Færsluflokkur: Dægurmál
19.9.2008 | 10:19
Stöð 2 hringdi í mig í gærkvöldi.
Ekki að það sé sérstaklega merkilegt að Stöð 2 sé að leita nýrra áskrifenda en þá var símtalið sem ég fékk í gærkvöldi frekar skondið.
Síminn hringdi semsagt heima hjá mér í gærkvöldi uppúr kl. 9. Gamli svaraði og þar sem var spurt eftir mér rétti hann mér símann. "Halló" segi ég. Þá er sagt hinum megin á línunni HÆ, þarna fóru kvarnirnar í mér á flug, einhver sem heilsar mér með "hæ", hlýtur að vera einhver sem ég þekki. Sem betur fer hélt stúlkan áfram eftir að ég hafði reynt að vinna mér tíma og svarað hæinu með hæ líka svona til að vera með. Semsagt eftir Hæ inu kom: "Ég heiti Rósa og er að hringja frá Stöð 2. Ætlaði að athuga hvort þú vildir vera með Stöð 2 í október?". Þar sem ég hafði ekki hugsað mér Stöð 2 í október sagði ég henni bara það. Rósa sagði OK og kvaddi. Eftir sat ég frekar undrandi. Þetta var skrítnasta sölusímtal sem ég hef á ævi minni tekið þátt í. Rósa gerði mér ekkert tilboð, ég hef ekki hugmynd um hvort "Stöð 2 í október" væri frí eða ég þyrfti að borga milljón fyrir "Stöð 2 í október". Er ekki alveg viss um að Rósa vinkona mín færi Stöð 2 marga áskrifendur. En Rósu til hróss, þá var hún kurteis og glaðleg.
Ég veit að það eru margir að velta því fyrir sér þarna úti hvað eru núna margir klukkutímar þangað til ég flýg af stað. Það eru 174.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.9.2008 | 14:28
Lenti undir kutanum!!
Fór til doksa í gær. Blettræfill er búinn að gera sig heimakominn á hægri handlegg í nokkra mánuði. Þar sem hann vildi ekki í burtu þrátt fyrir meðferð með sterakremi, fór ég stundvíslega aftur á fund húð læknisins þar sem hún vildi taka sýni úr kvikindinu. Hún gerði þó gott betur og skar blettinn algjörlega í burtu. Skarta ég nú þessum líka fína plástri. Blettskrattinn á burt og kemur vonandi aldrei aftur.
Af ferðaundirbúning er það að frétta að núna eru aðeins 218 klst í brottför. Vá hvað tíminn líður. Þó ég hlakki mikið til að fara í sólina og fríið, þá hlakka ég eiginlega meira til í að fara í fréttaleysi. Ég er að verða svo döpur að hlusta á fréttirnar dag eftir dag og ekkert nema bölsýni... Fannst þó fréttin um forystusauðinn yndisleg, ekkert neikvætt þar á ferðinni. Elsku fréttamennirnir okkar ættu að temja sér að færa okkur örlítið bjartari sýn. T.d. las ég um daginn að það væru 20% líkur á heimskreppu. Hefði ekki mátt snúa þessu við og segja að það væru 80% líkur á að EKKI yrði heimskreppa. Ég bara spyr?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.9.2008 | 10:11
271......
tímar þangað til við gömlu fljúgum af stað. Það er orðið svo stutt að ekki tekur því að telja niður í vikum né dögum, nú eru það klukkutímarnir sem gilda. Í þetta skiptið verður stubban heima, vonandi á kafi í skólabókunum.
Ég get varla á mér heilli tekið, sé þó að þetta verður töluvert erfitt. Golfið tekur nú tíma, svo verður nú mikið að gera að ná sér í allar nýjustu upplýsingarnar um stjörnurnar og lifnaðarhætti þeirra. Þið sjáið að þetta verður varla nokkur afslöppun, getum þó vonandi "skvísað" inn nokkrum stundum við laugina.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.9.2008 | 11:29
Nú er það í næstu viku....
og ekkert minna. Við gömlu erum að fljúga í frí í næstu viku. Nú má fara að hlakka til . Hvað ætlum við að gera í fríinu? Hugs hugs hugs.... jú við ætlum að golfa, golfa og golfa. Ætli við slökum ekki líka á við sundlaugina, röðum í okkur góðum mat, sem við skolum niður með ágætis rauðvínum. Mmmmmm hvað er hægt að hugsa sér það huggulegra. Og kannski bregður frúin sér jafnvel í eina eða tvær búðir. Það er nefnilega svoleiðis að þótt dollarinn sé í hæstu hæðum, þá er verðmunurinn alveg jafn mikill. Vinkona mín var að koma frá USA með samanburðinn á hreinu. Hún keypti sér maskara á $12, sami maskari kostar á Íslandinu í dag andvirði $25. Segið svo að ekki borgi sig að skreppa westur að sjoppa.
Og svo fær maður sólina og hlýjuna í bónus.
Má eiginlega ekki vera að þessu, þarf að fara að pakka, ég er að fara í NÆSTU VIKU
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.9.2008 | 10:57
Í næstu viku?
Vinkona mín hefur yndislegt tímatal. Það er eiginlega pínu svona tilhlökkunartímatal. Ég er farin til dæmis að hlakka mikið til sunnudagsins. Þá get ég með góðri samvisku sagt að ég sé að fljúgja í frí í "næstu viku". Sko ég skal útskýra. Ég ætla að fljúga af stað föstudaginn 26 sept. Á sunnudaginn eru semsagt skv tímatali okkar hinna tæpar 2 vikur eða 12 dagar í brottför. Nei vinkona mín segir að ég sé að fara í næstu viku. Er þetta ekki dásamlegt .... jú þetta er eiginlega líka alveg rétt, þegar sunnudagurinn er kominn þá er ný vika komin og er ekki föstudagurinn 26 í næstu viku á eftir þessari sem byrjar á sunnudaginn?
Jú það er sko alveg rétt og það er miklu styttra í eitthvað sem gerist í "næstu viku", heldur en það sem gerist eftir "tæpar 2 vikur"
Héðan í frá ætla ég að kalla þetta tilhlökkunar tímatalið og á sunnudaginn er ég sko að fara í NÆSTU VIKU.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2008 | 09:25
Strætóvilji ha??
Það lá við að skyrið mitt hrykki illa ofan í mig, þegar ég fletti blaðínu í morgun og sá í vinstra horninu á einni blaðsíðunni: "VANTAR VILJANN TIL AÐ NOTA STRÆTÓ". Þessi fyrirsögn vakti athygli mína svo ég las áfram. Þarna er Ármann Kr Ólafsson að útlista að fólk almennt vilji alls ekki nota strætó, kerfið sé bara hið ágætasta en fólkið vilji einhverrra hluta vegna ekki nota vagnana. BÚLL SHITT afsakið orðbragðið.
Þegar ég flutti í hverfið mitt fyrir 6 árum var dóttir mín í menntaskóla og ekki komin með bílpróf. Því lá beinast við að hún ferðaðist með strætó í skólann. Það var bara eitt vandamál, það gekk enginn strætó í hverfið. Ég hafði samband við hann Pétur hjá Strætó og átti við hann nokkuð skemmtileg tölvupóstsamskipti. Mér fannst þá og finnst enn að ég og mínir eigi rétt á þokkalegri strætóþjónustu ekki síst þar sem ég borga gommu í skatt og sá skattur fer að hluta til í strætó, en ég svo mikill auli að flytja í hverfi þar sem strætó sá sér ekki fært að þjóna. Til að gera langa sögu stutta þá tók stubban mín bílpróf, við öngluðum saman í gamlan bíl með henni og ég sendi Pétri hjá strætó síðasta tölvubréfið og þakkaði honum fyrir enga þjónustu. Síðan hafa nokkur strætókerfi komið og farið og Ármann Kr og félagar misstu amk einn viðskiptavin.
Núna gengur strætó í hverfið mitt. Einn góðviðrisföstudag var ég svo ljónheppin að eiga frí í eftirmiðdaginn, mælti mér mót við uppáhaldsfrænkuna og við skutluðumst í bæinn, fengum okkur löns og hvítvínstár. Þegar að heimför kom, datt mér eiginlega ekkert annað í hug en að taka leigubíl. Frænkan benti mér á strætó og gaf mér meira að segja strætómiða. Þarna vantaði mig ekki viljann, ég skokkaði á Lækjartorg, beið í smástund eftir vagninum. Frænkan var búin að segja mér að biðja um skiptimiða, sem ég gerði samviskusamlega og hreiðraði svo um mig í ágætis sæti. Ferðin í Garðabæinn var hin skemmtilegasta og ég orðin svo opin fyrir strætó að hið hálfa hefði verið miklu meira en nóg. Ég fór út við "Bitabæ" skveraði mér undir Hafnarfjarðarveginn til að ná í vagninn heim til mín. Kíkti á tímatöfluna og jú viti menn það átti vagn að fara kl. 48 semsagt 12 mínútur í.. Ég hinkra og á réttum tíma stekkur bílstjórinn út úr einhverri hurð. Jú hú strætó er flottur hugsa ég. Maðurinn segir við okkur tvær sem vorum að bíða eftir vagninum: VÍFFFFFILSSSTAÐIR, ha nei ég var ekki að fara að Vífilsstöðum, ég var að fara í Ásahverfið og segi manninum það. VÍFFFFFILSSSSTAÐIR segir þá maðurinn aftur, ég orðin eins og fífl í framan, nei ég er ekki að fara að Vífilsstöðum. Þá kom í ljós að vagninn fór að Vífilsstöðum, stoppaði svo aftur á stöðinni og dröslaðist svo heim til mín, hugsanlega með viðkomu á Álftanesinu. Bílstjórinn talaði ekki aðra íslensku en þessa, skildi mig augsnýnilega ekki baun. Nei ég nennti þessu ekki svo ég skundaði af stað á háhæluðu skónum mínum. Ég var 20 mínútur að ganga heim og enginn strætó var kominn. Ég semsagt var fljótari að trítla á háhæluðu skónum en að taka strætó.
Ármann minn. Mig skortir ekki viljann. Mig skortir strætó. Ég hef alltaf verið fylgjandi strætó, en það verður þá að vera hægt að nota kerfið. Og annað, ég eða aðrir eigum rétt á því að geta talað málið okkar við strætóbílstjórann, ég á ekki og vil ekki þurfa að kunna pólsku, litháísku, rússnesku, kínversku eða nokkuð annað mál en íslensku til að geta fengið upplýsingar hjá strætóbílstjóra.
Þetta finnst mér að minnsta kosti
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2008 | 10:03
Morgunumferðin, oj barasta
Skólarnir eru byrjaðir og það má sjá á umferðarteppunni á morgnanna. Ég legg leið mína úr Garðabænum í Skeifuna á hverjum morgni. Á venjulegum sumardegi tekur þetta ferðalag svona um það bil 13 mínútur, fer eftir því hvort ég lendi á grænu ljósi við Hafnarfjarðarveginn. Allt í lagi með það.
En núna..... skólarnir byrjaðir og þá tekur mig þann tíma að komast úr hverfinu mínu út á Hafnarfjarðarveginn. En ég er svo glöð að það er verið að bora Héðinsfjarðargöng. Höldum áfram ferðalaginu mínu og fjölmargra annarra. Þegar á Hafnarfjarðarveginn er komið tekur ekki mikið betra við, umferðin silast áfram og algengur ferðatími í Skeifuna á góðum haust og vetrarmorgni er um það bil 35 til 40 mínútur. Aftur er ég svo glöð að það er verið að bora Héðinsfjarðargöng.
Nei vitið þetta er bara ekki hægt, mér sýnist umferðarmannvirkin hérna á höfuðborgarsvæðinu vera sprungin og kannski fyrir löngu, mér heyrist á samverkafólki mínu, sem býr fyrir ofan Ártúnsbrekkuna, þar vera svipað ástand. Ennþá ítreka ég gleði mína með borun Héðinsfjarðagangna. Í alvöru talað, þá er þetta auðvitað algjörlega ómögulegt, hérna á þessum landshluta eru langflestir á ferðinni og að ferðatími milli staða séu eins og landshluta á milli er auðvitað algjörlega óásættanlegt. Ferðalög mín á höfuðborgarsvæðinu eru ekki nein luxusferðalög, ég er bara að fara í vinnuna og finnst mér, ég alveg geta gert kröfu til að umferðarmannvirki anni að mestu leyti umferðinni sem er á svæðinu. Gott mál að samgöngunefnd skyldi sjá sér fært að skoða samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, ég hefði viljað vita af þeim, hefði þá gjarnan boðið þeim í morgunkaffi og síðan leyft þeim að sitja í með mér í vinnuna. Á leiðinni hefði gefist nægur tími til að ræða umbætur og viðra hugmyndir....
En ég er SVO glöð að það er verið að bora Héðinsfjarðargöng.
Þetta finnst mér að minnsta kosti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.8.2008 | 10:49
Pólska ljósmóðirin
Áfram um útlendinga á Íslandi.
Sá í sjónvarpinu í gærkvöldi viðtal við pólska ljósmóður sem vinnur hér á landi. Þar var á ferð kona að mínu skapi.
Hún flutti hingað fyrir 6 eða 7 árum, útlærð ljósmóðir frá Póllandi. Ekki var menntun hennar viðurkennd á Íslandi, svo hún skellti sér í skóla til að verða sér út um íslensk réttindi. Þarna fannst mér hún strax orðin jákvæð og frábær. Hún er búin að skrifa bæklinga á pólsku um meðgöngu og fæðingu, til að auðvelda samlöndum sínum. Annað prik frá mér. Þarna var ennþá fréttamaðurinn að kynna konuna. Svo hófst viðtalið. Konan talaði nánast lýtalausa íslensku, jú það var hægt að heyra hreim, en hvað með það. Orðaforðinn var flottur, hún beygði orðin rétt og talaði hið besta mál, sem margir íslendingar gætu verið ánægðir með sjálfir.
Þarna var kona á ferð sem er fengur í að hafa á Íslandi. Hún var augljóslega hingað komin til að samlagast samfélaginu sem hún flutti til, hún ætlaði sér ekki að vera gestur hérna, hér ætlaði hún að eiga heima. Þetta er kona sem mér finnst aðdáunarverð.
Það finnst mér að minnsta kosti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.8.2008 | 10:41
Ferð í bakaríið.
Um daginn átti ég leið um Laugaveginn, sem vart er í frásögur færandi. Var nokkuð liðið á daginn og þegar ég trítlaði framhjá Sandholt bakaríinu greip mig löngun í panini brauð. Ekki mjög flókið fannst mér. Ég semsagt dreif mig inn, þurfti að bíða í dágóða stund eftir að afgreiðslustúlka kæmi til aðstoðar. Ég bauð góðan daginn og sagði si svona "áttu panini brauð?" Þá segir vesalings stúlkan: "sorry I don't speak Icelandic". Ég var nú dálítið hissa á skilningsleysi stúlkunnar, var smá stund að tína kjálkann upp úr gólfinu, en svaraði greyinu si svona: "do you have panini bread?". Nú vorum við að tala saman, stúlkukindin og ég. Nei hún átti ekki panini bread.
Þegar ég dreif mig út úr bakaríinu var ég fúl ég á ekki að þurfa að tala útlensku í íslensku bakaríi. Varð líka hugsað til þess ef mamma mín hefði orðið svöng fyrir utan Sandholt. Mamma sem skilur ekki orð í erlendu máli, hún hefði komið algjörlega að tómum kofanum í bakaríinu. Semsagt fólk sem skilur ekki erlend mál er ekki velkomið í Sandholt á Laugaveginum.
Svo fannst mér þetta ótrúlega fyndið, hvað skildi stúlkukindin ekki? var það "panini brauð" eða "panini bread". Fyrir mér hefði "panini" verið lykilorðið.
Ekki það að ég hafi mikið á móti útlendingum vinnandi á Íslandi. Ég var sjálf útlendingur vinnandi í Englandi fyrir mörgum mörgum árum. Ég hefði aldrei, aldrei, aldrei fengið þar vinnu og ekki talað málið og ég var ekki í afgreiðslustarfi. Mér finnst okkur íslendingum boðið uppá dónaskap af þjónustuaðilum sem hafa starfsfólk í þjónustustörfum, sem ekki tala málið okkar, málið sem er málið í landinu.
Mér finnst þetta að minnsta kosti.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.7.2008 | 14:24
Fór á slysó
Myndarlegar húsmæður eins og ég geta nú lent í ýmsum hrakningum. Var ég ekki bara í sakleysi mínu að sneiða lambaket, þegar hnífurinn einhvern veginn rataði á vitlaust ket. Hann semsagt lenti á vinstri vísifingri mínum. Blóð út um allt og flipi næstum skorinn af. Gamli límdi þetta saman með plástri og síðan var brunað á slysó. Þegar næstum 3 klukkutímar voru liðnir var ég í alvöru farin að hugsa mér til heimferðar, það var jú ekki farið að blæða í gegnum plástrana og ég er nú ekkert að yngjast, fannst tíma mínum betur varið heima við. En lét mig hafa biðina og skoðaði fólkið sem beið með mér. Við vorum flest búin að bíða svo lengi saman að mér fannst ég næstum því þekkja þetta fólk og hafði samúð með því. Loksins kom þó að mér, mér fannst þetta næstum því skammarlegt erindi, skurður á putta, fannst ég eiginlega vera að trufla. En þegar hjúkkan tók plástrana af puttanum þá byrjaði blóðið að flæða aftur, eins og geit hefði verið slátrað á borðinu. En þegar stúlkan var ekki viss um að það væri líf í flipanum mínum var mér allri lokið og ég sá mikið eftir að hafa ekki strokið af biðstofunni. Sem betur fer var læknirinn ekki sammála og bróderaði af mikilli snilld flipann aftur á. Stubban sá tækifæri í meiðslum móðurinnar. Hún á að fá að taka saumana úr undir leiðsögn hjúkkunnar sem hún verður með á vakt....
Mér finnst ég ekkert nema putti, hann flækist alls staðar fyrir og það er sko ekki auðvelt að pikka á lyklaborðið, þetta einhvern veginn ruglar allt. Ekkert golf fyrr en eftir amk 9 daga þegar stubban rífur saumana úr . En hvarð er ég að kvarta, þetta er bara smá skeina á putta.....
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)