Færsluflokkur: Dægurmál

Fréttir úr Floridahreppi

Ein aðal fyrirsögnin hjá einu virðulega tímaritinu er ekkert smá..... Vilhjálmur er að halda framhjá henni Kötu!!!!! Hvað er eiginlega að piltinum ? Að láta sér detta í hug að halda framhjá henni Kötu svona yndislegri eins og hún er.  Ég á eftir að lesa greinina en ég verð að segja það alveg satt að mér krossbrá að sjá þetta.  

Annars gengur lífið hér sinn vanagang.  Við spilum golf og öðru gengur mun betur en hinu, en það stendur alveg til að bóta. Ég bara skil ekki hvað getur vafist fyrir konu að slá þessa litlu kúlu. En á morgun já á morgun verður vonandi dagurinn sem allt breytist.

Veðrið er búið að vera æðislegt heitt og fínt rúmlega 30 kall yfir daginn og hlýtt og ljúft á kvöldin. 

 


Flugvélablogg

Flugvélin Grábrók skottast með okkur yfir hafið í dag.  7 og hálfur tími er tíminn og haldið ykkur..... það er einn karl í áhöfninni og hann er flugþjónn.  Já börnin góð í flugstjórnarklefanum sitja tvær ungar konur. Öðruvísi mér áður brá.  Vorferðin okkar er að bresta á og hlakka ég mikið til. Við getum bókað að það verður keypt miklu minni mjólk en um jólin.  Ég ætla að gera mitt allra besta að vinna golfkeppnina miklu, ég ætla að borða góðan mat og ég ætla að slaka á.  Háhæðarhjónin ætla að koma í heimsókn og Digranesheiðarhjónin verða á staðnum.  Danmerkur vinir okkar eru líka á svæðinu svo það verður fullt að gera í bland við slökun. 

Jæja er að horfa á myndina Valentines day sem er stjörnum prýði, sem minnir mig á að standa mig í stjörnu eftirliti og auðvitað deila því. 

Það eru bara 6 tímar og kortér í lendingu.  Planið er..... ét, legg, gláp og kannski aðeins meira gláp. 

Sí jú


Áramótablogg

Er ekki tilvalið að líta um öxl svona um áramótin???

Kannski, en mig langar meira að segja frá rétt síðustu dögum.  Við erum sumsagt öll hér í Floridanu okkar, pabbi mamma, börn, barnabörn og María.  Eftir magakveisuna kröftugu eru flestir búnir að ná heilsu, gamli reyndar er að kafna úr hori og hósta en eftir góða ferð í Publix, stendur það allt til bóta.

Gormarnir Aríela og Benjamín eru búin að vera algjörlega frábær og mér sýnist Yrjan hlakka til að komast í hópinn og hamast með þeim.  Þau eru engu lík.  Eina stundina eru þau svoleiðis bestu vinir og þá næstu eru þau svo svarnir óvinir að þau ætla aldrei að tala við hvort annað aftur.  Við gömlu horfum á þetta á hliðarlínunni og þykir gaman að og orðin sem falla eru stórkostleg, það er ekki sparað við sig stóru orðin... " ég ætla aldrei að bjóða þér í afmælið mitt"  hefur heyrst, ásamt miklu fleiri gullkornum.  En þau eru svo skemmtileg að hið hálfa væri miklu meira en nóg.

Við gömlu erum auðvitað vön því að vera að dröslast hér bara sér og sjálf svo það er mikið fjör á heimilinu og auðvitað er svo ótalangt síðan kríli hafa verið á heimilinu.  Uppþvottavélin fer í gang að minnsta kosti tvisvar á dag, mikið keypt inn og allt á fullu.  En almáttugur hvað er gaman að fylgjast með þeim og vera með þeim.  

Við erum búin að golfa bara temmilega og fyrsti golfhringur ársins 2019 brestur á í fyrramálið.  Það hefur nú gengð dálítið brösuglega en ég hef fulla trú á að 2019 verði fullt af frábærum tilþrifum á golfvellinum. Ég er amk full tilhlökkunar.

2018 er búið að vera ljómandi ár og er engin ástæða til að ætla annað en að 2019 verði ennþá betra.  Ég stefni amk á það.

Já góðir hálsar ef það var ekki búið að koma fram þá er kalkúnn í matinn í kvöld.


Jólin jólin jólin

Þð er ekki laust við að jólin og dagarnir þar á undan hafi verið frekar skrítin.  Flestir hinna fullorðnu eru búnir að fá þessa líka skemmtilegu magakveisu.  Stubban byrjaði daginn eftir að við komum og svo hver af öðrum, þangað til við gömlu gáfumst upp á Þorláksmessu.  Og þvílíkt og annað eins, maður lifandi.  En nú eru flestir orðnir hraustir utan frumburðurinn, sem er að kafna úr hori, en það stendur vonandi til bóta.

Aðfangadagskvöldið var ákaflega skemmtilegt.  Maturinn var æðislegur bæði fugl og svín og eins og vanalega var ekki skortur á mat.  Pakkar voru teknir upp og þau minni yfir sig lukkuleg og við eldri líka.  Við höfðum leynivinaleik, svo allir fullorðnir fengu bara einn pakka frá sínum leynivin.  

Veðrið í Florida er búið að vera dálítið skrítið.  Við fengum storm, sem er algjörlega skrítið á þessum árstíma og meira að segja hér bara stutt frá kom hvirfilvindur sem stórskemmdi hús, en aðeins eitt hús og sama daginn var þvílík rigning hér að hið hálfa hefði verið miklu meira en nóg.  Það er búið að vera kalt á mognana en hlýnar svo um hádegi og krakkarnir hafa getað verið að svamla í lauginni.

Jóladagurinn verður væntanlega obboð rólegur, þar sem allt er lokað hér.  Flott aaað jaafna sig i maganum og safna kröftum fyrir golfhring á morgun, en á þeim vettvangi er virkileg þörf á bætingu.

 


Jóla - flugvélablogg

Það var flugvélin sem ber heitið Magni, ekki er það eldstöð, sem skottaði stórfjölskyldunni yfir hafið í þetta skiptið og var bara nokk snögg að fleyta sólþyrstum fjölskyldumeðlimum ásamt nokkrum fleirum yfir hafið.  Langþráð jólafrí er loksins komið og við ætlum að vera í sólskinsríkinu yfir jól og áramót.

Það er reyndar fátt sem minnir á sólskinsríkið hér fyrir utan núna því það hellirignir, það hellirignir maður lifandi, en rigningin kemur beint niður úr himninum og það er hlýtt svo það ere jákvætt.

Fjöllan skottaðist í Disney í gær og maður lifandi var mikið fjör.  Við ásamt næstum öllum í heiminum aðrir nutum ævintýraheims Disney.  En það var dálítið blautt seinni partinn svo það voru tja dálítið blautir ferðalangar sem komu heim í gærkvöldi en almáttugur hvað krakkakrílin voru kát.  Við gömlu vorum kannski lafandi þreytt eftir daginn en barnið innra var obboð kátt.

Í dag er á dagskránni að skransant í mollið, já við ætlum að skransast í mollið, þangað sem ég hef ekki komið í mörg ár.  Tilefnið er jakkafatakaup á gamla, ekki til að nota hér á jólunum, því hann er búinn að kaupa þennan líka drellfína jólajakka til að dressa sig upp á jólunum.

Ég er ekki búin að eiga lausa stund til að tjekka á stjörnunum en sú stund kemur, er reyndar búin að sjá að Megan er dálítið buguð af lífinu í höllinni stúlkukrílið hver láir henni, ólétt og alveg ný í þessu prinsessulífi.  En ég lofa bót og betrun.

Hér eru allir eins og svín í sagi, börn með einum pabba og einum afa í leikherberginu að sprella með þá og restin af fullorðnum að chilla.

 


Þetta er orðið ágætt.

Ég meina rigningin.  Við erum bara búin að vera í örfáa daga, en það er búið að rigna meira en góðu hófi gegnir,  núna er ein hellidemban að ganga yfir.  Ég sit samt úti í kannskannski 25 stigum, en laugin er þarna alveg ónotuð og það lítur ekki vel út fyrir laugarnotkun áður en við förum heim á morgun. 

Það er mikið búið að græja og gera, flytja allt dótið okkar í nýja húsið og útrétta ýmislegt.  Við erum eiginlega dálítið þreytt og myndum alveg þiggja nokkra daga í frí, þ.e. ef hætti að rigna. En við þurfum heim og fljúgum í þetta skiptið í gegnum Boston. LangurLangur dagur framundan. 

Nýja húsið er æðislegt , eiginlega dálítið fyndið að hafa bara valið dótið inn í það eftir ráðgjöf og svo bara kviss bang og allt tilbúið,  frekar þægilegt. 


Flugvélablogg

Það er flugvélin sem ber eldstöðvarheitið Eiríksjöull sem dröslar okkur yfir hafið í dag og tekur sjö og hálfan tíma í verkið. Ég dálítið óþolinmóð enda er ég að fara að sjá nýja húsið okkar í fyrsta skiptið alveg fullbúið.  Ekki laust við að frúin sé ofurspennt.  Jú jú við ætlum að ryðjast inn á Digranesheiðar hjónin í Bonvillinu okkar og spila með þeim golf alveg þangað til þau fara heim.  Við förum samt stuttu seinna því þetta er eiginlega auka-luxus-óþarfa túr til að taka út nýja húsið okkar í Lima Avenue.  Verðum komin heim áður en við vitum af.

Það eru margar klukkustundir í lendingu svo ég ætla að kíkja á bíó og vonandi blunda smá 


Eftir Alice

Við erum heldur betur búin að hafa það ljómandi huggulegt hérna í sveitinni okkar.  Veðrið var nú ekki til að hrópa húrra fyrir fyrstu dagana, en núna, maður lifandi, hvað það er yndislegt þarna úti.  

Við erum auðvitað búin að golfa dálítið, en ekki eins mikið og oft áður.  Morgungöngur eru orðnar fastur liður á dagskránni, þá daga sem við förum ekki í golf.  Vorum að koma úr einni slíkri langri og fínni.

En aðalaðtriðið eru tónleikarnir með Alice Cooper, sem við fórum á í gærkvöldi.  Keyrðum upp í Universal og pössuðum okkur á að vera mjög tímalega, því við höfðum ekki grænan grun um hvar Hard Rock Cafe væri.  Það var auðvitað ekki erfitt að finna það, svo við höfðum nægan tíma að trítla um City Walk og njóta og góna á alls konar fínerí. 

Þegar við komum í tónleikasalinn, þá var eiginlega augljóst hver var á dagskránni, því margir tónleikagestir tóku það alla leið og voru dressaðir og málaðir eins og Alice.  En so byrjaði hann........   æðislegt sjó, ég hef nú ekki hlustað mikið á hann, eiginlega ekki neitt, fyrr en við ákváðum að fara á þessa tónleika, en það skipti engu máli.  Þetta var æðislegt.  Einna æðislegust fannst mér þó gítarleikarinn einn, eða ein, því þetta var stúlkukorn en sú kunni að spila á gítarinn sinn.  Töffarastælarnir dásamlegir.  Hún er sko rokkari af bestu gerð.  Þetta finnst mér æðisleg skemmtun, að fara á svona frábæra tónleika og verð eiginlega að fara að finna þá næstu.

Erum núna að gera það upp við okkur, hvort við eigum að nenna að keyra út á strönd eða hvort við eigum að kúra við laugina.  Það eru erfiðar ákvarðanir teknar hér á þessu heimili á hverjum degi.

Það er steik í kvöld góðir hálsar.

Hasta la vista.


Fyrsta blog í fríi

Það var eðal flugvélin sem ber eldstöðvarheitið Snæfellsjökull sem skottaðist yfir hafið með okkur í þetta skiptið.  Eins og venjulega var vélin smekkfull af sólarþyrstum farþegum, allra þjóða kvikyndum og meira segja einn í náttbuxum.  Eins og venjulega vorum við eldsnögg í gegnum flugvöllinn, enda enginn farangur að trufla okkur.  Fyrsta nóttin á hóteli, ekki alveg eins skemmtilegt eins og koma beint heim en fínt samt.

Í vikunni fyrir brottför, var ég svo agalega óheppin að fá "ristil" á ennið og yfir hægra augað.  Agalega leiðinlegur ferðafélagi.  Hans vegna þarf ég að innbyrða gommu af sýklalyfjum og setja andstyggilegan áburð í augað  og verst af öllu þá verð ég eiginlega að vera algjörlega á snúrunni.  En á morgun er síðasti dagur í pillum, svo þetta fer allt að komast í eðlilegan farveg.  Ég er ennþá með eldrauða bletti, en augað og blettirnir ekki eins stokkbólgnir svo þetta er allt á réttri leið.

Það var yndislegt að koma í Bonvillið okkar, eftir ferð í Ameríska Costco og smá skrens í átlettinu.  Það er nú ekki búið að vera verður til að hrópa húrra fyrir, en almáttugur, það er kannski 25 stig á daginn, varla hægt að hugsa sér betra í mars.

Er aðeins búin að skanna stjörnulífið hér fyrir westan og mér sýnist ekki vera skortur á djúsí fréttum.  Ben og Jen farin að eyða nóttum saman aftur, hvað finnst ykkur um það?  og Nicole og Keith að skilja....  algjörleg óskiljanlegt.  Aumingja Caitlin Jenner þurfti að láta skera ljótan blett af nefbroddinum og er algjörlega ómöguleg yfir því.  En ekki orð af Travolta hjónunum eða Barböru og hennar.

Er búin að vera vel haldin í mat og drykk, þrátt fyrir drykkjubann og börnin góð, það verður þykk steik í kvöld og þá fæ ég mér bara smá rautt með, en bara smá.

Það er svo Kohls á eftir og þá verður nú gaman

Tjá


Umferðarþankar

Nú er enn eitt bloggið að verða til.  Í dag er suddi úti, eiginlega ómögulegt verður, ekki kalt og ekki hlýtt, ekki vetur og ekki sumar.  En það er farið að birta maður minn, enda er vorið á næsta leiti.

Ég keyri á hverjum í morgni í vinnuna og hef gert svo árum skiptir.  Umferðin er ógurleg.  Ég hef þó tekið þann pól í hæðina að leggja af stað með hönum, eða eiginlega svo snemma að hanarnir eru ekki farnir að hugsa sér að opna augun.  Þannig afreka ég að keyra á eðlilegum tíma frá Hafnarfirði til höfuðstaðarins.  Ef ég er örlítið seinni, þá er geðheilsu minni mikil hætta búin, því umferðarþunginn er þvílíkur að túr sem alla jafna ætti að taka 10 - 15 mínútur tekur allt að klukkustund og það sér hver maður með mitt geðslag að það gengur ekki.  Ég hef svo margt skemmtilegra að gera í lífinu en að húka í bílnum mínum og hreyfast varla.  Ég hef heyrt suma segja að þeir njóti samverunnar við bílinn sinn í öngþveitinu, en ég trúi því ekki, obboð er líf þeirra leiðinlegt.

Svo eru það umferðarljósin.  Ég skil ekki hvað þau virðast flókin í notkun.  Síðast þegar ég vissi, þá átti að bruna af stað þegar græna ljósið kviknar og stoppa þegar það rauða lætur sjá sig.  Eitthvað vill það skolast til í höfðinu á mörgum ökumanninum.  Minni ykkur aftur á geðslag mitt.  Ég get alveg látið það fara töluvert í pirrurnar á mér, þegar græna ljósið kemur og ökumaður númer 1.....  lítur upp.....  leggur frá sér símann.....  setur í gír..... og drattast af stað.  Ég get svo svarið það að oft komast ekki nema kannski 3 bílar yfir á græna ljósinu.  Svo virðast margir halda að rauða ljósið sé einhverskonar vinsamleg ábending um að það ætti að fara að hugsa sér að bruna ekki yfir.  Það er varla undantekning heldur regla að þegar græna ljósið kviknar þá er einhver að leggja af stað hinum megin. 

Ég vildi að allir væru eins fullkomnir ökumenn og ég......

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband