Færsluflokkur: Dægurmál

Áramótaheit

Ég setti mér eitt áramótaheit.....  ég ætla að blogga meira.  Ekki á hverjum degi, kannski einu sinni í viku, kannski aðeins sjaldnar.

Núna er 2 laugardagur ársins og úti er skítaveður.  Gengur á með hríð og almennum leiðindum.  Ég fór í morgungöngu í morgun, Ég var varla komin út fyrir hússins dyr, þegar ég var farin að sjá eftir að hafa ekki drifið mig í hlífðarbuxur, en fyrir mitt litla líf nennti ég ekki upp í brækurnar.  Túrinn var fínn, enda skemmtilegt að feta nýjar slóðir.

Árið byrjar fínt, fyrir utan veðrið, sem mætti vera betra.  Bíllinn minn ákvað að þurfa vera á verkstæði, enn einu sinni, yfir áramótin.  Mér og manninum á verkstæðinu, reiknast til að þessi bíll sé búinn að vera ca 40 sinnum á verkstæðinu á þessum tæpum 5 árum sem hann er búinn að vera á landinu.  Ég er næstum því hætt að kippa mér upp við hvað honum dettur í hug.  Það nýjasta var dálítið fyndið.  Jú á fullri ferð, áfram, verð ég að taka fram, fannst bílnum snjallræði að kveikja á bakkmyndavélinni, svo hann gerði það og ég sá bæði fram fyrir bílinn og svo líka allt sem gerðist fyrir aftan.  Góð hugmynd???  veit ekki en þessir stælar, ásamt nokkrum fleiri sem fylgdu í kjölfarið kostaði hann tæpar 3 vikur á verkstæðinu.  En hann er kominn heim og ég bíð spennt eftir hvað hann býður uppá næst.

Erum að skottast í leikhúsið á morgun með krakkakrýlin, það verður gaman og athyglisvert.

 


Áramótablog

Það er alveg við hæfi að slá nokkur orð á lyklaborð og rifja upp árið 2017,  ársins sem ég mun minnast sem skemmtilegs, viðburðarríks og minnisverðs.

Það var ekki liðinn janúarmánuður, þegar ég sá auglýsingu um að það vantaði kórkonur í kvennakórinn Rósir.  Í einhverri stríðni, svaraði ég auglýsingunni og átti svo sem ekki von á að það yrði neitt meira úr því.  En það var öðru nær.  Daginn eftir var ég orðin kórkona, sem setti markið hátt.  Svo hátt að tónleikaferð til Ítalíu var framundan.  Með þessum skemmtilegu og hæfileikaríku konum hef ég svo sungið með síðan, sungið í Garðabæ, Veróna, Feneyjum, Hafnarfirði og Seltjarnarnesi. Ferðin til Ítalíu var dásamleg, Ítalía fer ofarlega á listann yfir uppáhalds.  Rómantíkin svífur þar yfir vötnum, ítalir æðislegir og landið fallegt.

Eins og oft áður hugsuðum við okkur til hreyfings úr stóra húsinu okkar.  Aftur átti ég ekki von á að við findum okkur nýjan samastað.  En það gerðist og í byrjun apríl vorum við búin að festa okkur æðislega íbúð, þar sem við fengum meira að segja leyfi fyrir Amirunni okkar.  Það fór þó ekki svo að hún flytti með okkur, því einn morgun í miðjum mai, kvaddi hún okkur.  Svo snögglega og fyrirvaralaust.  Alveg hennar stíll að vera ekkert að vesenast í að vera gömul og veik, hún bara dó.  Mikið söknuðum við hennar.

Sumarið var æðislegt.  Oft fórum við að Kóngsbergi og spiluðum gommu af golfi.  Ekki vann ég sumarkeppnina, en þá er eitthvað til að keppa að í næstu keppni.  Við stunduðum skógarhögg af miklum móð, ræktuðum jarðarber og kryddjurtir, svömluðum í heitum potti, smíðuðum grillhús, annað okkar þó sýnu meira en hitt og dunduðum okkur við ýmislegt.  Kóngsberg fékk nýja heimreið sem sæmir nafninu auk þess að fá nýja nágranna.

8 september var æðislegur dagur, því þá fæddist undursmá, fullkomin, yndisleg litla systir Aríelu.  Það eru þvílík forréttindi að eignast enn og aftur fullkomið barnabarn.  Hún er mikill persónuleiki, sem má lítið vera að því að vera undursmá, hún er að flýta sér að verða stór.  Dugleg og kát stelpa.

Hinir ömmugrísirnir voru í góðu stuði, skemmtileg, fyndin og frábær.  Ótrúlegt hvað þau vaxa og fullorðnast hratt.

Við ferðuðumst dálítið, fórum Westur eins og vanalega. Svo fórum við auðvitað til Ítalíu.  Brussel var heimsótt eina yndislega sumarhelgi.  Amsterdam var heimsótt í haust til að hlusta á gamalmenninn í Rollings Stones fara á kostum.  Fyrir Westan fórum við líka á tónleika með Carlos Santana og var sá ellismellur ekkert minna en frábær.

Við erum strax farin að leggja drög að fínum hlutum á nýja árinu, en meira af því seinna.

Takk fyrir æðislegt 2017, 2018 komdu fagnandi


Ferðalok

Enn einni ferðinni westur er um það bil að ljúka.  Við sitjum um borð í flugvélinni sem ber eldstöðvarheitið Magni, hvar svo sem það er.  Hún ætlar að skottast yfir hafið með okkur á rúmlega 6 tímum,  sem er nú ekki svo ferlegt.  

Ferðin var æðisleg.  Við golfuðum á hverjum einasta degi utan þegar við lögðum land undir fót til St. Augustine.  Tónleikarnir með Carlos Santana voru æðislegir,  það var frábært að fá Digranesheiðar heiðurshjónin í heimsókn.  Við lágum eins og slytti úti við laug og teyguðum í okkur dásamlegt slúður. Við borðuðum yndislegan mat sem ég eldaði alls ekki, við drukkum dásamleg vín og við nutum okkar til fulls.

Núna tekur hversdagurinn við.  Ég hlakka svo mikið til að hitta krílin mín heima .  En hversdagurinn þetta árið hefur verið stórkostlegur.  Ég byrjaði að syngja í kór,  fór með kórnum til Ítalíu.  Og vá við fluttum, hvað gæti verið stærra. Veit ekki um annað ár sem hefur verið viðburðarríkara.  Og síðast en ekki síst eignuðumst við Yrjuna okkar. Betra ár verður vandfundið.

Ok ætla að horfa á bíó og blunda svo.

Óver and át frá flugvélinni sem ber eldstöðvarheitið Magni. 

 


Golffélagar

Það er svo skemmtilegt við golfið, að á hverjum degi hittir maður nýtt fólk, sem maður deilir með 4 klukkustundum.  Það er allsskonar fólk, en skrítið, það eru oftast karlar, stöku hjón, sem eru þá ekki Floridabúar, heldur ferðamenn eins og við.  Ég hef komist að því að margar konur spila golf, en þær spila oftast í kvennagrúppum, sem mér þykir dálítið skrítið, þar sem mér finnst golfið vera frábært hjónasport.  En félagarnir eru eins mismunandi eins og þeir eru margir.  Í morgun spiluðum við með Tom og Justin.  Þeir eru frá Omaha, Nebraska, Tom eldri kominn á eftirlaun og var áður "railroader"  semsagt starfsmaður járnbrautanna, ekki farþegalesta, heldur aðeins vöruflutningalestar.  Justin vinnur í banka.  Skemmtilegir fýrar, eins og allir hitir sem við höfum spilað með.  Í gær var það Richard frá Maine í fríi hér eins og við, enginn ferðafélaginn spilaði golf, svo hann fór einn.  Allir þessir félagar eiga það sameiginlegt að hafa gaman af að spila golf, hafa gaman af því að vera úti við í rúma 4 klukkutíma, labba nokkra kílómetra, stundum eiga frábæran golfdag og stundum eiga ömurlegan golfdag.  Við erum núna búin að golfa á hverjum degi, fyrir utan einn, þegar við brugðum okkur til St. Augustine og við ætlum að golfa á hverjum degi þangað til við förum heim og þá, góðir hálsar erum við búin að golfa fleiri hringi hérna í þessar rúmar þrjár vikur, en við golfuðum heima á Íslandinu í sumar.  Ég er strax farin að skipuleggja vorferðina, þar sem ég ætla svo sannarlega að standa mig betur, þótt ég geti varla verið mjög ósátt við sjálfa mig núna.  Ég er búin að eiga frábæran tíma á golfvellinum og væri svo sannarlega til í að spila miklu fleiri golfhringi í þetta skiptið.  En ég geymi það þangað til í vor  og ég er strax farin að hlakka til.


Blogg seint á ferð

Þótt ekki hafi verið bloggað, þýðir ekki að það hafi ekki allt verið á fullu hér í Floridanu.  Það er búið að vera svo mikið að gera að ég hef ekki haft nánast nokkra stund að fylgjast með stjörnulífinu, sem er þó algjörleg nauðsynlegt hér í landi tækifæranna.  

Við komum hingað eftir ofboðslega langa ferð og vorum glöð að koma í yndislega húsið okkar.  Það var auðvitað ekki slegið slöku við og strax morguninn eftir áttum við golftíma.  Heæd að við ræðum ekki neitt um fyrstu hringina, svo ömurlegir voru þeir.  

Digranesheiðar heiðurshjónin komu svo í heimsókn og þá byrjaði formleg dagskrá.  Það var hjónakeppni á hverjum morgni, þar sem gestgjafar voru ekki að standa sig, en viti menn við sigum fram úr.   Með þeim fórum við til St.Augustine, sem er eiginlega uppáhaldsstaður okkar til að heimsækja.  Við vorum þar eina nótt og nutum alls þess sem þessi yndislegi bær hefur uppá að bjóða.  Svo voru það tónleikarnir með Carlos Santana,  þvílík veisla, þetta eru einir bestu tónleikar sem ég hef farið á og eru þeir nú orðnir nokkrir.  

Digranesheiðar heiðurshjónin eru flogin heim og við orðin ein í kotinu.  Nú hefst lega við sundlaugina, það hefur eiginlega ekki viðrað til sundlaugabakkalegu hingað til, en nú stal teki til við legu.  Það er Halloween í dag, en eftir fyrri reynslu þá keyptum við ekkert nammi, í fyrra og hittifyrra kom enginn, svo við neyddumst til að gúffa í okkur öllu namminu,  látum það ekki endurtaka sig.

Ætla að skottast á bekkinn og uppfræða mig á slúðri.

En hingað til hef ég fengið, steik, lax, skelfisk, rækjur, kjúkling svo eitthvað sé nefnt og ég hef ekki þrælað í eldhúsinu.

Óver and át

p.s.  sókin er beint í augun á mér, svo afsakið ritvillur.

 


Flugvélablogg

Kæru farþegar. Það er flugvélin sem ber eldstöðvarheitið Bláfjöll sem ætlar að bera okkur yfir hafið og taka í það 7 klst og 40 mínútur. Langt er það. En nýjasta nýtt er extra öryggistékk í boði Bandaríkjaforseta og auðvitað lenti ég í því. Hélt að ég væri bara þokkalega heiðvirður hafnfirskur bókari á leið í langþráð frí. Ó nei það þarf sko að tékka á henni þessari hún gæti verið stórhættuleg á golfvellinum eða hún gæti eytt um efni fram í ferðinni. Ómögulegt að svona fólki gæti hugsalega fundist það velkomið. Arggggg. Ég er SVO fúl.
En ég ætla að njóta þess að vera í fríi með gamla mínum. Ég ætla að gera mitt allra besta að vinna hann í golfinu.
Þau Digranesheiðar heiðurshjón ætla að heiðra okkur með nærveru sinni..... eða svo halda þau. Það verður dagleg hjóna golfkeppni, ég veit ekki hvort þau vita en við ætlum svoleiðis að rúlla yfir þau, eða amk höldum við það svona fyrirfram, ég hlakka til að fá þau í heimsókn.
Það eru ekki miklar framkvæmdir á dagskránni í þetta skiptið. Við ætlum kíkja á nýjar borðplötur, við ætluðum að láta slátra rísa stóra trénu en eftir Irmu fellibyl þá eru allir svoleiðis gæjar uppteknir við hreinsunarstörf að verðið hefur hækkað, svo við bara bíðum, svo verður laugin endurnýjuð eftir að við förum heim.
Úff þetta er langt flug, það eru ennþá 3.30 tímar eftir, ég er búin að horfa á tvær bíómyndir, borða og blunda smá. Og Shallow Hal er ekki lengur í boði. Legg mig bara pínulítið meira og leyfi annarri mynd að rúlla í leiðinni.

Ég er á leiðinni.....

Júbb það er búið fríið og við fljúgum heim með einhverri flugvél sem ber eitthvað eldstöðvarheiti.  Veit ekki en Eyjafjallajökull freistar mín ekki,  var svo fúl síðast, þegar skjárinn minn var bilaður og ég bara horfði á svartan skjáinn, ekki gaman í 7 tíma ekki mikil skemmtun. 

En fríið búið að vera frábært eins og alltaf,  gamli reyndar rúllaði mér upp í golfinu en hú kers? 

Við erum búin að slaka á,  hjálpa efnahag Bandaríkjanna dálítið,  samt bara pínulítið. Farangurinn tekur nánast ekkert pláss,  er pínu að spá hvort við ættum að skottast upp í Lowes og kippa með okkur þessu drellfína grilli sem við sáum um daginn á verði sem er svo gott að það er næstum dónalegt.  En ætli ég standist ekki freistinguna okkur vantar eiginlega ekki grill,  en fólk það kostaði nánast ekki baun! 

Það var reyndar skítakuldi í 2 daga,  mér finnst eiginlega að hafi verið freklega svindlað á mér. 

Bonville fékk ný húsgögn í sjónvarpsherbergið og fólk þau kostuðu ekki mikið ó nei.  Og þau komu í fylgd tveggja manna,  sem komu öllu fyrir og hurfu á braut með allar umbúðir kviss bang og búið. Þeir áttu að koma milli 7 og 11 um morgun en komu 6.40.  Dálítið snemmt hanarnir voru ekki farnir að opna einu sinni annað augað. 

Er að spuglera hvort við ættum ekki að fá okkur pínu í gogginn áður en við leggjum í hann.  

Frá sólinni í Flórída.  Óver and át. 

P.s.  Eva er víst fúl út í Ryan og sagan segir að það séu mikil vandræði á því heimilinu. Og haldið ykkur,  bæði Gwen og Jennifer eru óléttar af stelpum. Legg ekki meira á ykkur. 


Loksins stjörnublogg

Það er svo mikið að frétta af stjörnunum að ég þarf svo sannarlega að velja úr fréttunum.

En fyrst af öllum þá eru loksins fréttir af Barböru og Josh. Þau eru ennþá saman og voru gripin á fínum veitingastað að hnakkrífast svo ekki virðist hjónabandið vera í stanslausri lukku. 

Kata í höllinni er víst bomm í þriðja skiptið og í þetta skiptið þjáist hún ekki af morgunógleði eins og í hin skiptin og Vilhjálmur er alveg að klikkast úr lukku,  gaman í höllinni.    Enn og aftur eru Kim og Kanye að skilja ekki í fyrsta skiptið,  sjáum til hvað gerist. Ekki má gleyma Ben og Jennifer.  Hann er búinn í meðferð og Jen er alvarlega að hugsa um að taka hann aftur, hún náttla elskar dúddann. Og vá skv öruggum heimildum þá sofa forsetahjónin hér í fyrirheitna landinu ekki í sama herbergi,  ætli séu vandræði þar?  Ekki má gleyma Tori og Dean. Hann er á leiðinni í grjótið því hann borgar ekki meðlagið og mamman hennar Tori vill hann úr fjölskyldunni......

Og haldið ykkur,  Brad og Jen eru að stinga saman nefjum.

Legg ekki meira á ykkur í bili. 

Bæ ðe vei ástralska lambið var vont!!!

Í kvölder það aftur dásamleg pizzan. 

Ætla að skutlast í brennheitu sólina í smá stund. 

Hasta la vista. 

 


Margskonar golffélagar.

Maður hittir svo margt fólk þegar maður spilar golf.  Í þessari ferð erum við búin að spila með alls konar fólki.  Það voru fúlu Bretarnir,  sem höfðu allt á hornum sér,  ekkert var í lagi og allt leiðinlegt.  Ég man eftir hinum bretunum,  ungum hjónum, bæði lögfræðingar,  skemmtilegt par. Það voru líka Jenný og Joe, frá Kanada, hún skemmtileg skella, hann rólegri.  Svo voru flugumferðarstjórarnir sem fóru á eftirlaun rétt um fimmtugt Debbie og Andy,  þau hlökkuðu mikið til að eignast fyrsta barnabarnið.  Judy og Steve eru eftirminnileg því Judy e M S sjúklingur.  En þrátt fyrir augsýnilega erfiðleika var hún ákveðin í að njóta lífsins. Áðan spiluðum við svo við feðgin,  Carl og Neely.  Þau eiga golfvöll í Kanada.  Stelpuskottið hefur spilað golf síðan hún var tveggja ára.  Kannski ekki skrítið að hún var miklu betri en ég. 

Það hafa verið fleiri sem við höfum spilað með. Þetta er svo skemmtilegt við gólfið, alltaf er maður að hitta nýtt fólk. 

Annars gengur lífið hér í sveitinni sinn vanagang,  við reynum að slaka á og hlaða batteríin, þangað til næst. 

Ég er vel haldin í mat og hef ekki lagt til eina máltíð. 

Í kvöld er það lambakjet frá Ástralíu sem verður borið fram, með eðal rauðvíni frá Californiu,  gerist varla betra. 

Afsakið ritvillur er að paufast í glampandi sól 

Óver and át 


Að loknu golfmóti

Það voru glaðir ferðalangar sem komu aftur heim eftir heilan dag með skærustu stjörnum golfsins í gær.

Bay Hill golfvöllurinn er einn af þeim bestu í heimi og eftir heimsóknina þangað í gær hefur löngunin í að spila þar golf ekki minnkað.   

Við lögðum snemma af stað með fínu passana okkar sem leyfðu okkur að keyra alveg að klúbbhúsinu og leggja bílnum við 9 holuna. Við vorum líka með passa sem leyfðu okkur inn í klúbbhúsið.  Við stöldruðum ekki lengi þar við heldur héldum út á golfvöll að skoða bestu golfara heimsins spila golf.  Kannski þykir sumum það ekki merkileg tilhugsun en okkur gömlu þykir þetta æðisleg skemmtun.  Við fylgdum tveim hollum og vá hvað það var gaman. Við gengum allan völlinn og þvílíkt hvað hann er flottur. 

Komum heim lúin uppúr 8. Þá tók gamli öll völd í eldhúsinu og framreiddi yndislegan fisk. Skriðum í bólið því nýju húsgögnin komu eldsnemma í morgun.

Í dag er það golf og sólarlags. Legg ekki meira á ykkur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband