er smituð, ég er farin að örvænta yfir að það eru ekki svo mörg ljós í gluggunum mínum.  Eru jólagjafirnar, sem ég er búin að kaupa, ekki nógu  góðar?  Erum við gömlu púkó að ætla ekki að gefa hvort öðru pakka?  Skyldi sósan heppnast þetta árið?

Það eru 36 jól síðan ég gerði ekki neitt fyrir jólin, engar sortir bakaðar, enginn skápur þrifinn, ekki einu sinni keypt jólatré, en vitiði hvað?  Jólin þau voru yndisleg, við litla fjölskyldan með litlu splunkunýju stelpuna okkar áttum yndisleg, róleg og dásamleg jól.  


Fertugasti og níundi föstudagur ársins

Þau eru nú orðin nokkur árin síðan ég hætti að skrifa föstudagsblogg, en þar sem lífið hefur aftur tekið breytingum hef ég hugsað mér að taka þau skrif upp aftur.

Margt hefur breyst síðan síðasta föstudagsblogg var skrifað.  Í þá daga fórum við voffan alltaf út að viðra okkur fyrst á morgnana, tókum veðrið og spugleruðum ýmislegt.  Voffan mín fer ekki í þessar ferðir lengur og svo sem ekki ég heldur, en voffan kvaddi þessa jarðvist skyndilega einn vormorgun í maí.

Með nýju lífsmunstri hef ég nú tækifæri til að taka upp aftur morgungöngur, án voffunar.  Það rifjast ýmislegt upp og sumt hefur ekkert breyst.  Í gærmorgun, heyrði ég kunnuglegt "kling" fyrir aftan mig í myrkrinu.  Obbobb hjólakappi að gera sig kláran að hjóla mig niður.  Aftur heyrðist "kling"  hvað á ég að gera?  á ég að fara að hægri kanti stígsins og taka áhættuna á að hjólakappinn hafi akkurat ákveðið það sama?  eða til vinstri og vera í sömu áhættu?  Þetta er mikin ákvörðun, sem þarf að takast á örskotstundu í myrkri á göngustíg í Garðabænum.  Ég ákvað því að vera á miðjunni, hjólakappinn kæmist nær örugglega framhjá mér án þess að ég ætti á hættu að vera hjóluð niður.  Þetta rifjaði upp minningar um marga hraðskreyðari hjólakappa en þennan, sem geystust eftir stígnum okkar voffunar og kannski görguðu "hægri" hátt og snjallt.  Átti ég að fara til hægri eða ætlaði hjólakappinn til hægri?  ég uppskar oft garg og pínu skammir fyrir að vita ekki hvað hjólakappinn var að hugsa.  En í gær var hjólakappnn ákaflega prúð kona, sem ákvað að spjalla aðeins við mig um þá ákvörðun mína að halda mér á miðjum stígnum.  Við spjölluðum aðeins og kvöddumst svo með góðar óskir til hvor annarrar.

Veðrið var yndislegt í gær, dálítið kalt en yndislegt desember veður, svo ég komi veðuratugun inní föstudagsbloggið.  Og ekki er veðrið síðra í dag, ég sé út um gluggann að það eru að hrannast upp ský yfir Esjuna.  Er þá ekki von á norðurátt?  Það er algjör stilla og sjórinn nánast spegilsléttur.  Svona dagar gera mig glaða.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband